20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

1. mál, fjárlög 1935

Jón Sigurðsson [óyfirl.]:

Ég á hér tvær brtt. á þskj. 905, sem mér þykir hlýða að segja um nokkur orð. Fyrri liðurinn, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Skagf., hljóðar um, að hækka tillagið til hafnargerðar á Sauðárkrókí úr 25 þús. í 50 þús. — Ég ætla ekki að þessu sinni að hefja umr. um nauðsyn hafnargerðar á Sauðárkróki, því að hún er viðurkennd, fyrst og fremst með samþ. hafnarlaganna og svo af þessu þingi með því framlagi, 25 þús., sem til þessa eru ætlaðar. Nú er það svo, að á síðastl. sumri sendi alþekkt norskt verkfræðingafirma verkfræðing til þess að rannsaka hafnarskilyrði á staðnum. Firma þetta hefir nú sent teikningar og kostnaðaráætlun þessu viðvíkjandi, og jafnframt má á þeim skilja, að þeir séu fúsir til að taka þetta mannvirki að sér. En þá er eftir hið örðugasta, sem er að afla fjár í þessu skyni. Nú er ekki með öllu vonlaust, að firma þetta geti útvegað nokkurt fé, þótt það sé nú aðeins von, en engin vissa. En þá er það ljóst, að ef af framkvæmdum verður, sem maður vonar, samkvæmt þeim till., sem fyrir liggja, þarf að taka fyrir og byggja allmikið í einn. Bæði hinn norski verkfræðingur og starfsmenn vegamálastjóra, sem um þetta hafa fjallað, eru á einu máli um það, að ekki komi til mála að byggja fyrir lítið í einu og þá á mörgum árum. Það myndi kosta stórfé árlega að viðhalda og vernda fyrir briminu þann hluta, sem byggður yrði smátt og smátt, svo mikið fé, að alveg væri meiningarlaust að haga verkinu þannig, ef annars væri kostur, því það væri sama og kasta svo og svo miklu fé í sjóinn. Það er því mikils um vert fyrir kauptúnið, að hægt verði að taka mikið fyrir í einu. En kauptúnið er ekki þess megnugt að útvega bæði þann hluta fjárins, sem það á að leggja fram, og svo í ofanálag þurfa að útvega það, sem ríkissjóður á að leggja fram. Ef myndarlega á að taka á þessu mannvirki, nægja þessar 25 þús. kr., sem nú eru til þessa ætlaðar, ekki nokkurn skapaðan hlut. Þær eru alls ónógar. Ég geri ráð fyrir, að allir sjái, hvílíkur munur það er fyrir ríkissjóðinn að leggja fram sitt lögákveðna framlag á móti sýslu- og sveitarfélagi, og ef ekki fæst ríflegra ríkissjóðsframlag, getur það vel munað því, að Sauðárkrókskauptún treysti sér ekki að leggja út í mannvirkið. Nú vil ég láta þess getið, að þessi upphæð, 50 þús. kr., er lágmarksupphæð sú, sem hreppsnefnd Sauðárkróks óskaði eindregið eftir að lagt yrði til fyrirtækisins frá ríkissjóðs hálfu. Það eru því mjög mikil vonbrigði bæði fyrir hreppsnefnd Sauðárkróks og sýslunefndina, ef ekki fást betri undirtektir. Vegna þess að allt virðist á þessu þingi gert að flokksmáli, er rétt að geta þess, að að þessu máli standa allir flokkar í kauptúninu, og telja allir lífsskilyrði fyrir kauptúnið að hrinda þessu mikla velferðarmáli í framkvæmd. En auk þess samþ. sýslunefndin í einu hljóði í marzmán. s. l. vetur að heimila oddvitanum að gera ráðstafanir til þess að afla fjár til fyrirtækisins. Svo að það er einnig meðal héraðsbúa fullkominn áhugi fyrir þessu máli og almennt samkomulag um það, að að þessu beri að vinna.

Ég sé þá ekki ástæðu til þess að ræða frekar um þennan lið. En úr því að ég hefi staðið upp, þá vil ég minnast á hina brtt., sem er um það, að liðurinn Nýir vitar í 20. gr. Út. III orðist þannig: Til vitabygginga við Skagafjörð. Eins og kunnugt er, hefir meiri hl. fjvn. gert þær ráðstafanir á þessu fé, að fyrir það verði komið upp miðunarstöðvum bæði í Vestmannaeyjum og á Reykjanesi, og hefir fjvn. gengið þar þvert á móti till. þeirra manna, sem samkv. l. eiga að gera till. um þetta. Ég ætla ekki að fara að fjölyrða um þetta, því að hv. 1. þm. Skagf. hefir lýst þessu svo ýtarlega og greinilega, að ég hirði ekki um að endurtaka það. En ég vil aðeins benda á það, að það er lítið samræmi í því, að ríkissjóður og héraðið leggi fram allmikið fé til hafnarbyggingar við Sauðárkrók, en svo sé jafnframt fellt niður af fjárl. að byggja nauðsynlegan vita við Skagafjörð, svo að skip geti komizt að höfninni þar, og er þó viðurkennt, að Skagafjörður er nú eini fjörðurinn, sem er í algerðu myrkri, eins og n. orðaði það. Það er þess vegna fullkomin rangsleitni gagnvart Skagfirðingum og þeim sjófarendum, sem þarna fara um, — og það getur sérstaklega verið hættulegt að haustinu að fara þessa leið — að fella niður þennan lið, en taka upp annað í staðinn. Á þeim stöðum, þar sem á að byggja þessar miðunarstöðvar, eru fyrir góðir og mjög fullkomnir vitar, eftir því sem gerist hér á landi. Það væri þess vegna ólíkt meiri sanngirni í því, að reyna að bæta úr brýnni þörf í öðrum landsfjórðungum, heldur en að fara að eins og þarna er gert.

Ég ætla svo ekki að gera fleiri till. að umtalsefni hér. En ég verð þó að segja það, að það væri dálítil freisting að minnast á ýmsar till., sem hafa komið fram, en þar sem hér er orðið æðifámennt, þá hirði ég ekki um að tefja tímann með því að gera það. Ég vil þó ekki láta hjá líða að minnast örlítið á þann kafla úr ræðu hv. 5. þm. Reykv., þar sem hann vék að því, hvað landbúnaðurinn legði lítið af mörkum til ríkissjóðs, en fengi þaðan árlega stórfé á móti. Það er að vísu rétt, að tekjuskattur og fleiri gjöld í ríkissjóð eru smávaxnari úr sveitunum en kaupstöðum. En það eru fleiri hliðar á þessu máli en að líta aðeins sem snöggvast á landsreikninginn og athuga það svo ekkert frekar. Um síðustu aldamót var þetta t. d. þannig, að sveitirnar stóðu að langmestu leyti undir þeim gjöldum, sem þá hvíldu á ríkissjóði, eða landssjóði, eins og það þá var kallað. En síðan varð sú breyting á þessu, að við sjávarsíðuna risu upp nýir atvinnuvegir, og þessir nýju atvinnuvegir og þeir nýju möguleikar, sem þeim fylgdu, hafa sogað fólkið til sín úr sveitunum. Þetta hefir síðan farið æ vaxandi, eins og eðlilegt er. Og það er engan veginn, að það sé aðeins fólkið, sem sogazt hefir úr sveitunum til kaupstaðanna, því að jafnframt með fólkinu flyzt stórkostlega mikið fjármagn, og það heldur ennþá áfram að flytjast úr sveitunum í kaupstaðina. Það er engum vafa bundið, að ekki alllítið af því fjármagni, sem kaupstaðirnir hafa nú handa á milli og notað er til arðvænlegra fyrirtækja, það er beinlínis aflafé úr sveitunum, sem kaupstaðirnir hafa dregið til sín. Um þetta tjáir ekki að tala. Þetta er lögmál, sem við verðum við að búa, og ekki verður á móti spyrnt nema að litlu leyti. Það er þess vegna ekkert undarlegt, þó að kaupstaðirnir á þennan hátt komi til með að borga ríflega bæði tekjuskatt og ýms önnur gjöld, þegar þetta er þannig til komið, eins og ég nú hefi bent á. Ég býst við, ef t. d. þannig yrði ástatt í Reykjavík, að frá næstu áramótum færi svo, að ýmsir af beztu og duglegustu atvinnurekendunum seldu atvinnutæki sín og flyttu með efni sín burtu, t. d. til Kaupmannahafnar eða eitthvað annað, og því héldi áfram ár eftir ár, að Reykjavík færi þá einnig að setja niður. En þetta er ekki annað en það, sem sveitirnar hafa átt við að búa síðustu 20 árin, og ekki sízt nú á allra síðustu árum. Vegna þess að þessu var hreyft, vildi ég ekki láta hjá líða að benda á þetta atriði. Það mætti benda á fleiri hliðar á þessu máli, en ég hirði þó ekki um það að fara lengra út í þessa sálma, því að, eins og ég hefi áður tekið fram, þá er það varla ómaksins vert að tala yfir tómum stólunum.