19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2657 í B-deild Alþingistíðinda. (3585)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Garðar Þorsteinsson:

Hæstv. forseti hefir í raun og veru viðurkennt það, að ég eigi verulega sanngirniskröfu til þess að fá að taka til máls um þetta mál, sem hefir verið í þeirri n., sem ég á sæti í, og þar sem ég auk þess ber fram brtt. við það og hefi ekki tekið til máls, hvorki við 1. eða 2. umr. þess, né heldur nú. Og ef hann viðurkennir þetta, þá leiðir þar með af því, að hann er ekki á sama máli og a. m. k. flm. þessarar till., um, að umr. hafi dregizt úr hófi fram. Það er forseta eins að skera úr því, hvort umr. hafa dregizt úr hófi fram, og þar með að skera úr um það, hvort till. sem þessar skuli bera upp eða ekki. — Hlustar hæstv. forseti á mig? — Ég vildi spyrja hæstv. forseta um það, hver það er, sem á að dæma um það, hvort umr. hafi dregizt úr hófi fram eða ekki annar en forseti. Ef hann álítur, að þær hafi ekki dregizt úr hófi fram, þá er honum ekki heimilt að bera till. upp. Krafa um að skera niður umr. má ekki koma fram, nema því sé um leið og fyrirfram slegið föstu, að umr. hafi dregizt úr hófi fram, Forseti hefir þess vegna ekki leyfi til þess að skjóta sér undan því að kveða upp úrskurð um þetta, því að hann á að kveða upp úrskurðinn, og enginn annar.