19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (3599)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Jakob Möller:

Ég hafði kvatt mér hljóðs áður en umr. voru skornar niður, m. a. til þess að gera grein fyrir atkv. mínu í sambandi við þessa till., en ég get eins vel gert það nú. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þó till. sé borin fram undir því yfirskini að vera mildandi fyrir embættismennina, þá er það ekki svo, heldur að breyta frv. þannig, að ráðh. geti hagað þessu eftir því, sem honum þóknast og þykir hagkvæmast, en ekki af umhyggju fyrir embættismönnunum. Þar að auki vil ég vekja athygli á því, að það hefir verið talað um, að till. væri borin fram til samkomulags, en hún getur aldrei náð til annara en þeirra, sem eru á aldrinum 65—70 ára, því síðar í frv. er ófrávíkjanlega skilyrði um, að enginn embættismaður eldri en 70 ára megi sitja í embætti. Till. er því þýðingarlaus, vegna þess að ráðh. hefir vald til þess að láta þá halda áfram störfum um lengri eða skemmri tíma, sem hann telur færa um það og ekki eru fullra 70 ára. Till. er því alveg þýðingarlaus. Ég vil vitna til ummæla, sem ég sagði um þetta áður, að flm. hafa viljað haga þessu eftir því, sem ráðh. þætti bezt henta. Ég benti t. d. á kennara, að þá er bægt að láta fara hvort sem er að vori eða hausti. Það er ekki svo mikið verið að taka tillit til þess, hvenær þessir menn eru sviptir atvinnu; allt fer það eftir geðþótta ráðh. og hvenær hans gæðingar eru reiðubúnir. Af þessum ástæðum sé ég ekki ástæðu til þess að greiða atkv. um till., ég tel hana ekki þess verða. — vona ég, að hæstv. forseti taki þessa grg. gilda.