20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í B-deild Alþingistíðinda. (377)

1. mál, fjárlög 1935

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. lýsti yfir því, að samkv. 1. frá 1933 um styrk til mjólkurbúanna væri ekki hægt að borga út þann styrk, sem l. gera ráð fyrir, nema um leið sé gert upp við Mjólkurbú Flóamanna. Er þetta í fullu samræmi við það, sem ég hélt fram, og hefir það allt komið fram frá því upphaflega að l. voru flutt og til þessa þings. Hæstv. ráðh. hélt því aftur á móti fram, að í undirskrift á áskorun þeirri til ríkisstj., sem kom fram um þingtímann í fyrra, fælist fortakslaus heimild til ríkisstj. til útborgunar á þessu fé. Og þar sem hæstv. ráðh. hefir lýst því yfir, að hann ætli að nota þá heimild og greiða umræddan styrk, er það vitanlega aðalatriði, og get ég því verið ánægður, þegar ég hefi fengið þessa yfirlýsingu. En það, sem fyrir mér vakti, var að gefa ríkisstj. heimild til þess að greiða þetta úr ríkissjóði, og ég verð að segja, að mér kemur það dálítið einkennilega fyrir, ef ríkisstj. kærir sig ekki um að fá þessa heimild. Vil ég í því sambandi benda hæstv. ráðh. á, að þessi undirskrift getur ekki talizt heimild til greiðslunnar. Fyrir öllum slíkum greiðslum er alltaf leitað aukafjárveitingar eftir á. Má aðeins skoða undirskriftina sem yfirlýsingu um, að þeir gefi stj. samþ. fyrir greiðslunni á aukafjárlögum á sínum tíma, og er það þá afgr. á þinglegan hátt. En það er ekki alltaf víst, að þeir, sem svona yfirlýsingar gefa, eigi kost á að staðfesta þær á næsta þingi, ef kosningar fara fram í millitíð. Þannig er einmitt ástatt hér. Í fyrra stóð fyrir dyrum bæði fjölgun þm. og nýjar kosningar, svo það var alveg óvíst, þó meiri hl. þeirra þm., sem sæti áttu á þingi þá, skrifaði undir áskorunina, að hún hefði meirihl.fylgi á þessu þingi. Sú undirskrift gat því alls ekki talizt heimild fyrir ríkisstj. til þess að borga út styrkinn. Ég verð að lýsa yfir, að ég er ánægður að hafa fengið þá yfirlýsingu frá hæstv. ráðh., að hann ætli að greiða styrkinn, en ég á bágt með að trúa því, að hann taki ekki fegins hendi móti þessari heimild.

Þá vil ég geta þess, að áður en ég bar þessa till. fram, átti ég tal við þm. úr kjördæminu, sem hér eiga hlut að máli. Sagði þá þm. Mýr., sem einna helzt beitti sér fyrir að fá þessa yfirlýsingu, að hún væri ekki fullkomin heimild fyrir stj. Ég hafði sagt frá því fyrr í vikunni, að ég væri að hugsa um að bera fram brtt. í þessa átt, og gekk svo langt, að mér væri ekki áhugamál að vera sjálfur á till., ef menn héldu, að betur gengi með hana í þinginu, ef ég væri ekki á henni. Ég vissi, hvernig blæs í seglin gagnvart málflutningi okkar Bændaflokksmanna, þegar jafnvel er gengið svo langt, að stj.flokkarnir eru á móti málum, sem við flytjum, þó þeir séu sannfærðir um, að þau séu rétt. Hann gaf mér þessa yfirlýsingu, að stj. væri ekki búin að gefa ákveðið svar, en hann vonaðist til að geta fengið slíkan styrk fyrir sitt félag og mjólkurbúið á Akureyri, en það væri meiri vafi, hvernig færi með Mjólkurfélag Reykjavíkur og Mjólkurbú Ölfusinga, en bjóst við, að styrkurinn til Ölfusbúsins yrði greiddur á þann hátt, að tengd yrðu saman Flóa- og Ölfusbúin. Þetta taldi ég ekki viðunanlega lausn á málinu, því að ég áleit, að Ölfusbúið ætti eins mikinn rétt á þessari útborgun og hin búin. En nú er ég búinn að fá það fram, að þennan styrk eigi að borga út, og tel það staðfest og tel brigðmælgi, ef það verður ekki framkvæmt gagnvart öllum búunum eins og l. frá 1933 ætluðust til, að því undanskildu, að hann yrði borgaður strax og áður en farnir væru fram samningar við Mjólkurbú Flóamanna. Þessi heimild var ekki í fjárlfrv. 1933, og þess vegna var ekki hægt að borga styrkinn út þá, en með þessari till. á nú að veita stj. heimild til þess, og ég fæ ekki annað séð en að stj. eigi að taka því fegins hendi, ef þingið veitir henni slíka heimild, nema hún vilji heldur gera allt í heimildarleysi, en það hélt ég, að ekki væri, þegar hún getur fengið heimild á eðlilegan og þinglegan hátt.