19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

1. mál, fjárlög 1935

ÓTh [frh.]:

Ég var að tala um Kjósarveg, þegar hæstv. forseti fór fram á, að ég frestaði máli mínu um stund. Ég sagði, að nauðsyn bæri til að hækka aftur þessa fjárveitingu, m. a. af því, að 10 þús. kr. koma ekki að gagni. Þetta er því nauðsynlegra sem það er bein mannhætta að fara yfir Reynivallaháls, eins og sá vegur er nú.

Næst er XX. brtt. á sama þskj. Fyrri hl. till. er um lendingarbætur á þrem stöðum í mínu kjördæmi. Fyrst er farið fram á 12 þús. kr. til bátabryggju í Staðarhverfi í Grindavík. Hefir legið fyrir fjvn. allýtarleg skýrsla, er sýnir, hversu rík nauðsyn er fyrir því, að útvegsmenn í Staðarhverfi verði styrktir til þessa. Fjvn. hefir viðurkennt þessa þörf, en vill þó ekki veita nema 5000 kr., sem er alveg ófullnægjandi. — Í öðru lagi fer till. fram á 5800 kr. til lendingarbóta í Kirkjuvogi í Höfnum og 4000 kr. til lendingarbóta á Stafnesi. Á öllum þessum stöðum verða sjómenn að bera aflann á bakinu úr bátunum og upp á land. Er það alveg ótilhlýðilegt níð á þessa menn, að bæta þessum þrældómi ofan á þá örðugleika, sem þeir eiga í við erfiða sjósókn, enda er víðast hvar hér á landi svo komið, að þetta fornaldarsnið hefir verið afnumið. En þetta kjördæmi, sem er ríkissjóði mikill tekjustofn, hefir á áberandi hátt orðið útundan um fjárveitingar í þessu skyni. Úr þessu myndi verða bætt að nokkru ef samþ. yrðu þessar till. mínar, enda þótt það væri hvergi nærri fullnægjandi.

Hér eru nú svo fáir þm. viðstaddir, að ég sé ekki mikinn ávinning að því að fara að lesa upp umsóknir og grg., enda væri það nokkuð mikið mál að því er Grindavík snertir. En margir hv. þm. hafa komið á þessa staði og séð, hvernig til háttar. Hefir það leitt til þess, að Grindavík hefir á undanförnum árum fengið nokkra leiðréttingu sinna mála, að því er annað hverfið snertir, en þetta hverfi, Staðarhverfi, hefir orðið algerlega útundan, þó að þörfin væri ekki minni þar.

Viðvíkjandi þeim 5800 kr., sem ég fer fram á til lendingarbóta í Kirkjuvogi í Höfnum, vil ég taka það fram, að Magnús Guðmundsson hafði heitið því að sjá íbúunum þar fyrir nokkru fé til þessara hluta, ef hann færi áfram með þessi mál. Eftir stjórnarskiptin bað ég hæstv. atvmrh. að sjá um, að styrkur til þessara lendingarbóta kæmi í fjárl. Hann kvaðst ekki geta það, en tók vel í að styðja mig um þetta mál á Alþingi. (Atvmrh.: Með nota bene). Já, handjárnunum. Ég veit, að hæstv. ráðh. á erfiðara með þetta en hann óskar.

Að öðru leyti er sama um þessa till. að segja og um framlagið til bátabryggju í Staðarhverfi í Grindavík. Þörfin er brýn og augljós og krafan réttlát. Enn má segja hið sama um till. um 4000 kr. framlag til lendingarbóta á Stafnesi, þar hefir verið lagt í mikinn kostnað við bryggjugerð, og hafa útgerðarmenn aðallega staðið að því sjálfir. En sú bryggja fullnægir hvergi nærri þörfinni, og er við búið, að brim brjóti hana og valdi stórtjóni. Er því nauðsyn, að þessar framkvæmdir verði hafnar tafarlaust.

Ég myndi færa fleiri rök fyrir máli mínu, ef salurinn væri ekki því nær tómur. Hér sést hvorki fjmrh. né frsm. meiri hl. fjvn. né nokkur úr fjvn. Er þetta óneitanlega hálfgerður skrípaleikur, að halda mönnum við fjárl.umr., en hæstv. fjmrh. nennir ekki að vera viðstaddur. Ég hefi nú ekki setið lengi á þingi, en þó hefi ég setið hér 10 þing, og ég man ekki til, að fjmrh. hafi ekki talið sér skylt að vera viðstaddur, þegar rætt var um fjárl. (Forseti BÁ): Óskar hv. þm., að náð sé í hæstv. fjmrh?). Já, ég óska þess, enda þótt mér leiðist alltaf að sjá hæstv. fjmrh. (Fjmrh. kemur). Ég hefi verið að kvarta um, að hæstv. fjmrh. hafi varla sézt hér við umr. (Fjmrh.: Það er misskilningur). Það er enginn misskilningur. Ég þekki hann, og þó hann sé nú ekki stærri en þetta, kemur maður þó auga á hann, ef hann er viðstaddur. Ég hefi verið hér allajafna við þessar umr., og hefi ég lítið séð hæstv. fjmrh. Mér þótti miður, að hann skyldi ekki vera viðstaddur meðan ég var að ræða um aðaltill. mínar, þskj. 815,XX. Ég færði þar rök að því, hvílík nauðsyn væri á framlagi til þeirra hluta, sem þar eru nefndir, og þetta framlag er ekki svo mikið, að það sé ofvaxið þeim ríkissjóði, sem ætlað er að standa undir slíkum fjárl., sem hér eru lögð fram. Ætla ég ekki að endurtaka þau rök, en vænti þess, að hæstv. ráðh. hlusti að öðru leyti á mál mitt.

Þá er 2. liður sömu brtt., að ríkisstj. leggi til bryggjugerðar og lendingarbóta í Gerðavör 2/3 kostnaðar, eða allt að 27000 kr. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp þessa styrkbeiðni frá oddvita Gerðahrepps:

„Hér með vil ég fyrir hönd Gerðahrepps biðja um, að hið háa Alþingi vildi veita hreppnum að 2/3 hlutum kostnað við að byggja bryggju hér við Gerðavör, það stóra, að hægt sé að lenda við hana vélbátum hreppsins. Hr. verkfræðingur Benedikt Jónasson hefir mælt út og áætlað, að bryggja kosti um kr. 27000,00.

Ástæður fyrir beiðni þessari eru sem hér segir:

Árið 1928 veitti hið háa Alþingi hreppnum helming kostnaðar við að byggja sjóvarnargarð við Gerðavör. Sá garður átti að vera 150 metra langur, og var áætlað, að hann myndi kosta um kr. 30000,00. Nú er búið að byggja af honum 100 metra, sem kostuðu um kr. 19000,00. Það var nægjanlegt meðan vörin var aðeins notuð fyrir opna vélbáta. En ef við fáum hjálp til að byggja bryggju fyrir stærri vélbátana, þarf að fullgera garðinn, og mun það þá kosta um kr. 13000,00, eða bryggja og viðbótin við garðinn kr. 40000,00. Það eru því kr. 27000,00, sem farið er fram á, að hið háa Alþingi veiti á næstu fjárlögum.

Ég vona nú, að hið háa Alþingi sjái, hve nauðsynlegt er fyrir okkur að fá þessi mannvirki, svo við getum gert út báta okkar hér heima, í stað þess að kaupa viðlegu fyrir þá í öðrum hreppum.

Að við erum svo djarfir að biðja um styrk að 2/3 hlutum, kemur til af því, að við erum nú búnir að eignast 10 vélbáta að stærð 12—30 smálesta, án þess að biðja um styrk eða ábyrgð ríkisins til þeirra kaupa. Við erum því í miklum skuldum og þess vegna ófærir til að koma þessu mannvirki upp nema að litlu leyti. Og ennfremur vegna þess, að hið háa Alþingi, með löggjöf, leyfði dragnótaveiðar hér í allri landhelgi, og með því gerði allan opna báta skipastól okkar arðlausan um ófyrirsjáanlegan tíma.

Virðingarfyllst.

(Sign.) Guðm. Þórðarson.“

Hér eru færð skýr rök fyrir því, að nauðsyn er á, og sanngirni mælir með því, að framlagið til þessarar bryggju sé hærra en venjulega. Hvað sem menn annars segja um hið stóra ágreiningsmál, dragnótaveiðina, hvort hún skuli leyfð eða ekki, þá er það víst, að heimildin til dragnótaveiða í landhelgi hefir alveg sérstaklega skaðað þennan hrepp. Það er því hin mesta sanngirni, að orðið sé við þessari beiðni.

Ég vil leyfa mér að skýra frá því, að þessi styrkbeiðni hefir verið lögð fyrir fiskiþing Íslands til umsagnar. Þar var samþ. af fjárhagsnefnd fiskiþingsins — en í henni eru þeir Magnús Sigurðsson bankastjóri, Páll Halldórsson, Níels Ingvarsson, Bjarni Eggertsson og Jón Jóhannesson — að mæla eindregið með því, að Alþ. verði við þessari beiðni. Af þessu mega menn marka, að hinir kunnugustu menn, sem ekki er hægt að væna um þingmannsins eðlilegu tilhneigingu til þess að draga taum kjósenda sinna, hafa hiklaust lýst því yfir, að þeir telji þetta nauðsynjaverk. Ég vænti því, að það verði vel undir þetta tekið.

Á sama þskj., rómv. 30, á ég brtt., sem fer fram á, að veittur sé 17000 kr. styrkur til heimavistarskóla í Vatnsleysustrandarhreppi. Umsókn liggur fyrir um þetta, sem er undirrituð af allri hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps. Ég sé ekki annað en niður verði að falla kennsla, ef ekki er hlaupið undir bagga með að byggja skólann. Í þessum hreppi er ástandið svo, að ég held, að það komist ekki helmingur barnanna í þann kofa, sem reynt er að halda skólann í. Það hefir verið reynt að leigja húspláss hjá ungmennafélaginu, en það er ekki annað sýnilegt en niður falli kennsla, ef ekki verður breyting á. Annaðhvort verður að breyta l. um kennslu barna og unglinga eða skapa hreppunum þá aðstöðu, að þeir geti fullnægt fyrirmælum l. Það liggur við, að það sé verra en fjós það húspláss, sem verður að notast við til kennslu í þeim hreppi, sem hér um ræðir. Þetta er hættulegt heilsu barnanna og dregur úr gagnsemi þeirra af skólanáminu. Ég ætla að sjá, hvernig undirtektirnar verða undir þessa till.

Ég hefi stillt í hóf, þar sem ég flyt ekki viðtækari till. En það getur enginn láð mér, þó að ég reyni að koma fram hinum nauðsynlegustu umbótum fyrir mitt kjördæmi.

Þá er á sama þskj., rómv. 35, brtt., sem fer fram á 5 þús. kr. framlag til íþróttaskólans á Álafossi vegna sundlaugarbyggingar. Ég hygg, að svo hafi verið um flestar sundlaugar hér á landi utan kaupstaða, að framlagið úr ríkissjóði hafi numið helmingi kostnaðar. Kostnaður við byggingu þeirrar sundlaugar, sem hér um ræðir, var 29 þús. kr., og ætti framlag ríkissjóðs því í raun og veru að vera 14½ þús. kr. En í samráði við manninn, sem hefir byggt laugina, hefir verið sýnd sú hófsemi og mér liggur við að segja óviðeigandi kurteisi, að fara ekki fram á meira en 5 þús. kr. Það hefði verið eðlilegt, að þessi sundlaug væri að öllu leyti kostuð af ríkinu. Það hefði ekki verið nema lítilmótleg verðlaun til þessa manns fyrir hans dæmalausu starfsemi í þágu íþróttanna hér á landi, sem hefir borið ríka ávexti og leitt af sér meiri blessun fyrir þjóðfélagið en starf margra alþm., sem sitja hér 3 mánuði á ári og þiggja laun fyrir úr ríkissjóði.

Ég veit ekki, hvernig undir þetta verður tekið, en það veit ég, að ef þessi maður væri liðsmaður stj., þá væri búið að birta af honum tugir mynda, og hundruð dálka af lofsamlegum ummælum hefðu verið skrifaðir um hann í blöðin, og það hefði verið hægt án þess að ljúga einu orði. En það er búið við því, að úr því þessi maður er ekki samherji þessara manna í stjórnmálum, þá sé það hæpið, að þessi hógværa till. nái samþykki.

Ég hygg, að íþróttaskólinn á Álafossi hafi gert mest gagn af öllum íþróttaskólum landsins. Ég geri mér vonir um, að fyrir ötula starfsemi íþróttafrömuða hér á landi verði það svo í framtíðinni, að það verði ekki talið sæmilega menntað barn, sem ekki lærir að synda. Ég er sannfærður um, að sú íþrótt er heilsusamlegust, auk þess sem það er sérstök skylda okkar sem fiskiþjóðar að kenna unga fólkinu sund. Það er ekki mikil viðleitni að ýta undir það hér á Alþ., ef þessi till. verður felld. Það er ástæða fyrir mig að bera kinnroða fyrir, að bera fram till. um 5 þús. kr., þegar aðrar sundlaugar utan kaupstaða hefðu fengið 14500 kr., og þar sem í raun og veru hefði átt að gera þessari sundlaug hærra undir höfði. En ég fer ekki fram á, að henni sé gert hærra undir höfði, heldur aðeins að þessi sundlaug fái að njóta 1/3 af þeim styrk, sem henni ber. Það skyldi nú ekki vera, að ég ætti eftir að sjá það, að hún yrði ekki samþ. Ég vona, að hv. 2. þm. Árn. (BB) hjálpi mér til þess að fá þessa till. samþ. Hann hefir ríka ástæðu til þess að hjálpa mér í þessu efni, því hann sér í daglegu lífi sínu hina miklu gagnsemi laugavatnsins, en ef hann fylgir mér af kappi, þá fer till. í gegn. Það er í raun og veru klaufaskapur af mér að hafa ekki fengið hann til þess að gerast meðflm. að till.

Þá á ég smátill. á sama þskj., rómv. 63, um að veita Snæbirni í Hergilsey 300 kr. styrk á ári. Hann hefir verið hreppstjóri í 50 ár, en er nú farinn að heilsu. Ég geri ráð fyrir, að hann sé svo vel þekktur, að þessi till. nái fram að ganga, og að margir hafi tilhneigingu til þess að lauma upp hendinni, þrátt fyrir flokkssamþykkt, þegar um svona litla fjárupphæð er að ræða til einstaks manns. Allir vita, að gamli maðurinn verðskuldar þetta. — Þá á ég ekki fleiri brtt. á þessu þskj.

Þá er brtt. rómv. l. á þskj. 888, sem fer fram á það, að 10 þús. kr. fjárupphæð sé veitt til ljósbauju á Skagarifi. Sjómenn telja ekki gagn af því að hafa þarna annað en ljósbauju. Mér hefir skilizt á vitamálastjóra, að það þurfi að setja þarna nýja bauju, sem áætlað er að muni kosta 14 þús. kr. Það dregst frá kaupverð legufæranna, og þá hugsa ég, að það láti nærri, að 10 þús. kr. muni duga til þess að ljúka þessu verki. Þessi bauja, sem farið er fram á að sett sé ljós á, er í siglingaleið, og er það fjöldi báta, sem stundar veiðar þarna um háveturinn í vondum sjó og dimmviðri. Ég veit, að það er allt að því að vera óverjandi, að vilja spara þessa fjárupphæð og hika við að koma ljósi á þessa bauju. Það hefir verið meira af happi en forsjá, að ekki hefir hlotizt slys af því að hafa þarna ljóslausa bauju. Það er ekki rétt fyrir Alþ. að bíða eftir því, að slys verði. Það er réttara fyrir það að veita þessa fjárupphæð nú þegar, og verða þar með við beiðni þúsunda sjómanna. Seinast var á fjölmennum fundi í Keflavík, þar sem staddir voru þm. þriggja stjórnmálaflokkanna, samþ. einróma áskorun til Alþ. um að verða við þessari beiðni. Þá létu allir vel yfir því að vilja styðja þetta, og er nú eftir að sjá, hvort það hefir verið meira en látalæti. Ég mun svo láta útrætt um þessa till.

Þá er það smátill. á þskj. 915, sem er brtt. við á. brtt. á þskj. 904, en sú till. er flutt af meiri hl. fjvn. og er um það, að ábyrgjast fyrir útgerðarsamvinnufélag Vatnsleysustrandarhrepps áfallna vexti af stofnlánum félagsins, allt að 5000 kr., enda fáist trygging fyrir því, að félagið haldi áfram rekstri. Mín brtt. er um það, að fyrir 5000 kr. komi 8000 kr. Eftir því, sem mér hefir skilizt, þá benda engar líkur til þess, að félagið geti haldið áfram rekstri, ef það fær ekki þessar 8000 kr. Útvegsbankinn hefir sett því svo harða kosti, að það getur ekki komizt af með minna en 8000 kr.

Um félagið er það að segja, að Útvegsbankinn er búinn að svipta það öðrum bátnum, sem það hafði, og mér liggur við að segja, að hann hafi gert það með hörku, eða a. m. k. er mikil ósanngirni í því fólgin. Mér þykir rétt að segja frá því, að bankinn tók persónulega tryggingu, sem nam 22 þús. kr., sem þeir voru ekki skyldir til að láta. Félaginu gekk ekki vel í ár, og bankinn gekk á lagið og ætlaði að svipta það báðum bátunum. En fyrir ötula framgöngu góðra manna, aðallega hv. þm. Vestm. (JJós), tókst að knýja bankann frá þeim ásetningi, svo að hann er reiðubúinn til þess að láta félagið halda öðrum bátnum, ef ríkissjóður tekur á sig ábyrgð á 2 ára vaxtagreiðslum fyrir félagið. Þessari málaleitun sýndist meiri hl. fjvn. nauðsynlegt að verða við, og flutti því brtt., en eftir þeim plöggum, sem fyrir liggja, mun bankinn ekki sætta sig við minni ábyrgð en 8000 kr. Þessum lofsamlega tilgangi meiri hl. n., sem minni hl. er líka sammála um, er á engan hátt náð, ef upphæðin er ekki höfð svo há, að hinn kröfuharði banki sætti sig við það. En þörfin á að styðja útgerðarfélagið er mikil, því Vatnsleysustrandarhreppur er mjög fátækur, og ekki annað sjáanlegt en hann komist á vonarvöl, ef hann er sviptur atvinnumöguleikum þeim, sem leiðir af starfi þessa útgerðarfélags. Það er því lífsnauðsyn fyrir hreppinn, að starfsemi þessa útgerðarfélags leggist ekki niður. Ég á svo ekki fleiri brtt. við fjárlögin.

Ég vil gera nokkrar almennar aths. bæði við mínar brtt. og annara flokksbræðra minna. Við munum sætta okkur við það, þó að allar brtt. okkar verði ekki samþ. En hitt sýnist mér, að meiri hl. ætti ekki að gera vegna síns eigin velsæmis, að fella þær allar.

Annað af stj.blöðunum hefir verið með heilaga vandlætingu og gert að umtalsefni, hvað illa hefir verið farið með það kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir. Höfundur þessarar greinar mun vera mótframbjóðandi minn af hálfu Alþfl. við síðustu kosningar. Hann er að reyna að sýna fram á, að þetta megi ekki viðgangast, og nú vil ég gefa flokksbræðrum hans hér á hv. Alþ. kost á að sýna það, hvort þeir vilja gera hann ómerkan með því að greiða atkv. á móti till. mínum. Þeir eiga valið milli þess að aðstoða mig við að koma till. mínum fram, eða að lýsa því yfir, að það sé ekki tekið mark á honum í hans eigin flokki, og að þetta séu aðeins látalæti hjá honum sem frambjóðanda í G.-K. Ég vona, að þetta nægi til þess að flokksbræður hans sjái sóma sinn í því að hlaupa undir bagga með mér í því að koma þessum till. fram. Ég mun þá láta þennan keppinaut minn njóta góðs af því í baráttunni við hann í kjördæmi mínu við næstu kosningar. Ég þykist hafa boðið mikil fríðindi, og ef þetta dugir ekki, þá veit ég ekki, hvaða mútum ég á að beita.

Eins og ég hefi áður sagt, þá erum við reiðubúnir til þess að horfa á það með rólegum huga, að sumt af brtt. okkar verði fellt. En hinu tökum við ekki með jafnaðargeði, að þær verði allar felldar. Það er ekkert vit í því, ef þingmeirihl. ætlar að halda fast við þá stefnu að ráða því á flokksfundum, hvernig fjárl. verða afgr., þar sem einfaldur meiri hl. ræður því, hvaða till. stj.liðið aðhyllist. Það er ekkert vit í þessu, ef það gætir ekki sæmilegs velsæmis í því að sýna réttsýni í garð andstæðinganna.

Það má vel færa frambærileg rök fyrir því, að réttlátt sé, að þingmeirihl. girði fyrir, að einstakir þm. með hrossakaupum hækki fjárframlög úr ríkissjóði kannske allt að 1 millj. kr. En við skulum allir vera sammála um, að engin rök sé hægt að færa fyrir þeirri meðferð stjórnarliðsins á fjárl., ef það er ekki hæfilega réttsýnt í garð allra kjördæma, en hugsi ekki eingöngu um þau kjördæmi, sem hafa sent stjórnarliða á þing. En afgreiðsla fjárl. nú bendir ekki til, að svo sé eða stjórnarliðið hafi gætt velsæmis í þessum efnum. Það getur ekki gengið og verður ekki þolað til lengdar, að ríkissjóður sé gerður að flokksklíkusjóði. Ef stjórnarliðið vill skapa sér rétt til að ákveða, hvernig afgr. skuli fjárl., þá verður það a. m. k. að byggja þau á grundvelli sæmilegs réttdæmis allra kjördæma, og vil ég sérstaklega biðja hæstv. fjmrh. að minnast þessa.

Ég vil þá nota tækifærið, það fyrsta, sem mér gefst, til að óska hæstv. forseta Sþ. til hamingju með afmælið sitt, þar sem hann frá því kl. 12 í nótt mun vera 52 ára að aldri. Vorkenni ég honum að vera nú að taka við fundarstjórn og þurfa að sitja hér í alla nótt.

Ég verð að segja, að ég vænti þess, að almennt verði þessi ummæli mín tekin til athugunar, og hvort ég má ekki gera mér sérstakar vonir um réttdæmi stjórnarliðsins um mínar till. Ef þær verða virtar alveg að vettugi, vil ég minna á ummæli annars stjórnarblaðsins um mitt kjördæmi, og vona, að þær verði því teknar til greina a. m. k. af Alþfl. — Ég ætla svo ekki að gera að umtalsefni önnur atriði í fjárlfrv., nema sérstakt tilefni gefist til.