20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

1. mál, fjárlög 1935

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég á hér nokkrar brtt., og er ein þeirra allfyrirferðarmikil, svo betur mun þykja fara á því, að ég láti nokkur orð fylgja þeim. Ég ætla að byrja á þeim smærri, til þess að venja hv. þm. við röddina og röksemdafærsluna, áður en kemur að stóra stykkinu. — Á þskj. 888 er ein brtt. frá mér. Hún er um 1200 kr. námsstyrk til Valgarðs Thoroddsens, til lokanáms í rafmagnsfræði. Þetta nám er dýrt, og það hefir verið siður, að Alþ. styrkti efnalitla stúdenta, sem komnir eru að því að ljúka námi, og hjálpa þeim þannig yfir síðasta spölinn, sem oft og tíðum er sá erfiðasti. Vænti ég því, að hv. þm. sjái ekki eftir 1200 kr. til þessa efnilega námsmanns.

Þá á ég brtt. á þskj. 875. Af vangá hefir prentazt, að hún sé við 14. gr. XXII., en á að vera við 14. gr. B.XXII. Þar er farið fram á, að styrkurinn til Íþróttasambands Íslands hækki um 6 þús. kr., og verði þeim varið til undirbúnings þátttöku ísl. íþróttamanna í olympísku leikunum 1936. Allir hv. alþm. hafa hinn mesta áhuga fyrir íþróttum, ég vona fastlega, að íþróttaáhugi þeirra sé ekki aðeins bundinn við í hönd farandi kosningar í það og það skiptið. Ég vildi helzt mega trúa því, að þeir stjórnmálamenn og flokkar, sem sérstaklega taka þessi mál upp á arma sína í blöðum og á fundum, einkum um kosningar, geri það af heilum hug. Mér er það undrunarefni, að slíkur styrkur sem þessi skuli ekki hafa verið tekinn upp í fjárl. eða brtt. meiri hl. fjvn., því að mér er kunnugt um, að erindi um þetta lá fyrir hv. fjvn. Öllum er kunnugt, hve þátttaka í slíkum mótum sem þessum er mikil hvatning fyrir íþróttamenn um að komast langt í sinni grein. Ef íþróttir eiga að blómgast í landinu, verður að gefa íþróttamönnum okkar tækifæri til þess að reyna sig við erlenda íþróttamenn öðru hverju. Það er líka aðgætandi, að Íslendingar eiga íþrótt, sem þeir geta sýnt hvar sem er, og það er íslenzka glíman. En vitanlega ber að keppa að því, að íslenzkir íþróttamenn geti einnig keppt með árangri við erlenda íþróttamenn í öðrum greinum. Til þess að ná því marki, eru svona mót ágæt hvatning, íþróttamennirnir byrja mörgum árum áður að búa sig undir þau. Það mót, sem hér um ræðir, er ekki fyrr en á árinu 1936, en ekki mun íslenzkum íþróttamönnum veita af því að fara að byrja á undirbúningnum. Til þessa undirbúnings þarf talsvert fé, ef góður árangur á að nást, það þarf að kosta góða æfingakennara og vera stöðugt að. — Og það er ekki svo sem Í. S. Í. sæki um styrk til þess að senda menn á hverja ólympíuleika. Þeir síðustu voru haldnir í Los Angeles, og þá var ekki viðlit að sækja kostnaðarins vegna. Nú verða þeir aftur á móti í nálægu landi, Þýzkalandi, og þangað er ferðakostnaður ekki mikill. Yfirleitt yrði kostnaðurinn við að sækja þessa leika miklu minni en hann er venjulega. Þátttaka í leikum þessum varðar ekki bara íþróttamenn, heldur líka alla þjóðarheildina. Þetta er bezta auglýsing, sem land og þjóð getur fengið. Annars finn ég vanmátt minn til að mæla með þessari till. eins og hún ætti skilið, hér eru margir í d., sem miklu betur væru til þess fallnir en ég, en þar sem enginn þeirra hefir orðið við þessari beiðni Í. S. Í., þá hefi ég ekki viljað skorast undan því að gera það.

Á þskj. 916 er brtt. frá mér um 3500 kr. styrk til Eggerts Stefánssonar söngvara, til að kynna íslenzka sönglist erlendis. Umsókn á þessa leið hefir legið fyrir hæstv. stj. og hv. fjvn., en ekki verið sinnt. Það mun óhætt að segja, að enginn einn maður, að einum þó undanskildum, hafi gert eins mikið að því að kynna íslenzka sönglist erlendis og Eggert Stefánsson. Tilraunum hans í þá átt hefir víða verið vel tekið. Þessi starfsemi er í fyllsta máta góðra gjalda verð, að kynna erlendis íslenzku þjóðina og menningu hennar. Ég held líka, að þessi till. muni eiga allmikið fylgi í þinginu, aðeins hefir mér heyrzt á sumum hv. þm., að þeim þætti upphæðin of mikil. Ég tók þá upphæð í brtt., sem umsóknin fór fram á, en ég er að hugsa um að koma með varatill. um lægri upphæð, ef meiri líkindi væru til, að hún næði samþykki.

Í brtt. minni á þskj. 815, nr. 39, legg ég til, að styrkurinn til Leikfélags Reykjavíkur hækki úr 4000 kr. upp í 6000 kr. Leikfélagið er látið greiða skemmtanaskatt af sýningum, en svo er meiningin að verja honum til þess að koma upp fullkomnu leikhúsi. Vitanlegt er, að starfsemi Leikfél. Rvíkur verður að vera grundvöllurinn undir starfið í þjóðleikhúsinu. Mér virðist vera mótsögn í þessu, að íþyngja leikstarfseminni nú með skemmtanaskatti í því augnamiði að styrkja leikstarfsemina í framtíðinni. Ef þessu er haldið áfram, má vel vera, að svo fari, að leikstarfsemi leggist hér niður um tíma, og svo verði að byrja að nýju, þegar þjóðleikhúsið er komið upp. Til þess að fyrirbyggja það væri réttast að létta skemmtanaskattinum alveg af Leikfélaginu, um það hafa verið bornar fram till., en ekki fengizt samþ. En fyrst það næst ekki, vildi ég, að Leikfél. væri bættur sá missir að nokkru. Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að skemmtanaskattur sá, sem Leikfél. hefir greitt á undanförnu ári, er rúmlega helmingi meiri upphæð en sú, sem ég fer fram á í hækkun á styrk til félagsins. Eins og styrkurinn er nú áætlaður, er hann tæplega endurgreiðsla á skemmtanaskattinum, og má því heita, að félagið starfi styrklaust. Ég vona því, að hv. þm. sjái sanngirnina í þessari litlu hækkun.

Þá kem ég að brtt. minni við 16. gr. Stjórnarflokkarnir hafa gert sér mikinn mat úr þessari till. minni í blöðum sínum, en þar er farið fram á, að atvinnubótaféð hækki um hálfa milljón, og alls verði veitt í því skyni 1 millj. kr. Þessa brtt. flyt ég fyrst og fremst af því, að það er álit mitt, að atvinnubæturnar eigi algerlega að vera kostaðar af ríkissjóði. Atvinnubæturnar eru alþjóðarnauðsyn, en ekki sérmál einstakra bæjarfélaga. Eins og öllum er kunnugt, er það algengt, að atvinnuleysingjarnir þyrpist í bæina. Þeir koma t. d. til Rvíkur alstaðar að af landinu, og krefjast þess, að bærinn sjái þeim fyrir atvinnubótum. En það getur ekki talizt skylda bæjarfélaganna að taka þetta fólk upp á arma sína, heldur fyrst og fremst ríkissjóðsins. Þetta ætti nú að vera auðsótt mál, þar sem að völdum situr stjórn, er nefnir sig „stjórn hinna vinnandi stétta“. Hún hefir ákveðið þetta framlag lítið eitt hærra en það var í fjárl. ársins 1934, 500 þús. í stað 300 þús. Og þessari fjárveitingu fylgir það skilorð, að á móti komi tvöföld upphæð frá bæjar- og sveitarfélögunum. Ég lít svo á, að eins og þessu er hagað í frv., séu miklar líkur til, að þessi fjárveiting verði með öllu gagnslaus fyrir sveitar- og bæjarfélög. Ég þori nærri því að staðhæfa, að þeim muni verða ókleift að afla fjár til að leggja fram að sínum hluta, og ég segi þetta ekki út í bláinn, því að ég hefi reynslu fyrir því, hvernig þetta hefir gengið fyrir Rvíkurbæ, og ef þar eru örðugleikar á að fullnægja þessu skilyrði, þykir mér sýnt, að þeir örðugleikar verði margfaldir fyrir bæi og sveitir utan Rvíkur. Því fer ég fram á, að þessu sé breytt þannig, að ríkissjóður leggi fram eina millj. til atvinnubóta, og sé það framlag skilyrðislaust. Ef til vill verður því hreyft, að hér sé farið fram á að minnka framlagið í heild um 1/3, þar sem á móti framlagi ríkisins áttu að koma 2/3 frá bæjar- og sveitarfélögum, eða alls 1½ millj. En ég geri ráð fyrir, að þó að þessu skilyrði sé sleppt, muni sveitar- og bæjarfélög eftir sem áður leggja fram af sinni hálfu a. m. k. þann 1/3 sem gert er ráð fyrir að afla með niðurjöfnun útsvara. En til vara hefi ég lagt til, að aths. sé breytt þannig, að í staðinn fyrir tvöfalt framlag úr bæjar- og sveitarsjóðum komi helmings framlag, svo að till. tryggir í öllu falli, að framlagið verði eins mikið og gert er ráð fyrir í frv. En hún tryggir jafnframt, að framlag ríkissjóðsins geti komið að notum, því að samkv. frv. er það alveg ótryggt. Það mun sannast, að það reynist ókleift fyrir bæjar- og sveitarfélög að leggja fram tvöfalda fjárhæð á móti ríkissjóði, og er því viðbúið, að framkvæmd á atvinnubótavinnu falli að meira eða minna leyti niður, ef við þetta er haldið, en stj. á ekki annars kost en að halda við ákvæði fjárl. um þetta og hefir ekki heimild til að veita neitt fé í þessu skyni nema þau skilyrði séu uppfyllt. Nú verður kannske spurt, með hvaða hætti eigi að sjá ríkinu fyrir tekjum, sem þessu svari. Ef þetta hefði verið fyrr á ferð og fjárl. ekki tafin með óeðlilegum hætti, hefði mátt taka tillit til þessa við afgreiðslu tekjulagafrumvarpa. T. d. hygg ég, að fátækum almenningi hefði komið betur að hafa áfram toll á kaffi og sykri og fá í þess stað tryggingu fyrir úthlutun þessa atvinnubótastyrks. Einnig staðhæfi ég, að þessi atvinnubótastyrkur hefði komið almenningi að meira haldi en þær fjárhæðir, sem veittar eru til verkamannabústaða og til byggingar- og landnámssjóðs. Ennfremur þori ég að staðhæfa, að auknar tekjur af áfengissölu muni nægja til að standa straum af þessum kostnaði. Ég staðhæfi því, að hér er aðeins um það að ræða, hvort hv. þm. vilja eða vilja ekki veita þessa upphæð. Ef þeir vilja samþ. þessa breyt. og gera það, þá er ég viss um, að þessi fjárveiting kemur að gagni á þann hátt, sem látið er heita, að hún sé veitt til, en ef menn vilja binda þetta við 500 þús. og heimta tvöfalt framlag á móti, þá vilja menn í raun og veru ekki vita það, sem látið er sýnast í frv., að veita eigi í þessu augnamiði. Þeim skilyrðum, sem sett eru fyrir þessari fjárveitingu, verður áreiðanlega ekki fullnægt.

Ég á brtt. á þessu sama þskj., merkta LIV, um að hækka framlag til stórstúkunnar úr 15 þús. kr. upp í 20 þús. kr. Fyrir fjvn. hefir legið erindi frá stórstúkunni, þar sem farið er fram á nokkra hækkun á fjárveitingu til hennar. Í því erindi er gerð grein fyrir, hvernig forráðamenn hennar hugsa sér að verja þessu framlagi. Öllum mun vera það ljóst, að hafi nokkurntíma verið þörf á starfi templara hér, þá verður sú þörf margföld eftir að áfengislögin koma í gildi. Ef þingmenn vilja ekki ganga alveg blindandi út í þá framtíð, sem fyrir höndum er í þessu efni, hygg ég ráðlegra að skera ekki mjög við neglur styrk til bindindisstarfsemi í landinu.

Forráðamenn stórst. gera ráð fyrir að verja þessu framlagi á þann veg, að kosta tvo bindindisboðara til að ferðast um landið og hvetja menn til bindindissemi. Eins og kunnugt er, hafa templarar haft aðeins einn mann við þetta starf undanfarið. Hann hefir haft starfið í hjáverkum og fengið lítil laun fyrir, og er óhjákvæmilegt að kosta meiru fé til þessa, ef það á að halda áfram. Ég vil minna á, af því að það hefir oft heyrzt, að bindindisstarfsemin lifði á framlagi ríkissjóðs, að templarar hafa í bréfi til þingsins gert grein fyrir því, að þeir hafa sjálfir lagt fram til þessara hluta, en það eru samtals 256 þús. kr. Á sama tíma hafa þeir fengið úr ríkissjóði 120 þús., eða tæplega 1/3 á við það, sem þeir hafa sjálfir lagt fram til þessa starfs. En þar með er ekki allt talið. Þeir hafa lagt fram geysimikið fé til starfrækslu stúknanna, og mun það nema 600 þús. kr. allan tímann, svo að þó að ríkissjóður hafi lagt fram ríflegar fjárhæðir á síðari árum, þá er það hverfandi á móts við það, sem templarar hafa sjálfir lagt fram til þessarar starfsemi sinnar. Ég mun ekki þurfa að gera frekari grein fyrir því, að þessi starfsemi sé fyllilega verð stuðnings, en það er kunnugt, að hún hefir talsvert lamazt á síðari árum, meðlimum hefir fækkað og bindindisáhuga farið hnignandi, en því fremur virðist nú ástæða til að rétta hjálparhönd. Þessi hnignun stafar af ýmsu, þ. á m. aldarandanum. En nú, þegar þjóðin á að lifa undir nýju fyrirkomulagi áfengislaga, má þessari starfsemi ekki fara hnignandi, heldur verður að vekja nýjan og vaxandi áhuga, svo að hægt sé að starfa með meira krafti en undanfarið. Ein af þeim ástæðum, sem valdið hafa þessari hnignun, einkum hér í Reykjavík, stendur í sambandi við húsnæðismál templara, og á Alþingi sjálft sök á því að allmiklu leyti. Það hefir atvikazt svo ólánlega, að templarar hafa ekki þau umráð yfir húsi sínu, að þeir geti gert það viðunandi, en sú kvöð, sem á eigninni hvílir, stendur í sambandi við Alþingi og er öllum hv. þm. kunn. Templarar eiga hér mjög örðuga aðstöðu, þar sem öll önnur samkomuhús bæjarins eru miklu fullkomnari. Hér er nú fram komin till. í sambandi við fjárl. um að bæta úr þessu með því að greiða templurum fé í skaðabætur fyrir þá kvöð, sem lögð hefir verið á eignina. En það fé er ekki ætlað til starfseminnar næstu ár. Þeir verða því að búa við sömu húsakynni fyrst um sinn og þurfa því meiri styrk til starfseminnar en ella. — Ég get nú látið útrætt um þetta. Ég geri ráð fyrir, að aðalflm. till. um greiðslu úr ríkissjóði til reglunnar vegna þessa húsnæðismáls geri grein fyrir henni, ef hann er ekki þegar búinn að því.

Á sama þskj., LIX. lið, á ég till., um smáupphæð í eftirlaun til Vilborgar Sigurðardóttur ljósmóður. Hún hefir gegnt ljósmóðurstörfum í Dyrhólahreppi í Vestur-Skaftafellssýslu um 25 ára skeið, en er nú flutt hingað og er þurfandi fyrir þessi eftirlaun. Það hefir verið talið rétt undanfarið að veita ljósmæðrum slík eftirlaun, og vænti ég, að líkt verði litið á þörf þessarar konu og annara starfssystra hennar.

Ég hafði ætlað að minnast á ýms fleiri atriði í sambandi við fjárlfrv., en ég skal ekki þreyta hv. þm. með lengri ræðu að sinni.