18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (3746)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég hefi nú í raun og veru litlu við það að bæta, sem ég sagði áðan.

Hv. frsm. gat þess, að hann hefði talið, að fyrir mér hefði aðallega vakað með þessum brtt. sparnaður sá, sem gæti ef til vill leitt af því, að ríkisbókhaldið og fjmrn. hefði með höndum endurskoðun þessara sjóða. Ég skal taka það fram í þessu sambandi, að þó að ég að vísu álíti, að einhvern sparnað gæti af þessu leitt, þá er það ekki aðalatriðið fyrir mér. Aðalatriðið álít ég vera það, að endurskoðun og eftirlit með þessum sjóðum sé á þá lund, að tryggt sé, að þeim sé varið eftir sínum tilgangi og að þeir séu ávaxtaðir tryggilega. Og ég álít, að trygging fyrir þessu fáist miklu betri með því að samþ. þær brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram, heldur en með því að samþ. frv. óbreytt, sérstaklega þar sem það gerir í raun og veru ekki ráð fyrir neinni endurskoðun, heldur bara einhverju eftirliti. En með brtt. er farið fram á fasta endurskoðun ásamt eftirliti, fyrir utan þá tryggingu, sem óneitanlega er fólgin í því, að sjóðsreikningarnir skuli birtir opinberlega fyrir almenningi, því það ætla ég, að sé einhver bezta tryggingin fyrir því, að svo sé um hnútana búið, að ekki sé neitt athugavert við sjóðshaldið. Þar að auki álít ég, að með skynsamlegri reglugerð, sem fjmrh. setti um ávöxtun sjóðanna, væri þar um mjög merkileg fyrirmæli að ræða, því ég tel hafa skort nokkuð á, að sumir opinberir sjóðir hafi verið ávaxtaðir jafntryggilega sem skyldi; en ef fjmrh. setti um það reglugerð, þá væri girt fyrir það, að sá misbrestur yrði á meðferð opinberra sjóða eftirleiðis.

Ég get ekki séð, hvað það er, sem er athugavert við mínar brtt. út frá tilgangi frv., get ekki betur séð en að þær gangi allar í þá átt að gera eftirlitið og öryggið tryggara, og þess vegna sé tilganginum betur náð með því að samþ. mínar brtt.