18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2462 í B-deild Alþingistíðinda. (3673)

150. mál, fiskimálanefnd

Frsm. minni hl. (Jón Auðunn Jónsson):

Þegar hæstv. atvmrh. var að tala um það í sinni síðustu ræðu, að ákvæði þessa frv. mundu beinlínis styrkja sölusambandið þá er hann sannarlega að leika skrípaleik. Honum er vel kunnugt um, að a. m. k. einn maður úr stjórn S. Í. F. aðhyllist „grúppusystemið“ og telur, að það muni vera betra, eða a. m. k. eins heppilegt og núv. fyrirkomulag. Hæstv. ráðh. veit því, að þessi maður muni ekki vinna að því, að sölusambandinu verði haldið áfram á sama grundvelli og nú. En hinsvegar var það vitanlegt, að ef þetta frv. hefði ekki fram komið, þá var engin minnsta hætta á, að þessi framkvæmdarstjóri mundi fara að vinna á móti S. Í. F. Og hæstv. ráðh. veit það vel, að stjórnendur S. Í. F. hafa allir þá pólitísku skoðun, að þeir eru andstæðir ríkiseinkasölu, og jafnframt að sumir þeirra munu ekki vinna að stofnun nýs sölusamlags eða halda við S. Í. F. eftir að þetta frv. er lögfest og gefin von um „grúppusystem“. Af þessum orsökum er það vitanlegt, að við hinir mörgu og smáu fiskútflytjendur, sem viljum láta S. Í. F. halda áfram, getum það bókstaflega ekki, eftir að þetta frv. er orðið að lögum. Það er öllum, sem til þekkja, vitanlegt.

Ég skoraði á hann að segja, hverjir af forstjórum fisksölunefndarinnar það væru, sem álitu, að þetta frv. væri til styrktar fisksölusambandinu. (Atvmrh.: Það hefir enginn sagt það). Það er gott, að það er þá tekið aftur. (Atvmrh.: Þetta er ekki að taka aftur. Ég hefi aldrei sagt þetta. Ég sagði, að mér væri kunnugt um, að sumir, eða flestir framkvæmdarstjórarnir teldu, að þau skilyrði, sem sett eru fyrir allsherjarfélagsskap, væru ekki aðgengileg. Hitt hefi ég ekkert sagt um). Þá er þessu snúið við hjá hæstv. ráðh. (Atvmrh.: Ég hefi engu snúið við. Þetta er það, sem ég sagði 1. En þótt hann segi það, þá er það ekki rétt; ég er sannfærður um það. Og ég byggi það fyrst og fremst á því, að ég hefi talað við þessa menn og haft við þá mikil viðskipti fyrir mitt félag, og veit hug þeirra. Það má vera, að það sé e. t. v. einn maður, sem vill koma á „grúppusystemi“ og segi þetta því, en það er ekki vilji hinna. Ég fullyrði, að bankastjórn Landsbankans og a. m. k. tveir af aðalforstjórunum hafa sagt hæstv. ráðh. það skýlaust, að þeir teldu ómögulegt að halda S. Í. F. saman, ef frv. þetta væri samþ. óbreytt. Vill ráðh. neita þessu? Það er óhugsandi, að fisksölusamlagið eða „union“ geti safnað því fiskmagni, sem þarf til þess að fá þau hlunnindi, sem boðin eru í frv. Hæstv. ráðh. vildi láta líta svo út, að allt hefði verið reynt, sem unnt hefði verið, til þess að fá samkomulag í málinu, og síðast hefði hann átt tal við Sjálfstfl. um þetta. En til hvers er að gera tilraun til samkomulags, þegar ákveðið er að slaka í engu til, eins og t. d. halda 12. gr. óbreyttri. Hitt eru allir sammála um, að það er hægt að ganga inn á þær breyt. á fyrirkomulagi S. Í. F. að einhverju leyti, en það liggur undir ákvörðun sambandsmanna sjálfra. Það er gert svona til að sýnast að vera að brjóta upp á samtali um samkomulag, þegar vissa er fengin fyrir því, að það á engu að breyta. Annars er sjáanlegt, að eins og frv. er byggt, þá eru t. d. stór samlög, sem ná yfir heil héruð, sett mjög svo hjá. Þær breytingar, sem stjórnarfl. þykjast vilja fá á skipulagi S. Í. F., eru á þá leið, að menn, sem hafa e. t. v. 100 skp., hafi jafnmikið vald og þeir, sem máske hafa 35 þús. skp. Stóru samlagið, sem nær yfir heilt hérað og gætir hagsmuna hundraða manna, á ekki að hafa meiri atkv.rétt en samlag, sem nær yfir eina verstöð, með t. d. 10 meðlimi. (Atvmrh.: Vald þessara félaga er alls ekki jafnt. Hvar stendur það í frv.?). Hvar stendur þetta í frv., spyr hæstv. ráðh. Þetta stendur ekki skýrum stöfum í frv., en ráðh. segir, að ef fengist slík breyting á skipulagi S. Í. F., þá hefði þetta frv. ekki verið flutt á þinginu. Þeir, sem mikið hafa undir höndum, eiga að hafa mjög takmarkaðan rétt, en hinir smærri, sem lítilla hagsmuna hafa að gæta, fullan rétt, en oft eru það menn, sem jafnframt eru bændur og eiga því ekki eins mikið undir fisksölu og þeir, sem byggja á því sína framfærslu og sinna. Ef „grúppusystem“ verður upp tekið, þá er það svo, að miklu betra er að vera í lítilli „grúppu“ en stórri, þar sem menn geta ekki á þessum tímum selt allan fiskinn vegna hafta og takmarkana hjá viðskiptaþjóðunnm. Á því byggist líka álit þeirra manna, sem vilja hafa „grúppusystem“. En er það til hagsbóta fyrir heildina? Nei, þvert á móti. Það fyrirkomulag, sem við höfum haft, hefir sýnt sína stórkostlegu yfirburði í fisksölunni, eins og ég hefi áður lýst, og með öðru fyrirkomulagi mun ekki unnt að ná sama árangri. Auðvitað er ég ekki að ásaka þann pólitíska flokk, sem hefir það á stefnuskrá sinni að keyra allt í ríkisrekstrarfjötra og taka einkasölu á sem allra flestum vörum út- og innlendum, þótt þeir reyni með öllu móti að framkvæma sitt „ideal“ sem þeir nú einu sinni aðhyllast í stjórnmálum og atvinnumálum. En að Framsfl. skuli láta sósíalista blekkja sig aftur til fylgis við ríkiseinkasölu, eftir þá reynslu sem síldareinkasalan gaf, er undrunarefni.