18.12.1934
Neðri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2481 í B-deild Alþingistíðinda. (3748)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Stefán Jóh. Stefánsson:

Ég get sjálfsagt ekki sannfært hv. þm. G.-K. um það, að brtt. mínar miði til meira öryggis, en samt ætla ég, að það liggi í augum uppi, þar sem farið er fram á það, að ríkisendurskoðunin skuli hafa á hendi nákvæma endurskoðun allra þessara sjóða, sem hér um ræðir, að láta uppi álit sitt um stjórn þeirra og vörzlu, og þar sem það er einmitt falið þeim mönnum, sem ætla má, að séu manna færastir til þess, þá sé ég ekki betur en að þessi fyrirmæli miði til fullkomnara öryggis heldur en felst í frv. sjálfu.

Um opinbera birtingu sjóðsreikninganna er það að segja, að það er náttúrlega rétt, sem hv. þm. G.-K. segir, að sumir reikningarnir bera ekki nákvæmlega með sér, hvernig sjóðnum sé varið, en menn geta þó fengið mjög mikla hugmynd um það, ef reikningarnir eru nákvæmlega haldnir og þeir birtir opinberlega.