19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (3582)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forseti (JörB):

Þetta er nú náttúrlega miklu meira en fyrirspurn. En látum það vera, því að það er nú liðið hjá. Hv. 8. landsk. veit það vel, að ég hefi ekki á valdi mínu skýlaus ákvæði þingskapanna. Ég verð þeim að hlýða og fara eftir. Ég hefi áður viðvíkjandi þessari gr. þingskapanna gefið mína skýringu á því, hvernig ég hlýt að skilja ákvæði hennar, sem eru alveg skýlaus, eftir minni meiningu. Ég þarf ekkert að segja um afstöðu þm. viðvíkjandi þessu máli, og leiði það alveg hjá mér. Ég get ekki í þessu efni farið eftir öðru en því, sem mér ber skylda til, og það er að bera þessa áskorun upp. (SK: Má ég gera fyrirspurn?). Ef það er eitthvað, sem snertir þessa áskorun og atkvgr. um hana, þá er það heimilt, en umr. um þetta mál þýðir ekki að viðhafa.