05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (3613)

150. mál, fiskimálanefnd

Pétur Ottesen:

Mér skilst, að álit Útvegsbankans hafi ekki verið rætt í sjútvn. (JJós: Það er rétt). Mér finnst því, að ef í því felast till. til breyt. á frv. þá verður að teljast sanngjarnt að verða við þeirri ósk háttv. þm. Vestm., að hraða málinu ekki svo mjög, að ekki gefist tækifæri til þess að ræða um svar bankastj. Útvegsbankans í sjútvn. Mér finnst það líka fullkomlega vorkunnarmál, þó að háttv. þm. Vestm., sem vill bera fram brtt. við frv., vilji bíða með að fullgera þær, þar til hann hefir fengið tækifæri til þess að kynna sér álit bankanna, eða a. m. k. þess bankans, sem þegar hefir svarað. Ég fæ því ekki skilið, hvers vegna form. sjútvn. vill ekki verða við þessum tilmælum, að málið verði tekið út af dagskrá nú, svo að tækifæri gefist til þess að athuga það svar, sem fram er komið, áður en gengið er frá brtt., ef þeir álíta, að í brtt. felist eitthvað, sem þeir vildu taka til athugunar. Ég skil því ekki, að það geti verið á neinni sanngirni byggt, að bægja nm. og þ. í heild frá því að fá tækifæri til þess að athuga þetta mál áður en atkvgr. fer fram.