05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2684 í B-deild Alþingistíðinda. (3714)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. hefir sýnt lit á að verða við þeim tilmælum mínum að gefa upplýsingar um matjessíldarsamlagið. Mér virðist eins og honum, að árangurinn sé hreint ekki slæmur, og þeim mun undarlegra er það, að menn skuli ekki geta orðið ásáttir um að halda þeim félagsskap áfram. En vitanlega eru það aðiljar sjálfir, sem hér eiga mest í hættu. En nú er það svo, að helmingur aðilja virðist vilja halda áfram, en hinn helmingurinn ekki.

Hv. þm. Ísaf. var að mótmæla hjá mér atriði, sem ég hefi aldrei haldið fram. Ég hélt því ekki fram, að hann hefði sagt, að matjessíldarsamlagið væri komið í upplausn, heldur sagði ég, að hæstv. atvmrh. hefði sagt það. Ég fór því þar með rétt mál. Ég játa, að mig hefir misminnt um bráðabirgðal., ég sé núna, að þau hafa farið til n. þann 8. okt. En það var ekki að ástæðulausu, að mér var fallið úr minni, að þau hefðu komið til n., því að þar hefir aldrei verið um þau rætt.

Hv. þm. sagði, að þeir, sem stæðu á móti skipulagningu, væru aðallega spekúlantar. Það má vera, að þetta sé rétt, og ég vil taka undir það með hv. þm. G.-K., að ef þessir svonefndu spákaupmenn eru á verði fyrir hagsmuni annara en ísl. útgerðarmanna og sjómanna, þá verður að gjalda varhuga við þeim. Hv. þm. G.-K. óskaði upplýsinga um þetta atriði, og vil ég taka undir það. Einkasöluákvæðið var rökstutt með því, að það þyrfti að reka menn saman og gera þá bljúga, sem annars fengjust ekki til að sinna neinum samtökum. Og það getur haft sitt gildi út af fyrir sig. En það er eitt stórt atriði enn í þessum efnum. Því reynslan hefir falað sínu máli með hinum dapurlegu örlögum síldareinkasölunnar sál. Sá baggi kom ekki á bak síldarspekúlantanna, heldur kom hann á bak smáútgerðarmanna og sjómanna. Það voru þeir, sem báru skarðan hlut frá borði, eins og allir hv. þdm. vita og óþarfi er að lýsa. Þess vegna verður að gjalda varhuga við að reka sig ekki á sama skerið aftur með því, að stofna einkasölu á ný, er mundi leiða til sömu ógæfunnar og síldareinkasalan gamla. Væri þar með stofnað til þess, að síðari villan yrði verri hinni fyrri. Það er alveg óskiljanlegt, að nokkur nauðsyn sé til að stefna málinu inn á þá braut. Ég get ekki skilið, að a. m. k. á þessu stigi sé nokkur þörf á því, og mun ég bera fram við 3. umr. brtt. um að fella úr frv. þau ákvæði, sem fela í sér einokun. Ég er því ekki mótfallinn, að gerðar séu ráðstafanir um skynsamlega íhlutun. En ég vil koma í veg fyrir, að hún verði svo róttæk, að síðari villan verði verri hinni fyrri.

Það getur vel verið, að ástæða sé til orðalagsbreyt. — eða raunar efnisbreyt. — eftir því, sem hv. 6. landsk. var að henda á. Ég verð að segja, að mér þykir skrítið, ef einstakir landshlutar og Alþýðusamband Ísl. eiga að kjósa aðalnefndina, en svo á hún að skipa fulltrúa fyrir Austfirðinga. Virðist eðlilegt, að þeir skipi sinn fulltrúa eins og hinir.

Mér finnst svo ekki ástæða til að ganga lengra inn á einstök atriði málsins við þessa umr. Að lokum skal ég minnast á, að það virðist óþarfi að blanda frystri síld inn í þetta frv. Í 1. málsgr. 3. gr. segir: „Enginn má bjóða til sölu, selja eða flytja til útlanda saltaða síld eða verkaða á annan hátt“ o. s. frv. En síðar í gr. stendur: „Þó getur nefndin veitt undanþágu fyrir ísaðri síld og smásendingum af millisíld“. Nú er ísuð síld alls ekkert verkuð. Því býst ég við, að hv. þm. Ísaf. geti verið samþ., og að óþarfi sé að hafa þessa undanþágu í frv.

Mun nú vera nálægt þeim tíma, sem venjulegt er að fresta fundi, og skal ég því láta máli mínu lokið. [Fundarhlé].