20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í B-deild Alþingistíðinda. (373)

1. mál, fjárlög 1935

Gunnar Thoroddsen:

Við þessa umr. fjárl. hefi ég leyft mér að flytja 3 brtt. 2 hinar fyrri eru á þskj. 815, undir XXVII, og fara fram á námsstyrki til 2 stúdenta, sem stunda nám við erlenda háskóla, en þriðja brtt. er á þskj. 875, undir II, sem ég flyt ásamt hv. 1. þm. Reykv., og fer hún fram á skáldastyrk til Tómasar Guðmundssonar skálds.

Fyrsta brtt. er um 1200 kr. námsstyrk til Halldórs Jónssonar, til náms í byggingarverkfræði í Stokkhólmi. Þessi ungi maður tók stúdentspróf fyrir fáum árum og hefir stundað nám um tveggja ára skeið í Stokkhólmi. Ég skal ekki fara mörgum orðum um hæfileika þessa manns, en skal þó geta þess, að ég hefi í höndum vottorð frá prófessorum háskóla þess, sem hann stundar nám við, sem bera honum hið bezta orð.

Hin brtt. mín á sama þskj. er um styrk til Ögmundar Jónssonar stúdents, til lokanáms í verkfræði við háskóla í Berlín. Ég skal geta þess, að þessi till. er flutt ásamt mér af hv. þm. V.-Ísf., en nafn hans hefir fallið burt í prentun. Þessi maður varð stúdent árið 1929. með hárri 1. einkunn. Síðan hefir hann stundað nám í Þýzkalandi, í byggingarverkfræði með vatnavirkjun og hafnargerðir sem sérgrein. Um þennan mann skal ég aðeins geta þess, að hann var, meðan hann var í menntaskóla, talinn afburða námsmaður. Og eftir þeim frásögnum, sem ég hefi fengið af honum síðan, hafa þær vonir, sem um hann voru gerðar, að fullu rætzt.

Ég tel ekki rétt að fara mörgum orðum um þessa menn persónulega, bæði vegna þess, að ég tel það tæplega viðeigandi hér við þessar umr., og í öðru lagi vegna þess, að það virðist svo, sem umr. um fjárl. hér á þessu þingi hafi helzt til lítil áhrif, og að það séu aðeins örfáir þm., sem hlýða á þær. Ég skal aðeins geta þess, að ég tel, að Alþ. eigi að sjá sóma sinn í því að styrkja — og styrkja ríflega — þá námsmenn, sem stunda nám við erlenda háskóla. Það er engum vafa undirorpið, að íslenzka þjóðin í heild sinni hefir mikið gagn og mikinn gróða af því, að Íslendingar, sem nám stunda, fari sem víðast um lönd. Og sú hefir orðið reyndin á hinum síðustu árum, að þeir hafa sótt háskóla í flestum menningarlöndum Evrópu, og jafnvel leitað til Vesturheims. Það er enginn vafi á því, að þessir ungu menn, sem dvelja nokkur ár við erlenda háskóla, munu flytja nýja menningarstrauma og nýja þekkingu og reynslu til okkar lands, og þjóð okkar verður áreiðanlega mikið gagn af því.

Það má einnig geta þess, að áður nutu íslenzkir stúdentar að mörgu leyti meiri hlunninda við erlenda háskóla en þeir njóta nú. Áður fyrr nutu íslenzkir stúdentar Garðstyrks við háskólann í Höfn, og þó að hann væri ef til vill ekki að öllu leyti nægilegur þeim til langframa, þá var hann þó það hár, miðað við kostnaðar mælikvarða þeirra tíma, að litlu þurfti við að bæta. En eftir að við fengum fullveldi og Garðstyrkurinn var afnuminn skipti um. Að vísu var tekinn upp nokkur styrkur í staðinn, en hann nær til miklu færri stúdenta og auk þess nemur hann tiltölulega lægri hluta af námskostnaði stúdenta en Garðstyrkurinn nam. Það er því þegar af þessari ástæðu full þörf á að reyna að bæta kjör þeirra landsmanna, sem stunda nám við erlenda háskóla. Það er öllum kunnugt, að flestir íslenzkir stúdentar, sem ráðast í að stunda nám við erlenda háskóla, koma aftur með stóra skuldabagga á bakinu.

Að því er snertir þessa tvo stúdenta, sem ég fer fram á að veittur verði námsstyrkur, vil ég geta þess sérstaklega, að það er á sviði hinna verklegu framkvæmda með þjóðinni, sem þeir mundu fyrst og fremst verða að gagni, og ég held, að það muni ekki aðeins verða styrkur til þessara manna, heldur muni það verða þjóðinni beinlínis að gagni í framtíðinni, að Alþ. leggi sinn skerf til þess að ala upp eða styrkja menn, sem síðan geta fært okkur hina fullkomnustu og nauðsynlegu þekkingu á sviði hinna verklegu framkvæmda. Um þessa tvo menn skal ég svo ekki hafa fleiri orð.

3. till. flyt ég ásamt hv. 1. þm. Reykv. Hún er um 1200 kr. styrk til Tómasar Guðmundssonar skálds. Um þennan mann þarf ég ekki að hafa mörg orð, því að hann er þegar orðinn þjóðinni kunnur. Hann hefir gefið út tvær ljóðabækur, fyrir allmörgum árum bókina „Við sundin blá“, og í fyrra kom út eftir hann önnur ljóðabók, sem heitir „Fagra veröld“. Það er um þessa síðari bók hans að segja, að ég ætla, að engin ljóðabók, sem út hefir komið eftir íslenzkt skáld á síðari árum, hafi vakið eins mikla athygli og náð jafnmikilli útbreiðslu eins og þessi bók. Mér dettur ekki í hug að fara að rekja hér þá dóma, sem um hana hafa fallið í blöðum okkar. En það er rétt að geta þess einungis, að á því ári, sem nú er liðið síðan hún kom út fyrst, hafa komið út af henni þrjár útgáfur, og er það til marks um, hversu miklar vinsældir hún hefir hlotið. Mér finnst nú sjálfsagt, að Alþ., eins og mörg fordæmi eru til fyrir í þeim fjárl., sem liggja fyrir þinginu nú, sýni þessu upprennandi skáldi okkar þá viðurkenningu, að veita honum nokkurn styrk í fjárl.

Ég tel svo ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessar þrjár litlu brtt., en vona, að þær mæti velvilja hjá hv. þm.

Ég hefði nú að vísu haft löngun til þess að minnast á aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, og ennfremur að minnast nokkrum orðum á afgreiðslu fjárl. í heild sinni og þann svip, sem á þeim er. Og ég ætla, þó að ég hafi nú ef til vill ekki mjög mikla þekkingu á því, vegna þess að þetta er mitt fyrsta þing, að svipur fjárl. hafi aldrei neitt svipað því sem hann er nú verið mótaður af flokkapólitík og hlutdrægni. En vegna þess, að ég vil ekki verða til þess, að fara að halda þessum umr. lengur fram eftir nóttinni en nauðsynlegt er, og vegna þess, að á þetta hefir verið minnzt af öðrum hv. þm., mun ég ekki fara út í það.

Að lokum vil ég einungis skora á hv. þm., að því er snertir þessar litlu brtt. mínar, sem öll sanngirni mælir með, að láta ekki blint flokksfylgi binda sig við atkvgr. um þær, en fylgja því, sem þeir álíta þar sannast og réttast.