28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2664 í B-deild Alþingistíðinda. (3691)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Hv. 3. þm. Reykv. hætti að referera ræðu mína áður en hann komst að aðalefninu, sem eru höfuðrök þessa máls. Hann minntist ekki á það, sem ég skýrði frá úr till. brezku síldarn., að forstöðun. verði heimilað að löggilda síldarsaltendur og skipa útflutningsnefndir, sem eiga að sjá um verkun og semja um útflutning á allri brezkri síld. (JakM: Hvar eru samskonar ákvæði í brezku till. og þau, sem felast í 5. og 12. gr. frv.?). Ég fór ekki út í það í framsöguræðu minni, enda er ekki venja að ræða einstakar gr. í frv. fyrr en við 2. umr. málsins. En það, sem ég benti á til samanburðar, get ég gjarnan endurtekið fyrir hv. þm.; og það er í stuttu máli þetta: að brezka síldarn. á að hafa allt það vald, og jafnvel víðtækara vald á sumum sviðum, en síldarútvegsn. er ætlað að hafa hér á landi samkv. þessu frv. Það er gert ráð fyrir, að brezka n. ákveði veiðileyfi til skipa, hún ákveður, hvenær síldveiði skuli byrja og hætta, hún getur bannað síldarsöltun á vissum tímum o. s. frv.

Hér er í 5. gr. þessa frv., sem fyrir liggur, talað um, að „útflytjendur verði að skuldbinda sig til að beita fyrirmælum síldarútvegsn. um framboð og lágmarksverð á síld, sem seld er til útlanda, um skiptingu markaðsstaða, útflutningstíma, afhendingu gjaldeyris og annað það, sem n. setur að skilyrði fyrir veitingu útflutningsleyfa samkv. lögum þessum.“

Þá eru í 5. gr. einnig ákvæði um, að síldarútflytjendur skuli skyldir til að taka síld til sölu af framleiðendum, gegn hæfilegri hámarksþóknun, enda sé síldin markaðshæf vara. Ennfremur skulu þeir skyldir til að greiða fyrir því, að allir síldarframleiðendur njóti sem fyllsts jafnréttis um sölu framleiðslu sinnar.

Vera má, að þetta sé einmitt þyrnir í augum hv. 3. þm. Reykv. En ég fyrir mitt leyti tel það nauðsynlegt, og þó að þetta sé ekki alveg orðrétt samhljóða till. brezku n., (JakM: Nú, ekki það!) þá vil ég fylgja því fast fram, að jafnrétti sé látið gilda í þessu efni, af því að það hefir mjög skort á um það við fiskútflutning hér á landi. Hinsvegar verður því ekki neitað, að vald brezku síldarn. er ákveðið talsvert víðtækara samkv. till. n. heldur en ætlazt er til, að verði hér á landi eftir þessu frv., og má t. d. geta þess, að brezka síldarn. hefir heimild til að kaupa og verka síld. (JakM: Allt undir annara handleiðslu). Og þetta sýnir betur en allt annað, að í mesta fríverzlunarlandi heimsins eru menn farnir að hverfa frá hinni frjálsu samkeppni. Það er augljóst, að þeir, sem trúað hafa á frjálsa samkeppni, vilja nú koma þessum málum öðruvísi fyrir í Bretlandi. En hér á landi vilja sjálfstæðismennirnir, að fisk- og síldarútvegsnefndirnar hafi aðeins ráðgefandi vald, í stað þess, að meiri hl. sjútvn. leggur til, að þær hafi framkvæmdavald samkv. fordæmi frá Bretum.

Ég vil engu lofa um það, að skýrsla brezku n. verði prentuð með nál. sjútvn. Það hlýtur að taka talsverðan tíma að þýða skýrsluna og prenta, því að hún er löng, og álít ég tæplega leggjandi í það, vegna kostnaðarins. En hinsvegar geta þeir, sem skilja ensku, fengið skýrsluna lánaða hjá Fiskifél. Ísl. og kynnt sér hana, og ef hv. 3. þm. Reykv. vill fá að athuga einstök atriði í skýrslunni, þá er honum velkomið að sjá þau hjá mér í lauslegri þýðingu, sem ég hefi gert.