18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (3670)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Hv. formælendur þessa frv. hafa fallizt á það í þessum umr., að nauðsyn sé að hafa samvinnu við innflytjendur á erlendum markaði og reyna að tryggja þeim þau fyrirkomulagsatriði, sem þeir telja nauðsynleg til þess að þeir geti keypt í fastan reikning, og þar með fyrirbyggja umboðssöluna, svo og tryggja það, að þeir verði ekki undirseldir, er þeir liggja með miklar birgðir. Jafnframt er það viðurkennt, að þessir innflytjendur telja sér næga tryggingu í samtökum fiskframleiðenda hér, ef þau eru nógu víðtæk. Eins og ég gat um áður, er málum þessum nú skipað með S. Í. F. Í upphafi var vantrú á, að þetta mundi takast og öryggi fást með þessari skipan. Í byrjun voru því allmargir, sem ekki vildu hafa viðskipti við S. Í. F., en nú hafa flestir innflytjendur í markaðslöndunum séð, að þetta tryggir þá fyrir því, að þeir verði ekki undirseldir, og kemur í veg fyrir umboðssölu, þrátt fyrir það, þótt umboðssalan væri orðin nærri því ársgömul á öllum íslenzkum fiski, er S. Í. F. var stofnað. Það er öllum vitanlegt og kunnugt af skeytum frá stærsta innflytjenda á Spáni, að hann kveðst ekki trúa því, að slíkt öryggi fáist með ríkiseinkasölu. Það er undir þinginu komið, hvort S. Í. F. heldur áfram eða ekki, og margir hv. þm. hafa lítilla hagsmuna að gæta í fisksölunni, nema óbeint. Við, sem erum á móti þessu frv., erum sannfærðir um það, að hér er að óþörfu horfið frá því fyrirkomulagi, sem skapað hefir verðhækkun og öryggi í nútíð og framtíð, og teljum því ótækt að samþ. það skipulag, er þetta frv. gerir ráð fyrir.

Hæstv. atvmrh. sagði, að hann hefði frestað að bera þetta frv. fram þar til fulltrúafundur S. Í. F. hefði lokið störfum. Það mátti skilja á honum, að það væri vegna samþykkta, sem gerðar hefðu verið á fundinum, að hann teldi nauðsyn að bera þetta frv. fram. Mér þykir þetta veigalítil ástæða. Hæstv. ráðh. er kunnugt, að á fundinum var aðeins samþ. frv. til skipulagningar fyrir S. Í. F. og gert ráð fyrir því í áliti n., er fjallaði um málið, að á þessu geti orðið breyt., því að þetta voru uppástungur fulltrúafundarins til félagsmanna í S. Í. F. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa hér upp kafla úr nál. Þar segir svo: „Hinsvegar er ætlazt til, að fulltrúaráð og framkvæmdarstjórn geri þær breytingar á þessu frumverki fundarins í skipulagsmálum, sem nauðsynlegar kunna að þykja, ekki sízt þegar reynslan sker úr um, hvað áfátt verður og umbóta þarf á þessu bráðabirgðafyrirkomulagi“.

Ég lýsti yfir því í byrjun fulltrúaráðsfundarins, að við gætum ekki samþ. fullnaðarskipun þessa máls, við værum ekki kosnir til þess, heldur til þess að koma fram með till., er síðan yrðu ræddar innan samlaganna og sambandanna. Þessum málum yrði því aðeins skipað hér til bráðabirgða, þar til endanleg skipun yrði gerð. Það er því fyrirsláttur einn, er hæstv. ráðh. lætur sem frv. sé fram komið vegna till. fulltrúafundarins. Samt er það fyrirkomulag, er till. miða að, betra en það, sem nú er, því að þar er gert ráð fyrir, að hægt sé að víkja einum eða fleirum framkvæmdarstjóranna frá fyrirvaralaust, ef fulltrúaráðið felur þess þörf.

Ég hefi ekki séð ástæðu til að bera hér fram brtt. við þetta frv. frá mér sem minni hl. sjútvn. Þær breyt., er ég vildi gera á frv., hafa verið bornar fram í Nd. og allar felldar. Það hefir einnig komið fram í samtölum og umr., að hæstv. atvmrh. er ófáanlegur til þess að fella niður 12. gr. frv., sem ég álít skaðlegasta, enda þótt ég álíti, að einnig í 4. og 5. gr. séu ákvæði, er miði að því að eyðileggja þann góða árangur, er við höfum náð síðan S. Í. F. var stofnað.

Hæstv. atvmrh. og þeim, er að þessu frv. standa, má vera það ljóst, að S. Í. F. getur ekki haldið áfram eftir að þetta frv. er samþ. Með frv. er kippt undan því þeim grundvelli, sem það er byggt á. Hefi ég gert grein fyrir því áður í annari ræðu í þessari hv. d. Ég þykist líka sjá, að það er ómögulegt fyrir S. Í. F. að vinna að sölu þeirra birgða, sem nú eru í landinu.

Það er einkum eitt, sem því veldur, að þegar viðskiptavinum sölusamb. er það ljóst, og það verður mjög bráðlega, að S. Í. F. sér sér ekki fært að fara með fisksöluna áfram, þá verður það erfitt, og að mínu áliti ómögulegt, fyrir S. Í. F. að fara með söluna á þeim birgðum, sem nú eru fyrirliggjandi, vegna þess að þeir, sem fara með fisksöluna á Spáni, munu allir vilja geyma meira eða minna af sínum innflutningsleyfum þar á íslenzkum fiski, til þess að kaupa nýjan fisk. Félag, sem ekki getur gefið líkur, hvað þá tryggingu, fyrir því, að það muni fara með sölu á íslenzkum fiski framvegis, eða á næsta ári, mun eiga afarerfitt með að hafa með höndum sölu á eldri fiskbirgðum. Ég veit ekki um hug forstjóra S. Í. F., en mér kemur það ekki til hugar, að hún láti S. Í. F. reyna að selja fiskbirgðirnar, nema vissa sé fyrir, að hún fari einnig með sölu á nýrri fiskframleiðslu á næsta ári.

Ég veit, að það hefir enga þýðingu að ræða þetta mál frekar. Við sjálfstæðismenn höfum fært fram sannanir fyrir því, svo að ekki verður á móti mælt, að fisksölufyrirkomulagið hefir komið mörgu góðu til leiðar síðan sambandið var stofnað, þar sem það hefir, frá því að vera umboðsverzlun með svo lágu verði á fiskinum, að óhugsandi var að reka útgerð á Íslandi, náð sölusamböndum svo ágætum, að verðið hefir hækkað til mikilla muna, eða um 20—25%, þrátt fyrir það, að vísitölur á matvælaverði í viðskiptalöndum okkar hafa sýnt töluverða lækkun. Það er hverjum manni sýnilegt, að þessar umbætur á fiskverzluninni eru miklu meiri en við gátum búizt við. Að öðru leyti höfum við fært sterkar líkur fyrir því, hvort sem það verður „grúppusystemið“ eða einkasala, sem við tekur, að það muni verða erfitt að koma því þannig fyrir, að ekki hljótist af því stórtjón, eða jafnvel eyðilegging á fiskmarkaðnum að meira eða minna leyti.

Vera má, að fyrst í stað haldist eitthvað í því horfi, sem nú er, með „grúppusysteminu“, en þó mun það fljótlega reka í strand, að því leyti er snertir sambönd okkar og samstarf við fiskinnflytjendur í markaðslöndunum. En ríkiseinkasalan leiðir til algerðrar eyðileggingar og niðurdreps. Og þeir, sem taka á sig ábyrgðina á þeirri breyt. á fiskverzluninni, verða að gera sér það ljóst, að hér getur verið um líf eða dauða íslenzkra fiskframleiðenda að ræða, og þar með allrar þjóðarinnar.