19.12.1934
Sameinað þing: 25. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

1. mál, fjárlög 1935

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þó að ástæða hefði verið til að tala um nokkuð marga liði af brtt., sem fyrir liggja við fjárlfrv., þá ætla ég samt að takmarka mál mitt við aðeins örfáar þeirra. — Skal ég þá fyrst minnast á þá brtt., sem ég á einn á þskj. 815, 32. lið. Þar er farið fram á, að veittar verði 300 kr. til athugunar á skilyrðum fyrir rafveitu í Staðarfellsskóla. Það mun vera svo um flesta héraðsskóla landsins, fyrir utan þennan og annan til, að þeir hafa annaðhvort hitaveitu eða rafmagn, og sumir hvorttveggja. Það er því nauðsynlegt að gera þessum skóla eitthvað til góða, svo hann geti talizt sambærilegur við aðra skóla landsins. Ég hefi að vísu ekki verið viss um, hvað góð skilyrði fyrir rafveitu væru þarna, en mér finnst, að ekki megi láta undir höfuð leggjast að athuga það. Ég fer aðeins fram á lítinn styrk í þessu tilliti, en ég vonast til þess, að hann sé nægilegur til þess að þetta mál verði nægilega athugað, og því fremur er ástæða til þess, að þetta verði samþ., að nú á þessum fjárl. er verið að veita styrki til rafveitu til annara skóla, og þá ekki svo litla. Eins og hv. þm. mun vera kunnugt, þá er það alveg sérstakt með þennan skóla, að hann hefir aldrei notið styrks af ríkisfé. Skólinn er stofnaður og rekinn af sjóði Herdísar Benediktsen og gjafafé Magnúsar Friðrikssonar. En nú hefir svo farið, að á þennan sjóð hefir verið gengið svo undanfarið, að hann er orðinn miklu minni en hann áður var og því ekki fær til þess að leggja fram mikið fé til umbóta á skólanum, og ef ráðizt væri í rafveitu, þá mundi verða svo mikil rýrnun á sjóðnum, að hann mundi ekki lengur geta haldið skólanum uppi. Þess vegna fyndist mér skylt og sjálfsagt, að ríkið tæki að sér þann kostnað, sem af rafveitulagningu leiddi, ef til þess kæmi, og þá að sjálfsögðu byrjaði á því að greiða rannsóknina. Ég er með sjálfum mér sannfærður um það, að hv. þm., meira að segja mikill hluti af þeim, sem fylgja núv. stjórn, séu það sanngjarnir og réttsýnir, að þeir muni óhikað fylgja því, að þessi smáa upphæð verði veitt í þessu skyni í fjárl.

Þá flyt ég ásamt hv. 10. landsk. till. á sama þskj., 50. lið. Það er smáupphæð til Eggerts Magnússonar, til þess að stunda dýralækningar, gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar að, 300 kr., og til vara 200 kr. Það er um þennan mann að segja, að hann stundaði dýralækningar með Magnúsi heitnum Einarssyni hér í Rvík nær eitt ár. Þá sótti hann um styrk til Alþ. og hafði meðmæli frá kennara sínum, sýslunefnd og héraðslækni Dalasýslu og fjölda mætra manna í nágrenni sínu, og var honum þá veittur 300 kr. skilyrðislaus styrkur í fjárl. 1933. En svo hefir nú farið, að hann hefir á einhvern hátt fallið niður í fjárl. 1934. Maður þessi hefir um langt skeið stundað dýralækningar í Dalasýslu, nokkrum hluta Barðastrandarsýslu og jafnvel eitthvað í Strandasýslu, og hefir þegið lítil eða engin laun fyrir þetta starf sitt. Hann er nákvæmur við skepnur og hefir yfirleitt farizt starfið prýðilega úr hendi. Mér finnst hér vera um sanngirniskröfu að ræða, að fara nú ekki, eftir að þingið hefir viðurkennt hæfileika þessa manns, að fella hann af fjárl. og svipta hann öllum styrk. Ég vonast því til þess, að það verði litið á þessa till. okkar með sanngirni og hún samþ.

Þó ég eigi hluta af brtt., sem eru á þskj. 813, þá ætla ég samt ekki að vera langorður um þær, en aðeins minnast á þá fyrstu, sem er veikindastyrkur til Sigurðar Sigurðssonar sýslumanns, 3000 kr. Mér finnst, og ég hygg, að fleiri þm. sé þannig farið, að þeim finnist þessi styrkur sjálfsagður. Meðan sjúkrastyrksmálum er ekki komið í sæmilegt horf, þá vitum við, að erfiðar kringumstæður eru hjá mörgum, þar sem veikindi ber að höndum, og löggjöfin hefir að nokkru leyti viðurkennt þetta, með því að nú er lögákveðið, að ef hjú verði fyrir veikindum, þá sé húsbónda þess skylt að kosta veikindin um tíma, án þess að það missi nokkurs í af kaupi sínu. Mér fyndist því ótilhlýðilegt, ef hinu opinbera færist verr við þetta hjú sitt heldur en löggjöfin hefir gert almennum húsbónda að skyldu að fara með sitt hjú. Við, sem til þekkjum, vitum, að hér er um nauðsynjamál að ræða. Hlutaðeigandi sýslumaður er bláfátækur maður með 9 börn, sem mörg eru á ómagaaldri og hin er verið að kosta til nauðsynlegrar menningar. Það sjá því allir nauðsynina og skyldu hins opinbera að verða við þessari beiðni um þennan veikindastyrk, sem hér er farið fram á, enda eru fordæmi fyrir þessu, og hafa jafnvel menn í þessari stöðu fengið styrk til að leita sér lækninga, þó þeir væru betur efnum búnir heldur en þessi sýslumaður er.

Þá vildi ég minnast á till. til vegagerðar í Dalasýslu, þó að hv. 10. landsk. sé búinn að hreyfa því máli. Þegar ég las fjárlfrv. stj., kom mér á óvart, hve mikilli rangsleitni Dalasýsla hafði verið beitt í þeim efnum. Það var ekki einum eyri varið til nýrra vega í allri sýslunni, en ég verð að segja meiri hl. fjvn. það til lofs, að hann hefir þó nokkuð bætt úr þessu, þó það sé hvergi nærri til hlítar. Hv. 10. landsk. sýndi fram á það með tölum, hvað Dalasýsla hefir orðið útundan með fjárveitingar til vega á undanförnum árum, og ég ætla því ekki að fara að endurtaka það. En ef maður lítur á þetta mál frá annari hlið, þá má taka það með í reikninginn, að Dalasýsla er ein af þeim fáu sýslum, sem hafa verið alveg afskiptar um styrk til hafnarbóta á undanförnum árum. Ég tel það mjög mikið ranglæti, hvernig rutt er í sumar sýslur bæði fé til hafnar- og lendingarbóta, og eins til vega, en aðrar alveg látnar mæta afgangi. Ég álít eins og sakir standa fulla nauðsyn á því að verja meiru fé til vegagerðar en gert er víðsvegar um landið. Atvinnubótastyrkurinn hverfur allur til kaupstaðanna, en ég hefði talið nauðsynlegt að láta nokkurn hluta ganga af honum til vegagerðar í sveitum, því eins og nú standa sakir þurfa bændurnir ekki síður atvinnubætur heldur en sumir kaupstaðarbúar. Ástandið er þannig hjá mörgum bændum, að framleiðsla þeirra rennur öll til nauðsynlegra búþarfa, vaxta og afborgana af skuldum, og svo er ekkert fé eftir til opinberra gjalda, en á þann eina hátt geta þeir unnið sér inn fé til þess að greiða þau, að þeir verji öllum þeim tíma, sem þeir mega missa frá búum sínum, til vegavinnu. Það er því ekki svo mikið tap fyrir ríkissjóð að leggja fram fé í þessu skyni, heldur en láta e. t. v. opinber gjöld standa óinnheimtanleg. Og væri vegavinnunni þannig fyrir komið, að hinir bágstaddari væru látnir sitja fyrir vinnunni, þá bætti það afkomuna þegar stórlega. Með þessu væri tvennt gert í einu: sveitin gerð byggilegri vegna bættra samgangna, og bændunum hjálpað á kreppuárunum. Ég tel þá leið vel færa, að ríkissjóður legði fram í þessu skyni nokkurn hluta og bændurnir sjálfir nokkuð, segjum frá 1/5—1/3 hluta. Ýms héruð myndu fegin slíku tilboði og vafalaust notfæra sér það að einhverju leyti. Þetta myndi greiða mikið úr erfiðleikum þeim, sem við vitum allir, að þjaka nú sveitir landsins, því að þótt svokölluð kreppuhjálp hafi komið í góðar þarfir, þá lifa bændur ekki á henni til frambúðar, og verði ekki skilyrði sköpuð til framhaldandi atvinnu í sveitunum, mun brátt sækja í sama horfið aftur.