20.10.1934
Efri deild: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2491 í B-deild Alþingistíðinda. (3773)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [yfirl.]:

Það eru nokkur atriði, sem fram hafa komið við þessar umræður, sem ég vildi minnast á. Frv. er flutt að tilhlutun minni, svo það er eðlilegt, að ég drepi á nokkur atriði, sem borin hafa verið fram gegn frv. Mér finnst ekki ástæða fyrir okkur hv. 1. þm. Reykv. að deila hér um það hvort það er hugsunarvilla eða ekki, að ríkið geti grætt á einkasölu. Það mál er svo ljóst, að ekki þarf að deila um það. Það, sem gerist, ef ríkið tekur verzlunina í sínar hendur, er það, að ríkið tekur til sín ágóða, sem áður rann til þeirra, sem verzluðu með vöruna. En ef varan er tolluð, þá er tollinum bætt við heildarálagninguna, en ágóðinn rennur eftir sem áður til hinna, sem með vöruna verzla, en með einkasölu rennur ágóðinn í ríkissjóð í stað einstakra manna. Þetta ætti að vera fullskýrt hverjum manni.

Að hér sé um æðra stig einkasölu að ræða, er rétt hjá hv. 1. þm. Reykv. Það er hægt að reka einkasölu með tvennt fyrir augum, bæði að fá ágóðann og skipuleggja vöruna. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að þetta er ekki eingöngu gert í tekjuöflunarskyni, heldur líka með það fyrir augum, að skipuleggja verzlunina. Að þessu leyti er þetta hliðstætt viðtækjaverzluninni. Ég vil upplýsa í þessu sambandi, að samkv. þskj. frá 1932 um svipað efni, þá eru 74 teg. bifreiða í notkun hér á landi, og 47 teg. af mótorvélum. Það er auðvitað mikið tjón að þessu, því að þá er þörf stórra birgða af varahlutum, og nú er óþægilegt að afla þeirra nema til algengustu tegunda.

Hv. 1. þm. Reykv. benti á, að upplýst væri, að viðtækjaverzlunin útvegaði tæki, sem beðið væri um. Ég veit ekki, hvort þetta er rétt. En þó að þetta sé svona, þá er þó mikill munur á því, að leyfa hvaða verzlun sem er, að bjóða almenningi eina teg. fram yfir hinar og reyna að fá hann til þess að kaupa hana, eða einkasölu, sem hugsar um að hafa eingöngu hin beztu tæki til og halda þeim að kaupendunum, þó hún neiti ekki að panta önnur tæki, ef menn vilja þau heldur. Það er mikill munur á því, hvort því er eingöngu haldið að kaupendunum, sem bezt reynist, eða þeim er boðin hvaða teg. sem er, og jafnvel líka þær, sem reynast illa.

Þá talaði hv. þm. um það, að einkasalan myndi hækka verðið. Ég get nú t. d. bent á það, að verð viðtækjaverzlunarinnar er hagstæðara en hjá samskonar fyrirtækjum annarsstaðar, t. d. í Danmörku. Það er því ekki hægt að ásaka hana um okur. Ef um nauðsynjavarning er að ræða, þá hamla kröfur almennings því, að reynt sé að hafa ágóðann óhæfilega háan. Það er á valdi Alþ. að hindra það, ef of langt er gengið í þeim efnum.

Viðvíkjandi fyrirspurn um það, hvað átt væri við með 4. gr„ þar sem talað er um viðgerðarverkstæði, skal ég geta þess, að það er talið líklegt, að bezt muni henta, ef einkasala er sett á stofn, að tök séu á að gera við bifreiðar hjá einkasölunni. En þetta hefir ekki verið hugsað í stórum stíl, og er jafnframt gert ráð fyrir öðrum verkstæðum. En þetta má auðvitað taka til athugunar síðar.

Þá vil ég minnast lítillega á það, hvort það er óheppilegt vegna gjaldeyrisráðstafana, að setja á stofn einkasölu. Ég get ekki séð, að sú áhætta sé fyrir hendi hvað snertir þetta frv. Og það er vegna þess, að það er ekki svo mikil álagning á þessar vöruteg., að ríkissjóður freistist til óeðlilegra gjaldeyrisviðskipta.

Ég skal svo ekki fjölyrða meir um þetta, en tek að lokum undir þá ósk frsm., að málinu verði vísað áfram, án þess að það fari til nefndar.

Á 18. fundi í Ed., 22. okt., var fram haldið 1. umr. um frv.