20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (3772)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að tefja umræður mikið í þetta skipti. Það var aðeins eitt atriði, sem ég ætlaði að tala um og hefir nú lauslega verið drepið á það af hv. 1. þm. Reykv. Ég vil spyrja hv. flm. frv., hvað þeir hugsa sér með því ákvæði í frv., að stj. skuli leggja rekstrarfé til viðgerðarverkstæðis fyrir bifreiðar og mótora. Ég vil spyrja þá, hvað þeir gera ráð fyrir, að verkstæðin eigi að vera stór, og hvort þau eigi að vera víða um land. Ef hér á að framkvæma einkarekstur einnig á verkstæðum þessum, þá þurfa þau að vera víða um land. Ég vildi aðeins fá umsögn um það, hvort verkstæði ættu bara að vera í Rvík. Það hefir ekki lítið að segja fyrir fjárhagsáætlunina, hvort þau eiga að vera víðar, eða hversu fullkomin þau eiga að vera. Ég ætla svo að láta þetta nægja og ekki tefja umr. meira.