14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (3659)

150. mál, fiskimálanefnd

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég verð að segja það, að mér virðast þær tvær ræður, sem hv. þm. N.-Ísf. hefir flutt um þetta mál, næsta einkennilegar. Eftir því sem ætla mætti af þessum ræðum hans, þá er hann þeirrar skoðunar, að í raun og veru sé okkar fiskimálum, þ. e. a. s. fyrirkomulagi á verzlun og útflutningi fiskjar, bezt borgið eins og þau nú eru, og allt sé í himnalagi og við þurfum engar áhyggjur að gera okkur út af þeim, en getum látið allt sitja við það, sem er í þessum efnum. Hv. þm. V.-Ísf. segir ennfremur, að með þessu fyrirkomulagi, sem verið hefir, höfum við grætt tugi millj. síðustu árin. Þetta er meiri léttúð og meiri glapsýni en ég hefði viljað vænta úr þessari átt, og af manni, sem er jafnkunnugur þessum málum eins og þessi hv. þm. er. Honum hlýtur að vera það kunnugt, að þeir erfiðleikar, sem við nú eigum við að búa í þessum efnum, eru stórkostlegir.

Ég hefi engar brigður á það borið, og dettur ekki í hug að gera það, að S. Í. F. hafi gert allmikið gagn, en að álykta út frá því, að engin ástæða sé til neinna aðgerða, og að allt sé í því bezta lagi, sem verið getur, er óskaplegur barnaskapur, og það, þegar fyrir liggur skýrsla um það frá hans eigin flokksmönnum, eins og hv. þm. G.-K. hefir borið fram í Nd., að ef ekkert verði aðhafzt, þá megi búast við því, að við árslokin 1935 verði óseldur nægilega mikill fiskur handa öllum markaðslöndum okkar í heilt ár, þó að enginn fleyta fari á flot. Ég hygg nú, að þetta sé nokkuð orðum aukið, og fyrr má nú vera öngþveiti en að svo sé. En mér er það alveg óskiljanlegt, að nokkur sá maður, sem lætur sig þessi mál nokkru varða, geti sætt sig við að leggja hendur í skaut, þegar ástandið er svona alvarlegt í þessum efnum. En það mátti skilja á hv. þm. N.-Ísf., að hann teldi það líklegasta úrræðið.

Ég hirði ekki um það að svo stöddu að fara út í það, sem þessi hv. þm. sagði í þá átt, að það væri tilgangurinn með þessu frv., að drepa „union“ og koma á einkasölu með saltfisk. Þetta eru fullyrðingar einar og fleipur, sem hv. þm. veit sjálfur, að hefir ekki við neitt að styðjast. (MG: Er þá meiningin að hafa ekki einkasölu á saltfiskinum?) Ég vil víkja að því síðar. Hv. þm. verður að taka á þolinmæðinni. Í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir, að hægt sé að setja á stofn ríkiseinkasölu á saltfiski nema því aðeins, að fiskeigendurnir vilji ekki hafa einkasöluna með höndum sjálfir sameiginlega.

Efni þessa frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru tvennskonar. Annarsvegar það, að gera ráðstafanir til þess, að ýmiskonar nýbreytni verði hafin við verkun og meðferð fiskjar og við sölu hans til útlanda. Það er viðurkennt, að með því fyrirkomulagi, sem hefir verið í þessum efnum, er stefnt í fullkomið óefni. Það er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fram fé til þessarar nýbreytni og til þess að afla nýrra markaða, ef unnt er. Allt þetta er nauðsynlegt, en að þessu vék hv. þm. N.-Ísf. ekki. Hann lætur nægja fullyrðingar sínar um það, að drepa eigi „union“ og setja á stofn ríkiseinkasölu í staðinn, og til viðbótar því heldur hann ræður um það, að það hafi tekizt að selja einhver lifandis ósköp af fiskinum, en niðurstaðan verður samt sú, að allt sé að fara í kalda kol, þrátt fyrir hið ágæta fyrirkomulag og hinn mikla gróða, sem af fisksölunni hefir hlotizt.

Það, sem ég drap á um nýbreytni í verkun fiskjar og nýbreytni í markaðleitun, er annar aðalþáttur þessa frv. Hin hliðin snýr að skipulagningu saltfisksölunnar, að því er snertir þau markaðslönd, sem við nú skiptum við, og það er sá þátturinn, sem hv. þm. N.-Ísf. aðallega hefir snúið sér að í sínum ræðum. Ég hygg, að um hin önnur atriði frv. sé ekki mikill ágreiningur. Það virtist ekki vera ágreiningur um þau í n., og fjárhæð sú, sem á að verja úr ríkissjóði í þessu skyni, 1 millj. kr., var samþ. í Nd. með öllum atkv. nema einu. Um þá hlið málsins mun ég því ekki fjölyrða.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að því skipulagi, sem gert er ráð fyrir að hafa á útflutningi fiskjar og sölufyrirkomulaginu, og þá svara ég um leið einkasöluhugleiðingum hv. þm. N.-Ísf., sem ég nú reyndar álít, okkar á milli sagt, að séu í meira lagi utan garna, því að það er bersýnilegt á öllum hugleiðingum hans, að hann er út af fyrir sig ekki á móti einkasölu á fiski, ef hún er í höndum réttra manna, og mynduð með því, sem hann kallar frjálsum samtökum. En sé einkasala á saltfiski hættuleg gagnvart viðskiptalöndum okkar úti í heimi, þá skiptir það engu máli í því sambandi, hvort einkasalan er komin á fyrir samtök þeirra manna, sem fisk eiga, eða fyrir lagaboð, svo framarlega sem einkasalan er í báðum tilfellum á svipaðan hátt rekin og sýni sig jafngóða viðskiptalöndunum í báðum tilfellum.

Út af einkasöluskrafi hv. þm. N.- Ísf. vil ég gjarnan taka það fram, að ákvæðunum í 12. gr. frv., þ. e. einkasöluheimildinni, verður ekki beitt nema það sýni sig, að ekki lánist að fá sæmilegt skipulag á sölu og útflutning saltfisks með samtökum framleiðenda sjálfra, og þá því aðeins, að áður sé athugað og þyki líklegt, með tilliti til markaðslandanna, að betur notist útflutningsmöguleikar á þann hátt, þ. e. a. s., að vænta megi góðs samkomulags og góðrar samvinnu við kaupendur og útflytjendur í þeim löndum, þar sem mest er keypt af fiskinum.

Ég teldi að ýmsu leyti æskilegast, að útflutningurinn yrði með svipuðum hætti og verið hefir síðustu ár; að sölufélagsskapur fiskeigenda hefði mestan hluta útflutningsins í sinni hendi, og jafnframt væri girt fyrir það, að þeir, sem flytja hinn hluta fiskframleiðslunnar út, geti undirboðið fél. eða valdið skaðlegum glundroða og erfiðleikum á annan hátt. — Í frv. er því einmitt fyrst og fremst gert ráð fyrir slíkum allsherjarfélagsskap og honum veitt sérstaða og hlunnindi umfram aðra útflytjendur. Það skilyrði eitt er sett, að félagsskapurinn sé opinn öllum fiskframleiðendum og atkvæðisrétturinn ekki eingöngu bundinn við fiskmagnið, heldur takmarkaður eins og í frv. segir, svo að félagsmenn almennt geti haft áhrif á stj. og starfsemi fél., en einn eða fáeinir stærstu útflytjendurnir ráði þar ekki einir öllu.

Fari svo, að allsherjarfélagsskapur fiskframleiðenda líði undir lok eða komist ekki á, getur stj. samkv. frv. takmarkað tölu útflytjenda, og má þá gera ráð fyrir, að útflytjendur myndi hópa sig saman í „grúppur“, sem hefðu útflutninginn með höndum. Ég tel þetta fyrirkomulag stórum ábyggilegra en það, sem fyrr er talið. Og einmitt með tilliti til þess, að ef svo skyldi fara, að útflytjendur yrðu fleiri og smærri, tel ég nauðsynlegt að hafa einkasöluheimildina til, til þess að tryggja eftir því sem hægt er góða samvinnu og fulla hollustu milli útflytjenda innbyrðis, en það er fyrsta skilyrðið fyrir því, að slíkt fyrirkomulag geti gefizt sæmilega.

Vegna skömmtunar á innflutningi til Spánar er okkur hin brýnasta nauðsyn á því að skipa þessum málum svo, að útflutningurinn þangað komi sem jafnast niður, og útflytjendur hins takmarkaða fiskmagns ekki noti útflutningsleyfi sín til þess að undirbjóða hver annan og gera með því bæði innflytjendum á Spáni og útflytjendum hér stórtjón.

Þessi ákvæði frv. eru, eins og ég hefi áður sagt, aðeins heimildarákvæði. Við verðum að vera við því búnir, eins og tímarnir eru nú, að geta mætt stórfelldum breyt. í viðskiptaheiminum yfirleitt. Þess vegna þurfum við að hafa þessar heimildir til í l., til þess að geta gripið til þeirra. Okkur er hin mesta nauðsyn á því að geta verndað útflytjendur héðan og innflytjendur í markaðslöndunum fyrir skaðlegri samkeppni og óeðlilegum undirboðum, eins og okkur er líka nauðsynlegt að tryggja það, að takmarkanirnar á útflutningi fiskjar komi sem jafnast niður, en lendi ekki hjá fáum útflytjendum, sem tilviljun eða önnur atvik geta ráðið, hverjir verða.

Ég hygg, að í raun og veru sé það óþarfi fyrir mig að segja fleira um þetta frv. að þessu sinni. Ég hefi gert grein fyrir því frá mínu sjónarmiði og tala þar fyrir hönd stj. og stjórnarflokkana, þegar ég hefi skýrt það fyrir hv. dm., undir hvaða kringumstæðum gert er ráð fyrir, að einkasöluheimildinni sé beitt. Frv. er allt þannig byggt, að það verður alveg ljóst, að það er stutt að því eins og hægt er að gera í löggjöf, að fiskeigendurnir sjálfir geti haft skipun þessara mála í sínum höndum. Og ef það fyrirkomulag verður haft á þessum málum, sem ég tel æskilegast, þ. e. eitt allsherjarfél., sem ráði yfir sem mestu af fiskmagninu, þá verður náttúrlega jafnframt að gæta þess, að það fiskmagn, sem yrði utan við þessi samtök, líkt og hefir verið 2 undanfarin ár, geti ekki valdið truflun á markaðinum fyrir það, að það sé selt undir því verði, sem hinn skipulagði félagsskapur selur sinn fisk fyrir. En það er einmitt sú hætta, sem af innflytjendum markaðslandanna er talið verst við að eiga, að þegar þeir eru búnir að semja um eða kaupa svo og svo stóra farma af fiski, þá koma kannske skömmu síðar aðrir útflytjendur og selja öðrum innflytjendum fyrir lægra verð, þannig að þeir, sem keypt hafa fyrir hærra verð, verða að setja það niður og bíða þannig tjón af viðskiptunum. Ríkasta tryggingin fyrir innflytjendur er sú, að slíkt eftirlit sé haft í þessu efni, að þetta geti ekki komið fyrir. Og það er enginn vafi á því, að slíkt skipulag sem tryggir þetta, verður yfirleitt vel þokkað. Eins og líka hv. þm. N.-Ísf. viðurkenndi óbeint, þar sem hann var að tala um, þær vinsældir, sem „union“ hefði haft af því að það hefði tryggt innflytjendur fyrir því, að ekki kæmu undirboð úr öðrum áttum.

Nú er ekki því að neita, að þeir, sem hafa haldið því fram, að S. Í. F. muni liðast í sundur, ef þetta frv. yrði samþ., hafa fengið nokkurn stuðning fyrir þessu sínu máli, og á ég þar við yfirlýsingu stjórnar S. Í. F. og Landsbankastjóranna út af þessu máli. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessi plögg og veit ekki heldur, hvernig þau eru undir komin. En það eitt vil ég segja í þessu sambandi, að ef þetta reynist sannspá, sem ég vona, að ekki verði, þá er ég fyrir mitt leyti alveg viss um það, að án þessarar lagasetningar hefði S. Í. F. ekki undir neinum kringumstæðum getað haldið saman, því að með þessu frv., ef að 1. verður, eru S. Í. F. gefin þau fríðindi, ef það breytir stjórnarháttum sínum í „demokratiskara“ form, að það hefir betri aðstöðu en það hefir nú. En ef aftur á móti einhverjir menn, sem nú eru meðlimir í S. Í. F., af einhverjum ástæðum ekki vilja vera það, þá er þeim alveg jafnheimilt að sundra þeim félagsskap, þó að þessi l. séu samþ. Það er óþarft að vera myrkur í máli um það; það er vitað, að stærstu aðilarnir í þessum félagsskap eru 3 félög, Kveldúlfur, Alliance og Sölusambandið við Faxaflóa. Ég hygg óhætt að fullyrða það, að ef þessir 3 aðilar vilja halda S. Í. F. saman með stuðningi bankanna, þá er enginn minnsti vafi á því, að það verður gert, en ef þeir vilja það ekki, þá er það ekki hægt með því fiskimagni, sem það nú hefir. — Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að ég hygg, að það sé ekki rétt, að „union“ hafi ekki haft nema 75% af fiskmagninu. Ég hygg, að það sé miklu nær sanni, að það hafi haft yfir 80%. En það skiptir minnstu máli í þessu sambandi. Aðalatriðið er það, að ef það er áhugamál bankastjóranna og þessara 3 aðila, sem ég áðan nefndi, að vilja halda S. Í. F. saman, þá er enginn vafi á því, að það verður gert. Skerist einn eða tveir úr leik, þá er alveg sama, hvort l. eru til eða ekki, þá er opið fyrir þá að sundra þessum félagsskap. Það er því ekki nema tilbúningur og fjarstæða, að það ráði nokkru um það, hvort S. Í. F. heldur áfram eða leysist upp, hvort þetta frv. verður samþ. eða ekki. — Ég skal taka það fram, að þó að þetta frv. verði að l., þá er sjálfsagt, að S. Í. F. haldi áfram sölu fiskjarins, þar til það hefir selt framleiðslu þessa árs.

Ég hygg, að ekki sé fleira, sem ég þarf að segja að svo stöddu. En ég verð að segja, að mér fannst það mjög óviðeigandi af hv. frsm. minni hl. að slá því fram um jafnmikilvægt mál sem þetta, að stefnt væri að því að sundra þeim samtökum, sem fyrir væru, í því skyni að setja upp einkasölu til þess að koma öllu í strand.