14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (3667)

150. mál, fiskimálanefnd

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. ráðh. vildi ekki svara fyrirspurn minni um það, hvort hann áliti heppilegra að koma á einkasölu á fiski, eins og nú standa sakir. En óbeinlínis hefir hann svarað þessu með því að lýsa yfir því, að hann vildi stuðla að því, að fisksölusamlagið haldi áfram að starfa. Hann getur ekki óskað þess, ef hann hyggst geta bent á betra fyrirkomulag.

Hæstv. ráðh. gaf það í skyn, að sölusamlagið væri að leysast upp. En hann hefir ekki bent á neitt því til sönnunar. Ég held, að full ástæða sé til þess að ætla, að hæstv. ráðh. segi þetta af því, að hann sér, að með þessu frv. er verið að greiða sölusamlaginu högg, sem er mjög líklegt, að geti orðið því að bana. Og þá fer mjög svipað fyrir hæstv. ráðh. eins og manninum, sem drap hinn og sagði, að hann hefði dáið hvort sem var. — Það er svo mikill kliður hér í deildinni, að ekki er til neins að vera að tala hér, enda eru utanþingsmenn farnir að halda hér fund. (JJ: Þess fleiri njóta ræðunnar). Nei, því færri, þegar ekkert heyrist, en annars kemur mér undarlega fyrir, ef hv. þm. S.-Þ. er tekinn að hlusta á umr., því að venjulega sést hann ekki hér nema á hlaupum.

Hæstv. ráðh. sagðist vita, að ýmsir af þeim, sem nú eru í Fisksölusamlaginu, mundu vera óánægðir með það, að samlagið yrði látið halda áfram að starfa, ef þessi lög yrðu samþ., m. ö. o., hann veit þá, að með þessu frv. er verið að drepa sölusamlagið. Þar sem hann hefir lýst yfir því, að hann vildi helzt að sölusamlagið héldist, þrátt fyrir alla galla, þá getur þetta ekki réttlætzt af öðru en því, að hann viti um það, að sölusamlagið mundi leysast upp hvort sem væri. En ég hygg, að engar líkur verði færðar fyrir því. Þvert á móti tala staðreyndirnar gegn því. Það er nýbúið að halda fundi í sölusambandinu, og félagsmenn sýndu svo mikinn áhuga fyrir því að halda fast saman um samlagið, að ég get alls ekki séð, hvernig hæstv. ráðh. getur álitið, að samlagið leysist upp, ef ekkert er aðgert. En fyrst hæstv. ráðh. er sannfærður um, að samlagið muni leysast upp, hvers vegna vill hann þá ekki bíða og láta reynsluna sýna fram á, að það hafi ekki verið þetta frv., sem drap það? Hæstv. ráðh. er alltaf heimilt að geta út bráðabirgðalög, jafnt í þessum efnum sem öðrum. Það er þess vegna ekki til neins fyrir hæstv. ráðh. að verja sig með því, að hann sé í vandræðum af því að hann hafi ekki lög, því að hann getur alltaf skapað lög eftir sínu höfði. Það er undarlegt, ef við þurfum endilega að semja lög í þessa átt frekar en t. d. Norðmenn, sem eru svipað settir og við í þessum efnum.

Hjá þeim bólar ekki á neinni löggjöf um væntanlega einkasölu, enda þótt þeir hafi sömu aðstöðu og við. Ég get ekki séð, að hæstv. ráðh. hafi, ef hann vill halda málinu til streitu, neina aðra leið út úr þessu, sem getur leitt til þess, að fisksölusamlagið haldi áfram að starfa, heldur en þá, að setja einn eða fleiri af aðalmönnum samlagsins í fiskimálanefndina. (Atvmrh.: Það er gert ráð fyrir, að 2 verði skipaðir úr stjórninni). Nú, þá fer þetta að verða dálítið skrítið, ef aðalráðamennirnir í fisksölusamlaginu eiga líka að fara í fisksölunefndina, því að samkv. frv. á þessi nefnd að vera einskonar yfirnefnd yfir samlaginu. Nokkrir menn verða þá settir til þess að vera sínir eigin yfirboðarar.