18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (3672)

150. mál, fiskimálanefnd

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. atvmrh. hefir beinlínis tekið fram oftar en einu sinni, að þetta frv. sé flutt til þess að styrkja sölusamband fiskútflytjenda. (JAJ: Svo mikið hefir hann nú ekki þorað að segja). Jú, það hefir hann gert; hann var einmitt að segja það nú síðast í ræðu sinni. Hver trúir þessu, þegar það er athugað, að hann hefir áður sem þm. í Alþfl. hvað eftir annað flutt frv. um einkasölu á saltfiski? Nú er eins og hann sé snúinn frá því og vilji ekki ganga lengra en það, að styrkja sölusamlagið með þessari einkasöluhelmild í frv. Nú held ég, að það væri heppilegast fyrir málið í heild og sölusaml., ef hæstv. ráðh. vildi sofa á frv. enn í nokkra mánuði og vita, hvort hann verður þá ekki algerlega búinn að skipta um skoðun á því tímabili, þannig að hann telji þá réttast að nema einkasöluheimildina alveg úr frv.

Mér þótti undarlegt, að hæstv. atvmrh. skyldi leyfa sér að halda því fram, þvert á móti því, sem ég veit að er rétt, að margir af stjórnendum S. Í. F. séu frv. samþykkir í aðalatriðum. Eftir því hljóta a. m. k. 3 af þeim að hafa látið þetta í ljós. Ég skora á hæstv. ráðh. að nefna nöfn þessara manna og segja, hvað farið hefir á milli hans og þeirra um þetta efni. Hæstv. ráðh. var áður nýbúinn að segja í ræðu sinni, að hann hefði þá nýskeð talað við tvo af stjórnendum samlagsins, og að þá hefði verið ginnungagap á milli skoðana ráðh. og þeirra í þessu máli. Það hljóta því að hafa verið hinir þrír úr stjórninni, þessir mörgu, sem hann fullyrti, að væru frv. samþykkir.

Hæstv. ráðh. brýndi mjög röddina og sagði, að það væri óforsvaranlegt, ef fisksölusamb. vildi ekki ganga að skilyrðum frv. — Það er sjálfsagt þetta, sem hæstv. ráðh. hefir verið að ræða um við þá 2 menn, er hann nafngreindi úr stjórn S. Í. F., og form. Sjálfstfl., og hann lýsti sjálfur úrslitunum. Og þetta eru þeir mennirnir, sem ég hygg, að hafi mest að segja í stj. S. Í. F.; má því gizka á, hvernig farið hefði, jafnvel þó að hinir hefðu verið allir hlynntir frv., en það vitum við báðir, að ekki er.

Hæstv. ráðh. lýsti því sjálfur yfir við 2. umr. þessa máls, að ef einhver af stærri fiskútflytjendum brytist út úr sölusamlaginu, þá væri S. Í. F. dautt. Einnig hefir hann sagt, að hann viti um menn í sölusamlaginu, sem muni brjótast úr því, ef þetta frv. verður samþ. Hann hlýtur að sjá, að hér er hann algerlega kominn í mótsögn við sjálfan sig, er hann segist með frv. vera að vernda samlagið, því að hann hefir enga von, og getur ekki haft neina von um, að S. Í. F. haldi áfram að starfa eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Ég skal taka það fram, að ég hefi enga hugmynd um, hvað ráðamenn samlagsins ætla að gera í því efni; ég hefi ekki talað við nokkurn mann úr stjórn S. Í. F. um það. En ég hefi séð svarbréf frá stjórn Landsbankans og stjórn S. Í. F. til sjútvn. Nd., og af þeim svörum dreg ég þá ályktun, að það séu engar líkur til, að sölusambandið haldi áfram að starfa. Ég hefi enga ástæðu til að ætla, að þessar stjórnir lýsi því yfir bréflega, sem þær ætla sér ekki að standa við.

Hæstv. atvmrh. sagðist vera fús á að taka á sig ábyrgðina á þessu máli, og ég veit, að það er rétt að því leyti, er snertir hina pólitísku ábyrgð, en það er aðallega önnur ábyrgð — hin fjárhagslega —, sem hann getur ekki risið undir. Það skiptir engu máli, hverju hann lýsir yfir í því efni. Allir vita, að þá ábyrgð getur hann ekki borið.