07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (3629)

150. mál, fiskimálanefnd

Ólafur Thors:

Ég hefi nú flutt um þetta mál allýtarlega ræðu við útvarpsumr. við frh. fyrstu umr. fjárl., og þarf ég því ekki að tala langt mál að þessu sinni og mun ekki gera það. Mín rök til andmæla þessu frv. eru að langmestu leyti þar saman komin, og a. m. k. færði ég þar fram allt það, sem mér finnst skipta höfuðmáli. Þær umr., sem farið hafa fram um málið síðan, og þær brtt., sem fram hafa komið um málið, tel ég ekki, að gefi mér sérstakt tilefni til langra aths., vegna þess, að enda þótt segja megi um þessar brtt. yfirleitt, að þær séu til bóta, þá er þó um þær allar það að segja, að þótt þær yrðu samþ., þá færðu þær ekki frv. í viðunandi horf, frá mínu sjónarmiði skoðað. Frá mínu sjónarmiði er við þetta mál ekkert að gera, sem fullnægi þeirri þörf, sem ég tel fyrir hendi, annað en að fella frv. og segja með því ótvírætt til um, að Alþ. sé þessari lagasetningu andvígt. Það nægir ekki að frv. dagi upp. Ég er nefnilega ekki eingöngu sammála umsögn Landsbankastjórnarinnar um það, að þetta frv., nái það fram að ganga, muni hafa skaðleg áhrif, heldur er ég einnig sammála hinu, að sú staðreynd, að það hefir komið fram á hæstv. Alþ., muni hafa mjög skaðleg áhrif á fisksölu okkar Íslendinga, svo framarlega sem frv. verður ekki hreinlega fellt. Og rökin fyrir þeirri fullyrðingu minni, fullyrðingu, sem stj. bankans hefir nú gert að sinni fullyrðingu, þau liggja fyrir í þessari ræðu, sem ég vitnaði til, og hirði ég ekki um að endurtaka þau nú.

Ég þarf ekki, í sambandi við þær brtt., sem fram hafa komið við frv., að segja frá því sérstaklega eða færa nein rök fyrir því, að brtt. hv. þm. Vestm. og hv. 1. þm. Rang. eru að mínum dómi nær því að færa frv. í áttina til sanns vegar heldur en brtt. hv. þm. V.-Ísf. En báðar eiga þessar brtt. sammerkt í því, sem ég áðan gat um, að þær ná ekki neitt svipað því að nægja til þess, að bjarga því, sem bjarga þarf í þessu máli. Ég vil sérstaklega leiða athygli hv. þm. V.-Ísf. að því, að umbætur þær, er leiða af till. hans um valdayfirfærslu frá fiskimálan. til atvmrh., gerir hann nú að engu með c-lið sinnar 3. brtt.

Mín skoðun er sú sama, sem fram kom við útvarpsumr., sem sé sú, að ég óttast, að afleiðing af samþ. þessa frv. yrði sú, að fisksölusamlagið félli í rústir og að upp af rústum þess mundi svo spretta einkasala, sem svo aftur mundi leggja í rústir fjárhag og getu landsmanna. Þessi skoðun mín hefir ekki breytzt, en hún hefir fengið aukið gildi í umsögnum þeirra aðila, sem leitað hefir verið umsagnar til, líka í umsögn Útvegsbankans.

Ég get ekki annað um þetta sagt og í raun og veru ekki öðru við það bætt, sem ég áður sagði, en að mig undrar það mjög, að nokkur valdhafi skuli gerast til þess, að nauðsynjalausu, að seilast svo langt til örðugleikanna sem hér er gert, með því að taka á sig aðra eins ábyrgð eins og þessu máli fylgir — mig undrar það svo mjög að ég get satt að segja ekki fundið neina skynsamlega ástæðu fyrir þeirri framkomu. Ég skal játa það, að ég hefi ekki getað gert mér neina grein fyrir því, að hæstv. atvmrh. skyldi hafa óskað eftir því, að frv. þetta væri flutt, aðra en þá, að aðrir menn hafi þar verið að verki, sem hafi knúið fast á um þetta, en hæstv. atvmrh. hafi, vegna þeirra anna, .sem ráðh. hlýtur að hafa um þingtímann, ekki getað gefið sér þann tíma til þess að skoða þetta mál svo ofan í kjölinn, sem honum hefði borið að gera. Því að hann hefði átt, stöðu sinnar vegna, að setja sig inn í þetta mál betur en allt annað, sem á herðum hans hvílir um þingtímann. Ég er ekki í vafa um það, að mistök á þessu sviði eru svo örlagarík, að ef þau eiga sér stað, þá mun góður vilji á öðrum sviðum segja lítið til úrbóta og jafnvægis. Ég er ekki í vafa um það, að þetta frv., verði það samþ., er dauðadómur yfir fiskútflutningi og fiskverzlun Íslendinga. Ég get ekki orðað það öðruvísi. Ég veit eiginlega ekki, hvort mér þykir undarlegra, að hæstv. ráðh. skuli að nauðsynjalausu vilja taka á sig þessa geigvænlega þungu ábyrgð, þar sem hann ryðst inn á svið kunnáttumanna og grípur fram fyrir hendurnar á þeim, sem hafa haft þessi mál með höndum og hrífur umráð þessi í hendur löggjafarinnar, — ég veit ekki, hvort ég á að vera meira hissa á þessu eða hinu, að menn hrópa um það, að þetta sé gert í nafni lýðræðisins. Það er undarlegt lýðræði, að ætla með valdboði að níða niður frjáls samtök fiskframleiðenda. Og það bið ég hæstv. atvmrh. að athuga, að vald stjórnar fisksölusambandsins skapast jafnóðum og einstakir fiskframleiðendur biðja hana að taka við sölu síns fiskjar, en fyrr ekki. Í nafni lýðræðisins á nú að fremja það glapræði að taka af núv. valdhöfum þetta vald. er framleiðendur af frjálsum vilja hafa afhent þeim. Þetta á að knýja fram með atkv. 23 þm. gegn atkv. 24. þm., 25 þm., sem hafa að baki sér 22 þús. kjósendur, gegn 24 þm., sem hafa að baki sér 26 þús. kjósendur. Þetta þykir mér einkennilegasti spegill lýðræðisins, sem ég hefi nokkurn tíma séð, og hvað sem líður óvarfærni og geigvænlegu glapræði, þá vil ég biðja hæstv. atvmrh. og hv. þm. V.-Ísf. að hlífa okkur við að hlusta á, að afbrot þessi séu framin í nafni lýðræðisins. Þetta er jafnt brot á lýðræði eins og það er brot á móti skynsemi.