05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2678 í B-deild Alþingistíðinda. (3707)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Síldarútvegurinn þarf ekki að standa höllum færi vegna þess, að það sé ekki viðhöfð viðleitni hjá því opinbera til þess að lappa upp á hann, a. m. k. hvað það snertir, að sjá honum fyrir mönnum til þess að standa fyrir hans málefnum að því er snertir sölu síldarafurða. Við, sem setið höfum á undanförnum þingum, þekkjum það, að ekki hefir skort viðleitni í þessa átt. En það er þó varla hægt að komast fram hjá því, að benda á það, að það mun vera álit síldarútgerðarmanna, að það, sem þingið hafi bezt og heppilegast gert í þessum málum, sé blátt áfram það, að afnema þau l., sem sett höfðu verið með ráðstöfunum þess opinbera um afskipti þess af þessum málum. Ég held, að það beri öllum saman um, að það hafi verið heppilegustu afskipti þingsins af síldarmálunum, að leysa síldarútveginn úr þeim dróma, sem hann var kominn í fyrir aðgerðir þess opinbera. Það hefði þess vegna mátt vænta þess, að Alþ. hefði svolítið athugað sinn gang, áður en það lagði út á sömu braut sem áður hefir verið farin í þessum efnum og hefir verið svona afdrifarík og örlagarík fyrir síldarútveginn í landinu.

Mér skilst, að með þessu frv. sé gengið inn á mjög svipaða braut þeirri, sem reyndist svo átakanlega illa fyrir þennan útveg. Það er vitanlega ekki gengið alveg eins hreint til verks í þessu frv. eins og í l. um síldareinkasölu hér á árunum, en mér virðist stefnt beint að sama marki, því, að koma á einkasölu á síldinni, eða m. ö. o. að koma þessu þannig fyrir, að þeir menn fari með þetta mál, sem valdir eru til þess innan mjög þröngra takmarkana, sem um það eru sett af löggjafanum. Ég hefi ekki athugað það ennþá, hvernig tilhögun á að vera á tilnefningu manna í þessa 7 manna stj. samkv. 1. gr. frv. Hvort menn eiga að fá tiltölulega jafna þátttöku eftir bátafjölda og fyrirferð útgerðarinnar á ýmsum svæðum, sem eiga að skipa menn í þessa n. Þetta skiptir vitanlega mjög miklu máli, þegar nánar eru athuguð ýms ákvæði í þessu frv. Ég hefi ekki rannsakað þetta nákvæmlega ennþá, en ég mun gera mér grein fyrir því fyrir 3. umr. málsins með aðstoð Fiskifél. Ísl. Fyrirfram vil ég ekki bera brigður á það, að þessu kunni að vera réttlátlega niður skipt, en ég finn ástæðu til þess að reyna að fá upplýsingar um það hjá þeim aðila, sem maður getur fullkomlega byggt á upplýsingum frá. Hitt er auðsær hlutur, að ef mætti gera ráð fyrir, að val þessarar stj. yrði pólitískt litað, þá er einum stjórnmálaflokkinum tryggð alveg sérstök aðstaða, með því að kveða svo á, að 2 menn skuli skipaðir af einum ákveðnum pólitískum flokki, sem er A. S. Í. Það er alveg greinilegt samkv. ákvæðum þessa frv., að ef getur komið pólitískur litur á þessa stj., þá hefir þessi stjórnmálaflokkur alveg yfirhöndina í því efni. Það má draga þá ályktun út úr þessari ráðstöfun, að láta einn stjórnmálaflokk hafa sérstaklega yfirhöndina í þessari stj., eða stuðla að því, að svo geti orðið, sem gefur það fyllilega í skyn, að þetta frv. stefnir til einkasölu í þessu efni. Það er alkunnugt, að það er eitt af stefnuskráratriðum sósíalistanna að taka einkasölu á sem flestum viðskiptum þjóðarinnar, bæði útflutningi og innflutningi.

Það er gert ráð fyrir því í frv. þessu, að félagsskapur síldarútgerðarmanna, þeirra, sem hafa náð því takmarki að hafa yfirráð yfir 80% af síldarútflutningi, geti fengið leyfi til þess að flytja út a. m. k. það, sem þeim hluta síldarútflutningsins nemur, sem þessi félagsskapur hefir yfir að ráða. Eftir þeirri yfirlýsingu, sem mér virtist að kæmi fram, viðvíkjandi þeim félagsskap, sem myndaður var á síðasta sumri og hefir átt nokkurn stuðning í löggjöf, með bráðabirgðal., sem gefin voru út, þá virðist e. t. v. mega álíta, að þó að gert sé ráð fyrir að fela slíkum félagsskap síldarsöluna, verði það kannske ekki svo mikill þröskuldur í veginum fyrir því, að hægt sé að koma síldarsölunni yfir í einkasölu. Það má gera ráð fyrir því, ef sá félagsskapur hefir gefizt upp við sölu síldarinnar, eins og mér virðist hafa komið fram, að þá muni e. t. v. ekki betur takast til með þennan félagsskap, sem hér er talað um, að stofnaður verði, og þá geti þeir menn, sem endilega vilja koma síldareinkasölu á aftur, boðið óhræddir upp á, að slíkur félagsskapur skuli njóta þeirra hlunninda, sem um ræðir í frv., af því að þeir eru sannfærðir um það fyrirfram, að lítið af síldinni verði selt til útlanda á vegum slíks félagsskapar.

Það er ennfremur gert ráð fyrir því, að þegar slíkur félagsskapur sé frá genginn, þá megi löggilda nokkra stóra útflytjendur til þess að hafa á hendi útflutning á allmiklu af síldinni. Það koma þá ekki til greina aðrir en þeir, sem hafa hver um sig a. m. k. 25 þús. tunnur af síld til umráða, og auk þess eiga þeir að uppfylla ákvæði l. um verzlunaratvinnu, og ef um fél. er að ræða, þá verða þau að vera skrásett l. samkv. sem hlutafél., samvinnufél. eða sölusamlag síldarframleiðenda. Ég skal náttúrlega ekki segja um það, hvað langt verði hægt að komast til hagsbóta fyrir síldarsöluna eftir þessum leiðum, því að þegar slík leyfi, sem þarf til þess að mynda slíkan félagsskap, eru algerlega í höndum n., þá virðist mér, að þar sé heldur ekki hægt að vænta mikils árangurs um síldarsöluna, og þá sérstaklega, þegar maður lítur á ákvæði 11. gr. frv. En þar er svo ákveðið, að ef ríkisstj. og síldarútvegsn. í sameiningu telja, með tilliti til markaðslanda og innanlandsástands, að betur muni notast útflutningsmöguleikarnir með því að taka upp einkasölu á síld, þá megi fela slíkum félagsskap, sem ræður yfir 80% af síldarsölunni, einkasölu á allri síld, ef síldarútvegsn. lízt svo á að gera það. En ef annaðhvort er ekki um að ræða slíkan félagsskap sem þennan, eða þá, að síldarútvegsn. vill ekki veita honum leyfi til þess að hafa einkasölu á síld með höndum, þá kemur nú fyrst rúsínan í þessu frv., því að þá er það, að ríkisstj. getur ákveðið það með samþ. síldarútvegsn., að síldarútvegsn. taki sjálf að sér alla einkasölu á síld. Það er sagt hér, að ráðh. geti ákveðið þetta, ef síldarútvegsn. samþ. það. Ráðh. getur sem sé ekki þröngvað þessu upp á síldarútvegsn., en með góðu samþ. hennar getur þetta orðið, og þá getur hún orðið einkasöluhafi allrar þeirrar síldar, sem flutt er út úr landinu.

Þá er nú held ég rakið aðalefni þessa frv. Og við að athuga ákvæði frv. held ég, að það sé nokkurn veginn víst, að svo framarlega sem í n. veljast sæmilegir einkasölupostular, þá sé augljóst, hver niðurstaðan verður í málinu, nefnilega sú, að síldarútvegsn. fái einkasölu á síldinni, því að hún getur vitanlega komið í veg fyrir það með sínum aðgerðum, ef með þarf, að bæði þessi félagsskapur, sem hefir 80% af síldinni til umráða, hafi þessi mál með höndum, og að það fyrirkomulag, að fela nokkrum stórum útflytjendum framkvæmd þessara mála, að því leyti, sem þeir vilja sjá um sölu síldarinnar, verði haft, Þar sem n. hefir þetta allt á sínu valdi, þá er vitanlega hægt að sigla hraðbyri fyrir fullum seglum beint inn í það, sem vitanlega er höfuðtilgangurinn með frv., eftir því sem efni þess bendir til, sem sé, að þessari í manna n. verði falin einkasala á síldinni.

Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, þó að ástæða þyki til að athuga, með hverjum hætti þessi n. verður kosin, þar sem má ganga út frá því sem gefnum hlut, að ef inn á þessa braut verður farið, sem hér um ræðir í þessu frv., þá verði það endirinn, að síldarútvegsn. taki í sínar hendur einkasölu á síldinni.

Til viðbótar því, sem ég hefi sagt um þetta, að draga mætti út úr ákvæðum þessa frv., þá vil ég benda á það — sem verður mjög ofarlega í mínum huga, þegar ég greiði atkv. um þetta mál — hve afskipti hins opinbera af sölu síldarinnar hafa yfirleitt reynzt ógiftusamlega, því að þau spor, sem áður hafa verið stigin, munu áreiðanlega hræða þá sjómenn, sem guldu það afhroð í sínum atvinnuvegi, vegna þess fyrirkomulags, sem illu heilli var komið á, sem vitanlega átti að bæta úr því erfiðleikaástandi, sem síldarútvegurinn var kominn i, þegar þau l. voru samþ., en sem reyndust þannig, að þau urðu til þess að koma útveginum í meira öngþveiti en nokkurn tíma hefir þekkzt fyrr né síðar í þessum atvinnuvegi.