05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (3713)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Ólafur Thors:

Hv. þm. Ísaf. gaf nokkrar upplýsingar út af þeim fyrirspurnum, sem ég beindi til hans. Gat hann þess m. a., að á fundi, sem haldinn var meðal útgerðarmanna, hefði helmingur aðilja tjáð sig samþykkan því, að haldið væri áfram frjálsum samtökum um skipulag þessara mála, en helmingur þeirra lýst sig því andvígan. Ef eigi væri neinu sérstöku við þetta að bæta, ætti afleiðingin að vera sú, að þessi mál væru látin vera frjáls. Þegar helmingur aðilja, sem á allt sitt undir því, að þessum atvinnurekstri farnist vel, óskar ekki eftir neinum afskiptum þess opinbera, virðist rétt, að atvinnuvegurinn sé frjáls. En ég játa, að þær upplýsingar, sem hv. þm. bætti við, skipta máli. En þar sem ég er þessum málum ekki eins kunnugur nú og ég var um eitt skeið, vildi ég í sambandi við þetta beina fyrirspurn til hv. þm. Ég vildi spyrja, hvort grunur leikur á, að þessi helmingur aðilja þjóni öðrum eða hafi annara hagsmuna að gæta en sinna eigin. Mig rekur minni til, að áður var allstór hópur þeirra manna, sem fengust við síldarsöltun með hagsmuni annara en sjómanna og útgerðarmanna fyrir augum. Ef nú er um að ræða samskonar hagsmuni, ber að hafa álit slíkra aðilja að engu. Ég skal ekki draga dul á, við hvað ég á. Þessir menn voru umboðsmenn erlendra hagsmuna og voru kallaðir leppar. Ef þessir menn standa nú á varðbergi fyrir erlenda hagsmuni, þá eru þeir auðvitað alveg andvígir frjálsum samtökum. Þó að ég sé yfirleitt andvígur þvingunarráðstöfunum hins opinbera í sambandi við atvinnurekstur landsmanna, verð ég að sjálfsögðu að viðurkenna þær staðreyndir, sem skapa sérstöðu, og um slíka sérstöðu gæti verið að ræða hér. En ég vil leyfa mér að leiða athygli hv. dm. að því, að þó að niður falli 11. gr. frv., um einkasöluheimild sem einskonar þrautavaralendingu, þá er svo um hnútana búið í 2., 3. og 5. gr. frv., að heita má, að framleiðendur séu sviptir sjálfsforræði um þessi mál. Það er eðlilegt, að við, sem viljum láta framleiðendur vera sem mest einráða um atvinnurekstur sinn, litum með andúð til slíkra fyrirmæla, þar til fyrir hendi kynni að vera sú sérstaka nauðsyn, sem við yrðum að beygja okkur fyrir. Ég veit, að flm. þessa frv. munu skilja, að við sjávarútvegsmenn hér á Alþ. séum tregir til að ljá fylgi eða lina andstöðu gegn fyrirtæki, sem lent gæti í sama feni og annað fyrirtæki á sama sviði atvinnumálanna, sem við erum nýbúnir að draga upp úr.

Hv. flm. sagði, að af stjórnendum matjessíldarsamlagsins hefðu 3 tjáð sig samþykka fyrirmælum frv., en 2, þeir Ásgeir Pétursson og Steindór Hjaltalín, létu málið afskiptalaust. Ég hefi ekki ástæðu til að vefengja, að þetta sé rétt, og ég játa, að ef það er rétt, þá skiptir það nokkru máli, og það er ekki nema eðlilegt, að okkar mótstaða linist, ef eigi er sömu mótstöðu til að dreifa hjá þeim, sem við þessi l. eiga að búa. Ég finn ekki ástæðu til að gagnrýna einstök fyrirmæli þessa frv. En ég vil endurtaka þá ósk mína, að fá upplýst áður en umr. lýkur, hvernig stendur á andstöðu þeirra aðilja, sem eru á móti frjálsum samtökum á þessu sviði.