20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (3771)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég var ekki meðnm. mínum sammála um að taka mál þetta til flutnings. Ég býst við, að flestum hv. þdm. sé svo kunn mín afstaða til slíkra mála sem þessa máls, að ekki sé neinn undrandi yfir því.

Mér virtist hreyfa sér nokkurskonar hrollur, jafnvel hjá hv. 4. landsk., út af því, að ríkið fengi svo ákaflega yfirgripsmikla heimild um einkasölu eins og í frv. er gert ráð fyrir, og þá geta menn skilið, að ég muni ekki vera hrifinn af frv.

Það eru til tvö stig viðvíkjandi slíkum einkasölum. Annað stigið er það, að ríkissjóður taki verzlun með einstakar álagningarmiklar og ónauðsynlegar vörur í sínar hendur til tekjuauka, því að sumir álíta, að ríkissjóður hafi drýgri tekjur af að verzla með þær heldur en að taka toll af þeim. Með þessari aðferð geta verið menn, sem ekki eru þó með einkasölu yfirleitt, af þeirri ástæðu, að þeir álíta þetta hentuga aðferð til skattaálagningar. Hitt stigið er þessi sannfæring um, að ríkið eigi að taka þennan atvinnurekstur í sína þjónustu, þ. e. a. s., að það eigi að þjóðnýta verzlunina eins og hvað þetta síðarnefnda stig að ræða, því að hér er að langsamlegum meiri hluta um nauðsynjavörur að ræða, svo sem mótorvélar, sem allar eru nauðsynlegar, og bifreiðar, sem að langmestu leyti eru nauðsynlegar líka. Ýmiskonar rafmagnsvélar, rafmagnsáhöld og efni til raflagna eru líka nauðsynjavörur. Í frv. er því alls ekki um að ræða vörur, sem láta má skeika að sköpuðu um, hvernig gengur með verzlun á.

Því er haldið á lofti, að það liggi til grundvallar þessu frv., að með því fyrirkomulagi, sem það gerir ráð fyrir, eigi að láta verzlunina fara betur úr hendi en hún fer nú. Miklu meira af ræðu hv. þm. gekk út á að reyna að sýna fram á þetta heldur en að halda því fram, að frv. væri flutt til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð.

Ég er hv. þm. ósammála, af því að ef frv. á að vera til tekjuöflunar, þá vil ég bara segja það, að ég álít, að ríkissjóður muni ekkert græða á þessari verzlun, heldur sé það aðeins hugsunarvilla að halda það. Ég hefi oft deilt við fjmrh. um þetta, og þeir hafa ekki getað sannað mér annað en að þetta sé hugsunarvilla, af þeirri ástæðu, að ríkissjóður getur aldrei aflað neinna tekna af þessum vörum, nema með því að leggja á þær, á hvern hátt sem hann svo gerir það.

Það má lengi deila um það, hvort þessi eða hin tekjuöflunarleiðin sé ódýrust. Ríkissjóður mundi ekki græða á verzlun með þessar vörur í einkasölu annað en það, sem hann getur eins vel grætt á annan hátt, því að þegnar þjóðfélagsins verða hvort sem er að borga þennan gróða. Ríkissjóður getur því alveg eins tekið þennan gróða með skattaálagningu.

Hv. frsm. hefði ekki átt að vera svo kvíðinn eins og mér virtist hann vera, ef það er víst, að verzlunin með þessa hluti færi betur úr hendi hjá stj. heldur en kaupmönnum. En þó að ríkið tæki að sér alla utanríkisverzlunina, þá held ég, að hún mundi ekki fara vitund betur úr hendi.

Það, sem alltaf er nefnt í þessu sambandi, já, það er þessi glundroði. Glundroði. Það er sagt, að til landsins hafi komið margar teg. af þessum vörum, t. d. hafi af bifreiðum verið fluttar inn alls um 70—80 teg. En hvernig eiga nú landsmenn að fara að vita, hvaða teg. reynast hér bezt, nema með því að flytja inn margar teg.? Það er einkenni frjálsrar verzlunar, að mörg sýnishorn eru fengin og reynd, til þess að hægt sé að halda því bezta. Aftur á móti er það svo, að þegar einkasölur hafa komizt í einstök sambönd, þá verða menn að hafa sömu vöruteg., hvernig svo sem þær eru og jafnvel gömul model. Það skal allt fara í landslýðinn, sem búið er að kaupa inn. Með einkasölu er oft miklu fábreyttara vöruval um að ræða heldur en með frjálsri verzlun, og minna á boðstólum. Nýjar vörur koma auðvitað á sínum tíma, en ekki fyrr en hinar eru allar búnar.

Svo er ég nú ekki viss um, að með einkasölu takist að koma glundroðanum af. Ég hefi heyrt sagt, að forstjórar viðtækjaverzlunarinnar pöntuðu hvaða tegundir, sem óskað er eftir, þó að þeir hafi að vísu birgðir af vissum teg.

Þá sé ég ekki annað en að hér komi það sama út. Menn fá þetta nú að því er snertir viðtækjaverzlunina, og ég geri ráð fyrir, að eins mundi það vera í einkasölu á þeim vörum, sem hér er um að ræða. Það aleina, sem mér skilst, að mundi vera frábrugðið í einkasölu á þessum vörum, er það, að einkasölufyrirkomulagið mundi spilla fyrir því, að menn gætu fengið varahluti í aðrar teg. en þær, sem einkasalan hefði á boðstólum, því að hún mundi ekki vera skuldbundin til að hafa fyrirliggjandi varahluti í aðrar vöruteg. en þær, sem hún flytti sjálf inn að meginhluta. Menn mundu þá þurfa að bíða lengi eftir varahlutum í þær vöruteg., sem fátt er til af í landinu, ellegar fá þá alls ekki.

Útkoman skilst mér því verða þessi, að ef einkasala á þessum hlutum kæmist á, þá fengi maður bara ríkisverzlunarglundroða í staðinn fyrir einkarekstrarglundroða. Hvort af þessu tvennu er bragðbetra, það skal ég ekki segja.

Hv. frsm. sagði það, sem oft er á minnzt, að í frjálsri verzlun sé óþarflega mikið fé bundið í vörubirgðum. Þetta getur vel verið. Hv. þm. upplýsti sjálfur, að af því væri allmikið lánsfé. En um leið og verzlanir binda mikið fé í vörubirgðum, þá er þar bara fest nokkuð af samanspöruðu fé landsmanna. Það er hluti af þjóðarauðnum, sem alls ekki er tapaður fyrir því. Ég sé ekki ástæðu til að ætla, að það sé svo mjög mikill skaði í því fólginn, þó að svo sé. Nú, þegar búið er að hafa innflutningshöft í nokkur ár, þá eru vörubirgðirnar hjá kaupmönnum ekki orðnar fjarskalega miklar í landinu. Þær eru nú farnar að mestu, kannske er eitthvað niðri við hafnarbakkann af óleyfilegum vörubirgðum. Menn fá t. d. yfirleitt ekki leyfi fyrir innflutningi á bifreiðum fyrr en á síðustu stundu.

Reynslan hefir verið sú allt frá gömlu einkasölunni til hinnar nýju, að verðlagið hefir ekki verið hentugt. Það er auðvitað ýmislegt, sem veldur því. Það er talið, að einkasalan muni geta gert góð innkaup. Ég efast um, að hún geti gert betri innkaup en einstaklingar. Það eru svo sterkar verzlanir, sem flytja inn þessar vörur, að þær hafa alltaf nóg af þeim teg., sem þær hafa umboð fyrir. Það eru því litlar líkur til þess, að innkaupskjörin verði betri. Það má líka benda á eitt enn, að forstjórar einkasölu munu ekki leggja sig eins í líma eins og kaupmenn, sem eiga fyrirtækin sjálfir. Með þessu vil ég ekki gefa í skyn, að þeir reki ekki verzlanirnar forsvaranlega, en þeir reka þær ekki af ýtrustu kröftum eins og kaupmenn gera. Og þó að eiginhagsmunahvötin sé kannske ekki beinlínis göfug hvöt, þá er það þó ein sterkasta hvötin hjá manninum. Og hún er ekki heldur neitt ógöfug, á meðan hún skaðar ekki aðra. — Það er líka einn ókostur við einkasöluna að ef þessi síhungraða hít, ríkissjóðurinn, á að hafa ágóðann af verzluninni, þá freistast menn til að setja verðið óeðlilega hátt, því ríkissjóðurinn þarfnast alltaf meiri tekna. Ég hefi aldrei upplifað það, að ríkissjóður sé ekki í peningaþörf. Og þá er tekið það ráð, að hækka verðið, setja nýja tolla á o. s. frv., til þess að fá peninga. Ég er viss um, að þegar búið er að stofna einkasölu, þá er gripið til þessa, til þess að afla peninga.

Enn er ótalinn sá ókostur, að þetta truflar viðskiptalífið í landinu. Fjöldi manna verður atvinnulaus. Þá vil ég spyrja, hvort þessar auknu einkasölur séu ekki óheppilegar fyrir gjaldeyrisverzlunina. Mér er sagt, að einkasölur séu óþægari í þessum efnum en einkafyrirtæki. Einkasölurnar þykjast eiga meira undir sér, og kaupa því inn, hvað sem liður gjaldeyrisleyfum. Þetta er ekkert óeðlilegt, því þetta eru ríkisstofnanir.

Í 4. gr. frv. er ætlazt til þess, að ríkið setji á stofn viðgerðarverkstæði fyrir bifreiðar og mótora. Bílaviðgerðir eru núna heilmikil atvinnugrein, og tugir manna, sem vinna við slíkt. Ef ríkið á að reka þessa atvinnu, þá verður að binda þar í mikið fé.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta mál. Ég vildi aðeins lýsa skoðun minni á því.