14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (3657)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Það er hvorttveggja, að ég er kvefaður og á ekki gott með að halda langar ræður og að ekki er þörf á langri framsöguræðu í þetta sinn. Gefst væntanlega tækifæri til þess síðar á fundinum að bæta við því, sem á kann að vanta.

Um tildrög málsins er ekki þörf að segja margt. Vita allir, að ástæðan fyrir framkomu frv. eru erfiðleikar þeir, sem nú eru á sölu saltfiskjar Íslendinga. Hv. minni hl. hefir í nál. vikið að því, að ástæðurnar séu aðrar, en út í það ætla ég ekki að fara. Ég vil aðeins benda á það, að þar sem í nál. minni hl. er staðhæft, að hér sé keppt að einkasölu, þá er það af litlum skilningi sagt. Mun því engum blandast hugur um, sem les frv., að gert er ráð fyrir, að salan verði á svipaðan hátt frjáls og hefir verið. Hinsvegar er rétt, að í 12. gr. frv. er gert ráð fyrir því úrslitaráði, — ég vil ekki segja örþrifaráði —, að ríkið taki einkasölu. — Því hefir verið haldið fram, að frv. verki þannig, að S. Í. F. hljóti að leggjast niður, en ég sjálfur ekki getað skilið það. Eina ástæðan er sú, að lögin fyrirskipa breyt. á fyrirkomulagi S. Í. F., og að það er þyrnir í augum vissra manna innan S. Í. F. og þeir vilja ekki hlíta því. Þó að vísu sé fært fram í nál. minni hl., að það þvingi S. Í. F. til að taka annað fyrirkomulag en varð ofaná á fulltrúafundi í haust.

Mér virðist það ekki sannað, þó breytt sé til um val framkvæmdarstjóranna á þann hátt, að meiri réttur sé fenginn þeim, sem að fyrirkomulagi og framkvæmdastjórn eiga að búa, að þeir verði valdir, sem lítið vit hafa á að fara með þessi mál. Enda er vitanlegt, að þeir, sem nú fara með stj. S. Í. F., hafa yfirráð yfir svo miklum fiski, að þeir hljóta alltaf að verða í meiri hl. um val stj. Og það þarf ekki að kvíða því, að nýtir menn innan S. Í. F. geti ekki notið sín. — Þá kemur og annað fram í áliti hv. minni hl., og það er, að helzt sé ekki hægt að skilja öðruvísi en svo ákvæði í 4. gr. frv., að þar sé um einkasölu að ræða. Um þetta má vitanlega deila, en ef því er slegið föstu, að það sé einkasala, fyrirkomulagið, sem talað er um í þessari 4. gr., en ákvæðið er um, að fela megi einu fél. fisksöluna í hendur, ef við leggjum þennan skilning í það, verðum við að játa, að samskonar einkasala hefir verið 2—3 árin síðastl. Í 4. gr. frv. er ákvæði um, að það fél. eða samtök, sem ráða yfir 80% af fiskmagninu, geti fengið rétt til útflutnings. Það hefir verið svo undanfarið, að þetta frjálsa fél. svo kallaða, S. Í. F., hefir ráðið yfir allt að 90% af fiskframleiðslunni, að ég hygg. Það getur verið, að þessi samtök hafi verið eða séu frjáls að því leyti, að frjálst sé að ganga inn í þau, en að frjálst sé að standa utan við þau, held ég, að sé erfitt að rökstyðja. Þeir menn, sem ekki lofa S. Í. F. fiski sínum, geta ekkert við hann gert annað. Mér er kunnugt um menn, sem á síðustu vertíð vildu ekki lofa fiski sínum til S. Í. F. og hefðu því átt að geta notið þess frjálsræðis, sem talað er um undir þessu fyrirkomulagi. En þegar leið að þeim tíma að veiðar skyldu byrja, þá þurftu þessir menn að fá lán eins og venjulega, og á venjulegan hátt út á fiskinn. En hvernig fór? Fyrsta svarið var: Hvert selurðu fiskinn? Ég veit það ekki, ég hefi ekkert ákveðið, er ekki í S. Í. F. Þá geturðu ekkert lán fengið.

Ég veit ekki til, að neinn útgerðarmaður hafi fengið lán, sem ekki er í S. Í. F., að undanteknum þeim, sem fengu lán hjá útlendu firma, með því að skuldbinda sig til að selja því fiskinn. Ég verð að segja, að ég sé ekki betur en að þetta sé hreint og beint einkasölufyrirkomulag, og það ekki af betra tæginu, því að hér er beitt hreinustu þvingunarmeðölum. Ég sé því ekki, að úr háum söðli sé að detta, þó að ákvæðið í 4. gr. frv. væri um einkasölu. Þar er gert ráð fyrir að fiskframleiðendur ráði nokkru um það sjálfir, hverjir séu í stjórn S. Í. F. — Mér er sérstaklega kunnugt um, að Austfirðingar hafa gert ítrekaðar tilraunir til að fá íhlutun um stj. S. Í. F., og þeir hafa gert meira, þeir hafa reynt að fá umboðsmenn við hlið stjórnar S. Í. F., sem gætu gefið upplýsingar og skýrslur um starf samlagsins og rekstur. Þetta var svo sagt; að væri uppfyllt, að því leyti, að ráðinn var maður, sem er kunnugur á Austfjörðum, í þjónustu S. Í. F. Var talið eða a. m. k. Austfirðingum var sagt, að hann væri umboðsmaður þeirra. Þessi maður hefir sjaldan gefið skýrslu, þó var hann á fundum með útgerðarmönnum í haust, en er þeir fóru að spyrja hann, sagði hann eins og var, að hann vissi ekki neitt. Hann var skrifstofumaður hjá S. Í. F. og vissi ekkert hvorki um sölumöguleika né framkvæmdir, og það var rétt. Hann var starfsmaður; sem átti þess engan kost að kynna sér þessi mál. Þetta sýnir, að heilum landshluta er fyrirmunuð íhlutun um rekstur fyrirtækisins, eða um afkomumöguleika þeirra sjálfra, sem komnir eru undir sölumöguleikum þeirra. Ég ætla ekki að þessu sinni að fara lengra út í þetta, en gæti gefið gleggri upplýsingar um viðskipti okkar Austfirðinga við S. Í. F. Breyt. þá, sem ráðgerð er í 4. gr. frv., er að engu leyti hægt að heimfæra frekar undir einkasölu en þá starfsemi, sem verið hefir. Ég get ekki séð annað en að því sé að yfirlögðu ráði haldið fram sem grýlu gegn frv., að þar sé um einkasölu að ræða. (MG: Er það nokkur grýla?). — Um frv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Ég geri ráð fyrir, að vænta megi umræðna um það, svo að gefist tækifæri til að athuga nánar síðar einstök atriði. Ég hefi gert að umtalsefni þessa hlið málsins vegna þess sem kom fram í nál. hv. minni hl. Ég held, að engum geti blandazt hugur um það, að svo miklir erfiðleikar hafi verið á um sölu sjávarafurðanna, að nauðsyn hafi verið breytinga. S. Í. F. var tilraun til að bæta úr þeim örðugleikum. En við höfum reynt S. Í. F. undanfarin ár, og það hafa komið fram nokkrir agnúar á starfi þess og fyrirkomulagi. Ég ámæli ekki stjórninni fyrir það. En frjáls sala getur ekki heitið innan S. Í. F., þó það sé látið heita svo. Hinsvegar geri ég ekki ráð fyrir, að um annað hafi verið að ræða, þegar S. Í. F. var stofnað, en föst samtök stofnendanna um handfastar ráðstafanir.

Því hefir verið haldið fram, að þetta frv. feli í sér ákvæði, sem hefðu mjög skaðleg áhrif á sölu okkar í markaðslöndunum, sem sé heimildarákvæðið um einkasölu í 12. gr. frv. Ég er því ókunnugur og get ekki um það sagt af eigin reynd og þekkingu, en mér kemur undarlega fyrir sjónir, ef þetta hefir nú svo mikil áhrif, ef þetta ákvæði um heimildina til einkasölu er nú svo stórhættulegt í markaðslöndunum. Og ég byggi það á því, að hér hafa verið getin út bráðabirgðalög um einkasölu á saltfiski, og þá heyrðist ekki ein einasta rödd um, að það væri hættulegt vegna markaðslandanna. Auk þess sem það hafa komið fram sterkar raddir síðasta ár frá stj. S. Í. F., þar sem hún óskaði eftir, að einkasalan á saltfiski yrði lögfest. Mér virðist því, að mótstaðan gegn þessu frv. liggi mestmegnis í því, að einhverjir í stj. S. Í. F. vilja ekki, að fyrirkomulagi þess verði í neinu breytt frá því, sem nú er. Ég verð að segja, að ég tel, að það sé varhugavert að leggja allt of mikið upp úr því, af því að S. Í. F. er til orðið á þann hátt, að stj. þess hefir skipað sig sjálf. Það, sem veldur mesta ágreiningnum innan S. Í. F.; er það, að fiskframleiðendur óska eftir að fá íhlutunarrétt um stj. þess. Þetta er það, sem aðallega ber á milli.

Ég hefi vikið að því áður, að fyrirkomulag það, sem um ræðir í 4. gr. frv., líkist minna einkasölu en það, sem nú er. Mér virðist, að fyrirkomulagið hafi borið meiri keim af einokun en einkasölu, af því að svo stendur á, eins og ég hefi áður sagt, að nú er sjálfskipuð stj. í S. Í. F., en eftir ákvæðum 4. gr. frv. er gert ráð fyrir, að fiskframleiðendur sjálfir hafi íhlutun um val stjórnarinnar. Mér virðist kenna meira einræðis í því, sem er, heldur en hinn, að viðskiptamönnum samlagsins sé gefinn kostur á að velja í stjórnina, eða fái yfirleitt eðlilegan íhlutunarrétt um stjórn þess og starfrækslu.

Ég læt þetta nægja f. h. meiri hl. sjútvn. og vænti þess, að þetta þing beri gæfu til þess að setja lög í þessu efni, ég tel, að ef það ekki tekst, sé komið í mesta óefni með fisksöluna. Ég vænti einnig, að það megi takast, að mál þetta verði rætt af hógværð og án æsinga, því ég þykist ekki hafa gefið og vildi ekki hafa gefið tilefni til þess.

Ég vænti þess, að okkur hér í Ed. megi takast að ráða þessu máli svo til lykta, að að gagni megi verða fyrir sjávarútveginn.