28.11.1934
Neðri deild: 47. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2668 í B-deild Alþingistíðinda. (3696)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að mér og hv. 6. þm. Reykv. var gefinn kostur á að gerast meðflm. að þessu frv. En við álitum ekki nauðsynlegt, að við tækjum þátt í því, og felldum okkur ekki við frv., í því formi, sem það var. Hinsvegar skal ég játa, að það horfir talsvert öðruvísi við um sölu á síldinni en saltfiskinum. Bæði þessi frv., um fiskimálanefnd og síldarútvegsnefnd, eru steypt í sama móti, að öðru leyti en því, að þar sem talað er um fisk í öðru frv., þá stendur það sama um síld í hinu.

Þegar þess er gætt, að er frv. um fiskimálanefnd kom fram, þá var til í landinu öflug stofnun, sem sér um sölu á saltfiski, þá er frv. um síld borið fram með talsvert öðrum forsendum. Að vísu er til sölusamlag um matjessíld, en um það sagði hæstv. atvmrh. í útvarpsumr. fyrir nokkru, að það myndi í þann veginn að leysast upp. Hér er því ólíku saman að jafna. Fisksölusamlagið var ekki líkt því að vera að leysast upp. Það var að koma fastara skipulagi á sinn félagsskap þegar frv. um fiskimálan. kom fram. En þetta frv. er borið fram á tíma, sem atvmrh. segir, að sá félagsskapur, sem myndaður var um sölu á nokkrum hluta síldarinnar, sé í þann veginn að leysast upp. Þetta gerir viðhorfið mjög mikið annað í þessu máli. Svo er frá því að segja hvað snertir síldarsöluna sérstaklega, að ég komst að því í ferð minni fyrir ríkisstj. í fyrra, að allsterk rök lágu fyrir því, að síldarsalan væri meir á einni hendi en verið hafði. Eftir tilmælum fyrrv. stj. sat ég fund í Danzig, sem boðað var til af síldarinnflytjendum til þess að ræða þessi mál, og hafði verið óskað eftir fulltrúum frá Íslendingum og Norðmönnum, sem og mættu á fundinum. Ég skal fara fljótt yfir sögu, en geta þess, að sú varð niðurstaðan á fundinum, en þar voru mættir allir innflytjendur í Danzig, og þeir hafa nær einir á hendi dreifingu á síldinni, sem fer á pólskan markað, nema hvað hin nýja hafnarborg Gdynia hefir nokkuð dregið til sín, að innflytjendur töldu æskilegt, að einhverri einni stofnun á Íslandi væri falið að annast útflutninginn. Ég lagði svo til, þegar heim kom, að gerð væri ýtarleg tilraun til þess að fá útgerðarmenn til þess að starfa saman, vegna þess að ég sannfærðist um vilja innflytjendanna í þessu efni. Þeir tjáðu sig fúsa til þess að gera fyrirframsamning um kaup á fleiri tugum þúsunda tunna af síld, eitthvað 40—50 þús. fyrir ákveðið verð, ef skipulagið kæmist í slíkt horf. Mér virtust hér geta orðið breyt. til bóta og benti rækilega á það í skýrslu minni til ríkisstj. hve skaðlegt það væri fyrir síldarverzlunina, að hver hlypi í kapp við annan um markaðinn og orsakaði heildarverðlækkun. Þetta virtist mönnum myndi mega lækna, með því að á Íslandi væri ein sölumiðstöð, en helzt vildu nú innflytjendurnir, að Noregur og Ísland hefðu með sér samtök í þessu efni, og þeir voru svo vongóðir í Danzig, að þeir gerðu ráð fyrir, að þetta gæti tekizt, að hafa samvinnu um alla Íslandsveidda síld. Af þessum ástæðum lagði ég til, að komið væri betra skipulagi á þennan útflutning. Fyrrv. forsrh. Ásgeir Ásgeirsson, tók því vel, og athugaði málið mjög alvarlega. Kvaddi hann hingað til Rvíkur á fund ýmsa hina stærri síldarseljendur og útflytjendur, þ. á m. hv. þm. Ísaf. Um þetta voru svo haldnir mjög margir fundir í fyrravetur og reynt að fá menn til samstarfs. Á aðra viku var unnið að því viðstöðulaust að semja lagafrv. o. þ. l. Því miður tókst þó ekki að sameina menn í það sinn. En það tókst síðar, þegar leið á árið, og var þá stofnað síldarsölusamlagið. Hygg ég, að tilraunir þær, sem hafnar voru fyrir atbeina fyrrv. forsrh., hafi verið öflugur þáttur í því að vekja menn til umhugsunar um þessi mál, sem því miður hafa verið meira látin reka á reiðanum en skyldi. Ég segi það ekki til hv. þm. Ísaf., því að ég veit, að hann hefir verið þess sinnis að hafa þetta í mjög föstum skorðum, og ennþá fastari skorðum en ég hefi getað fellt mig við. Hér er ekki tími til að ræða um framkvæmdir síldarsölusamlagsins, enda er ég því ekki nægilega kunnugur. Eitt atriði vil ég þó drepa á í þessu sambandi, og það er, að strax og ég frétti, að samlagið hefði ákveðið að skipta ekki við innflytjendur í Danzig hvað pólska markaðinn snerti, bar ég kvíðboga í brjósti fyrir óheppilegum afleiðingum. Vonandi hefir þetta ekki komið verulega að sök, en þó mun um einhver óþægindi af því að ræða. Því að það er nú svo, hvort sem um er að ræða fisk- eða síldarverzlun, að hættulegt er að „experimentera“ með slíkt og kippa allt í einu verzluninni úr þeim farvegi, sem hún hefir legið í um tugi ára, og fá hana nýjum og öðrum mönnum í hendur. Þetta er sagt almennt og ekki ætlazt til, að það beri að skoða sem ádeilu á virðingarverðar tilraunir til þess að halda síldarútflytjendum saman um söluna, eins og gert var í sumar. Það er líka óhætt að segja það, að stofnun samlagsins hefir orðið til að hækka vöruverðið. Hv. þm. Ísaf. sagði það, að við sjálfstæðismenn vildum láta okkur nægja með að gera ráðstafanir í þessu efni, sem séu þannig lagaðar, að einungis sé þeirri n., sem fjalli um þessi mál, veitt ráðgefandi vald, en ekki framkvæmdavald látið fylgja. Þetta er í sjálfu sér rétt. Við, ég o. fl. sjálfstæðismenn, höfum þá grundvallarskoðun, að ekki beri í lengstu lög að grípa inn í gang atvinnulífsins, að ekki megi beita valdboði. Við kjósum miklu fremur að vera eins og hann orðaði það, ráðgefandi í þessum efnum, þ. e. a. s. tala til heilbrigðrar skynsemi manna og reyna að fá þá sjálfa til þess að gera þessa hluti. Við eigum ávallt erfitt með að beita valdboði, og erfiðara en þeir menn, sem álíta þá leið fullt eins heppilega. En hinsvegar höfum við ekki lokað augunum fyrir því, fremur en aðrir menn, að nauðsyn síðari ára hefir neytt ýmsar þjóðir til þess að gera ýmislegt það með valdboði, sem á venjulegum tímum þyrfti ekki að koma til með að gera á þann hátt. Og við höfum einnig orðið að gera þetta hér á landi bæði hvað inn- og útflutning snertir. En þetta þýðir enganveginn það, sem svo ofarlega er í huga ýmissa manna, að vegna núv. ástands geti einstaklingarnir ekki annazt verzlunina, og þar með réttlæta þeir að kasta sí og æ hnútum í hina svokölluðu frjálsu samkeppni. Hin frjálsa samkeppni á erfitt með að njóta sín, þegar jafnvægi heimsviðskiptanna raskast. Hún nýtur sín þá verr eða jafnvel ekki, en það er ekki sönnun fyrir því, að hún sé í sjálfu sér ekki góð, heldur sönnun fyrir því, að ýmsir aðsteðjandi, óviðráðanlegir atburðir gera þessa aðferð á framkvæmd verzlunar- og atvinnurekstrar svo erfiða, og það e. t. v. svo, að grípa verður til nýrra ráða, ráða, sem oft hefta, að hægt sé að koma nokkurri frjálsri samkeppni við í bili. Mér finnst dálítið óviðkunnanleg í sambandi við það, sem bæði skeður hér á þingi og öðrum þingum annarsstaðar í heiminum, þessi sífellda hlökkun yfir því, að þarna og þarna sjái menn, hvernig hin frjálsa samkeppni hafi farið. Jafnaðarmenn tala um þetta eins og það sé vottur þess, að haftastefnan sé sigurvænlegri í sjálfu sér en sú stefna, að láta allt sem frjálsast í viðskiptum. En þessu er ekki þannig varið. Jafnvel þeir, sem á þessum tímum verða að beygja sig undir haftaokið og verða að beita sér fyrir því að viðhalda því, allir að undanskildum einstöku einokunarpostulum, þrá, að það fyrirkomulag breytist í hið frjálsa horf í verzlun og viðskiptum. Því aðþrengdari sem þjóðirnar verða af haftastefnunum, því dýpri verður þráin eftir því, að eðlileg rás viðskiptanna geti átt sér stað.

Ég er nú e. t. v. kominn nokkuð frá umræðuefninu, en það voru ummæli hv. þm. Ísaf. um aðferðir okkar sjálfstæðismanna, þetta ráðgefandi vald, sem við höfum mest í hávegum, og aftur þvingunarráðstafanirnar, sem hann taldi svo heppilegar, sem komu mér út í umr. um þetta atriði.

Það er e. t. v. ofsagt, að síldarútvegsmenn séu minna gefnir fyrir samtök sín á milli en t. d. fiskframleiðendur, en þó hygg ég, að svo sé samt. Það er einhvernveginn erfitt að halda þeim í samtökum af frjálsum og fúsum vilja. Vegna þessa er e. t. v. nauðsynlegt að gera einhverjar þær ráðstafanir, sem snerta síldarútveginn, þótt hinar sömu ráðstafanir eigi ekki við á sviði fiskframleiðslunnar. Ég er persónulega þeirrar skoðunar, að þetta samlag um sölu léttverkaðrar síldar sé til stórra hagsmuna og hindri þann rugling, sem verið hefir á sölu síldarinnar undanfarin ár. En sé svo sem hæstv. atvmrh. lýsti yfir, að þetta samlag sé að leysast upp, þá er eðlilegt, að hv. þm. Ísaf. og þeir, sem standa honum nærri að skoðunum, komi með aðrar till. í skipulagningarátt á þessum málum. Þetta frv. er hér til 1. umr., og líklegt, að því verði vísað til hv. sjútvn. og hún athugi það og byggi álit sitt á þeim forsendum, að sérstök ástæða sé til þess að sjá fyrir því, að sem heppilegast fyrirkomulag verði á útflutningi síldarinnar á næsta ári. Ég er ekki öllum atriðum þessa frv. samþ. og vildi því ekki vera með í að flytja það. En ég vildi gjarnan ljá það lið, sem ég get, og gefa þær upplýsingar, sem ég á yfir að ráða, og orðið geta til þess að koma útflutningsverzluninni með síld í það horf, sem heppilegt má teljast fyrir alla aðila.