03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (37)

Kosning til efrideildar

Forseti (JBald):

Það kom fram krafa um það á þingfundi í gær að bera úrskurð forseta undir Alþ., og ég sá ekki ástæðu til að verða við því. Forsetar hafa ekki gert slíkt að jafnaði, og ég sé ekki heldur ástæðu til að verða við þeirri beiðni nú. Í úrskurðinum var gerð glögg grein fyrir niðurstöðum hans, og það er áreiðanlegt, að þessi úrskurður er réttur samkv. stjskr., kosningalögum og úrslitum kosninganna, og ekki í ósamræmi við þingsköp. Það verður ekki hægt fyrir flokka eða einstaka þm. að skjóta sér undan því með hrekkjabrögðum að gera skyldu sína, eða brjóta starfsemi þingsins. Ég mun ekki verða við því að bera úrskurðinn undir þingið. Það stendur við það, sem var í gær, og engin ástæða til að hafa um þetta langar umræður.