22.12.1934
Efri deild: 68. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2661 í B-deild Alþingistíðinda. (3611)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Guðmundsson:

Það er ekki hægt að neita því, að breyt. þær, sem gerðar hafa verið á frv. í Nd., eru heldur til bóta, enda hefði tæpast verið hægt að framkvæma lög með því innihaldi, sem frv. hafði áður en þessar breyt. voru gerðar. Embættismenn þessir eru nú ekki reknir alveg fyrirvaralaust, en þessi breyt. fékkst ekki á frv. hér, þó að hún næði fram að ganga í Nd. Þó er eftir sá aðalgalli á frv., sem veldur því, að ég get ekki fylgt því, en það er 65 ára aldurshámarkið, sem ég tel of lágt. Það er fullkunnugt, að margir endast svo vel, að þeir eru mjög vel starfhæfir 65 ára gamlir, og ætti ekki að þurfa að fara í grafgötur um slík dæmi, þar sem kunnugt er, að meðal stórþjóðanna hafa jafnvel áttræðum mönnum verið falin hin erfiðustu störf, og má t. d. nefna, þegar Clemenceau var falið forsætisráðherrastarf í Frakklandi á stríðsárunum, og einnig má nefna Hindenburg, sem varð forseti Þýzkalands eftir að hann varð áttræður. Það er ófært að setja reglur, sem hitta þannig, að þær gera mönnum rangt til, en ekki rétt. Aldurshámarkið á að setja þannig, að það sé í samræmi við það, sem venjulegt er, en ekki miða það við undantekningarnar. Það er alls ekki venjulegt, að 65 ára maður sé orðinn svo hrumur, að hann geti ekki gegnt embætti lýtalaust. Mér finnst dálítið undarlegt, hve stjórnin leggur mikið kapp á að koma málinu fram á þessu þingi. Það virðist þó ekki mikið í hættu, þó að það biði næsta þings. Um aldurshámarkið veit ég líka, að hæstv. forsrh. hefir látið í ljós við ýmsa, að hann gæti vel sætt sig við 68 ár, svo að mér finnst það undarlegt ofurkapp, sem lagt er á að koma frv. fram á þessu þingi. En sé það nú svo, að stjórnin ætli sér að láta 65 ára menn gegna störfum sínum áfram, ef þeir eru ekki sérlega hrumir, þá gerir þetta minna. En mér finnst hart að láta 65 ára menn í fullu fjöri hverfa frá störfum. Það var tekið fram í aths. við frv. í upphafi, að það væri maklegt að láta þessa menn fá rólegt æfikvöld. En auðvitað er þetta biturt háð um þá menn, sem ekkert eiga, en eru sviptir atvinnu sinni á þeim aldri, að þeir geta tæplega horfið að nýju starfi. En aðallega set ég það út á frv., að í því er sett regla, sem ekki hefir stoð í hinu raunverulega lífi.