19.12.1934
Neðri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2482 í B-deild Alþingistíðinda. (3755)

69. mál, eftirlit með sjóðum

Frsm. (Ólafur Thors):

Það er búið að ræða þetta mál það mikið hér í þinginu, að það má telja að fullu upplýst. Ég sé ekki, að þessi dagskrá hv. 2. þm. Reykv. hafi við rök að styðjast. Ég hygg, að hún muni vera í raun og veru fram borin vegna þess, að hin svokallaða „Rauðka“ vill gjarnan seinna hafa eitthvert gagn af þeirri hugsun, sem bak við frv. liggur, með því að skila henni síðan sem sínu eigin fóstri. Mér er ekki skiljanlegt, hvað annað getur legið til grundvallar fyrir því, að þessir hv. þm. vilja fresta þessu máli. Ég vil benda hv. flm. dagskr. á það, ef hann telur sig hafa viturlegri till. fram að bera í þessu mál heldur en þær, sem í frv. felast, að hann hefir næga aðstöðu til þess að koma þeim á framfæri síðar, þó frv. þetta verði samþ. hér.

Brtt. hv. 2. þm. Reykv. um að eftirlitsmennirnir skuli vera 3, en ekki 2, eins og lagt er til í frv., tel ég meinlausa, en líka þýðingarlausa, og hefi ég ekki meira um hana að segja, en ég mun greiða atkv. á móti henni, af því ég tel, að af samþykkt hennar gæti leitt það, að frv. kynni að daga uppi, því þá þyrfti frv. að koma aftur fyrir hv. Ed., og þar sem svo áliðið er þingtímans sem nú er orðið, þá tel ég ekki öruggt, ef farið yrði að þvæla frv. milli d., að málið fái afgreiðslu. Hinsvegar fæ ég ekki séð, að slík endurskoðun sem þessi sé svo pólitískt atriði, að hver flokkur þurfi að hafa mann við það starf, en sú hugsun mun standa á bak við till. Ég óska því, að þetta frv. verði afgr. sem lög nú frá þessari umr.