22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (3774)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Það er nú liðin heil helgi síðan við hv. 1. þm. Reykv. áttum tal saman um þetta mál hér í d. Þá varpaði hann fram þeirri spurningu, hvort ekki væri réttast að taka alla utanríkisverzlunina undir ríkisrekstur, fyrst stigið væri svo stórt spor sem gert væri með þessu frv. Ég skal svara honum því, að ekki stendur á mér til að samþ. það, og ég vil vona hið sama um hv. 1. þm. Reykv., úr því hann hefir nú komið með uppástungu um þetta, hvort sem það er í spaugi eða alvöru. En það er annað, sem til þarf. Það þarf mikinn undirbúning áður en slíkt kemst í framkvæmd, bæði útvegun hæfra manna til þess að veita forstöðu svo stórvörnu fyrirtæki, húsnæði og annað slíkt, sem þarf að undirbúa áður.

Ég hefi haldið því fram sem röksemd fyrir einkasölu almennt, að gjaldeyrir myndi sparast, hægt að liggja með minni vörubirgðir, og hafa til sölu þær vörur einar, sem reynslan hefir sýnt, að koma að beztu gagni, og má í því sambandi sérstaklega nefna bifreiðar og bátamótora, þar sem afarmikill glundroði ríkir nú í verzlun með þær vöruteg. En hv. 1. þm. Reykv. er á öðru máli. Honum finnst glundroðinn ágætur. Hann segir, að frjálsa verzlunin dragi að sér sýnishorn úr öllum löndum. Mér finnst það nú vera í fullstórum stíl og megi spara sér ýmislegt í því sambandi. Ég get fallizt á, að ríkisverzlunin yrði fábreyttari, einungis af því að þá kæmi ekki til greina allt það rusl, sem hrúgast á markaðinn í hinni frjálsu verzlun. Ég lít á það sem kost. Annars er reynslan til vitnis um það, að ríkisverzlanir hafa ekki á boðstólum verri vörur en í frjálsri verzlun. Hv. 1. þm. Reykv. hefir orðið að játa, hvað snertir verzlunina með viðtæki, að þar væru ávallt til hæfilegar birgðir og miðaðar við þarfir. En að vísu væri pantað þar eftir óskum manna. Slíkt verður vitanlega að fara eftir því, um hvaða vöruteg. er að ræða. Það er minna tjón, að liggja með miklar birgðir margra teg. af viðtækjum en bifreiðum og bátamótorum, sem útheimta mikla og dýra varahluti. Það er t. d. ekki hægt að bera saman bollapör og bifreiðar. Menn geta drukkið úr hverskonar bollum sem er með sama árangri, en um notkun bifreiðanna gegnir allt öðru máli. Ég hefi hlýtt á kvartanir þeirra manna, sem neyðzt hafa til þess að kaupa bifreið, e. t. v. einustu bifreiðina þeirrar teg., sem hér hefir verið til, og svo þegar eitthvað bílar, verða þeir að velja um tvo kosti: Bíða svo og svo lengi, unz hægt hefir verið að afla varahlutanna eftir óratíma, eða taka varahluti, gerða fyrir aðrar teg., laga þá til og nota síðan, til stórtjóns og skemmda fyrir bifreiðina. Hina sömu sögu má segja um bátamótora. Það getur því enginn sagt, að einu gildi, þótt allar þessar teg. séu í hrærigraut á markaðinum. Það má að vísu segja, að það geri minna til, þótt margskonar teg. útvarpstækja sé um að velja, en ég tel bráðnauðsynlegt að standardisera bátamótoranotkunina.

Hv. 1. þm. Reykv. hélt, að ríkisverzlunin myndi ekki komast að hagfelldari kjörum vegna þess, að hún myndi ekki selja meira af bifreiðum en nú væri gert, t. d. fyrir General Motors, Ford o. s. frv. Auðvitað eru duglegir menn fyrir þessi fél. hér, en ég efa ekki, að ríkið eigi líka kost á mjög hæfum mönnum til þessara starfa. Það hefir sýnt sig, að þeirra er völ. Og hvað innkaupin snertir, mætti vafalaust komast að hagfelldari kjörum með því að kaupa í stærri stíl frá fáum verksmiðjum, sem þá myndu eðlilega sjá, að betur borgaði sig að selja meira og slá heldur af verðinu, þar sem salan væri alveg viss, að svo miklu leyti sem landsmenn notuðu bifreiðar. Og ég geri fastlega ráð fyrir því, að af þeim samgöngutækjum, sem nú eru þekkt, séu bifreiðar okkur fyrst og fremst hentugar, og að í okkar fólksfáa landi verði ekki horfið að notkun járnbrauta.

Hv. 1. þm. Reykv. er þeirrar skoðunar, að eiginhagsmunahvöt kaupmannanna sé þess valdandi, að í þeirra höndum hljóti verzlunin að fara betur en hjá ríkinu. Ég fæ ekki betur séð en að eiginhagsmunahvötin komi fyllilega til greina hjá forstjórum ríkisstofnana. Þessir forstjórar eru ekki óafsetjanlegir embættismenn. Þeir hafa verið ráðnir með því skilyrði, að þeim mætti segja upp með stuttum fyrirvara, ef þeir ekki standa vel í sinni stöðu. Þeim má því vera kappsmál, að neytendur vörunnar séu ánægðir með stj. fyrirtækisins, svo að ekki þurfi þar um að kvarta. Sú hætta er náttúrlega til, sem hv. þm. minntist á, að ríkissjóðurinn, sem er svo hungraður í peninga nú á tímum, vilji hækka verulega álagninguna á þeim vörum, er hann hefir einkasölu á. En ef við tökum t. d. tóbaksvörur, sem einkasala er á hér á landi, þá bygg ég, að ekki sé eins hátt verð á þeim hér hjá okkur eins og víða í nágrannalöndunum er á innfluttum tóbaksvörum. Ég veit t. d., að erlendar sígarettur í Danmörku eru miklu dýrari en hér. (JAJ: Er ekki tollurinn líka hærri?). Það er ekki mikill munur á því, þegar allt kemur til alls, hvort tekjurnar eru teknar sem tollur eða verzlunarálagning. En í Danmörku er lagt svona mikið á þessa vöru, að verðið er miklu hærra en hjá okkur. (MG: Heldur hv. þm. virkilega, að tóbaksvörur séu dýrari í Danmörku en hér?). Nú ætlar hv. 1. þm. Skagf. að fara að pexa. Hann hlýtur að hafa heyrt, hafi hann ekki troðið bómull í eyrun, að ég sagði, að erlent tóbak væri miklu dýrara í Danmörku. (MG: Það kemur bara ekkert þessu máli við). Ég gefst alveg upp við að svara hv. 1. þm. Skagf., þegar hann byrjar að pexa um smámunina. Það er ekki alltaf hægt að elta hann inn á allar þær krókagötur, sem hann fer, þegar hann byrjar að snúa út úr málunum. En hv. þm. getur sannfært sig um þetta atriði, bara ef hann vill.

Þetta frv. snertir gjaldeyrisspursmálið að því leyti, að það gerir kleift, ef að l. verður, að liggja með minni birgðir en nú er gert. Því vil ég hinsvegar ekki neita, að ríkissjóður kunni að hafa ástæðu til að neita um gjaldeyri til annara vörukaupa en þeirra fyrst og fremst, sem hann hefir einkasölu á og tekjur af, eins og t. d. er um tóbak og vín. En ef um alvarlegar fjárhagsþrengingar er að ræða, eins og nú virðist vera, kemur auðvitað að því, að fé verður að takmarka til kaupa á þessum vörum, og þá eru hæg heimatökin hjá ríkissjóði að takmarka innflutninginn, ef þeir alvarlegu hlutir, sem óneitanlega liggja nú fyrir, koma til framkvæmda, t. d. takmörkun á sölu fiskjarins. Meðan við erum að finna aðrar leiðir fyrir framleiðsluvörur okkar, er ekki nema um það að velja, annaðhvort að takmarka innflutning til landsins eða láta ísl. krónuna falla í verði og fylgja eftirspurninni. Þetta eru hlutir, sem athuga þarf af stj. eða hæstv. fjmrh. og öðrum þeim, sem með þessi mál fara, og þurfa þeir að gera upp við sjálfa sig, hvort ekki sé æskilegra að takmarka innflutninginn. Ríkisstj. og þingmeirihlutinn hefir raunar ráðizt í það fyrr, þ. á m. hv. 1. þm. Skagf., að takmarka innflutning til landsins, þótt ríkið hafi ekki haft þær vörur í einkasölu. (MG: Þetta er ný upplýsing). Á því er enginn eðlismunur, að takmarka vörur, sem ríkið verzlar með og fær álagningarágóða af, eða takmarka vörur, sem verzlað er með í frjálsri verzlun og ríkið fær tolltekjur af.

Þá er ein fyrirspurn, sem komið hefir fram viðvíkjandi sérstöku ákvæði í 4. gr. frv., en hæstv. fjmrh. hefir raunar svarað henni. Þetta er einungis öryggisákvæði um viðgerðarverkstæðin, ef þau verkstæði, sem nú eru starfandi, t. d. í sambandi við umboðsmenn bifreiðaverksmiðjanna erlendu hér, hættu eða vildu ekki taka til viðgerðar þær bifreiðar, sem keyptar væru hjá ríkiseinkasölunni, þá geti ríkið sjálft sett upp slík viðgerðarverkstæði, en það mun ekki vera ætlunin að gera að svo stöddu, nema brýna nauðsyn bæri til. Tel ég sjálfsagt, að þessi öryggisheimild felist í frv.

Ég tel mig þá hafa svarað aðalaths., sem fram hafa komið frv. viðvíkjandi. Við hv. 1. þm. Reykv. verðum auðvitað aldrei sammála um stefnuna í þessum málum. Hann heldur fram hinni svo kölluðu „frjálsu“ verzlun, sem alls ekki er nú frjáls, en ég er þeirrar skoðunar, að ríkið eigi að hafa mjög hönd í bagga með verzluninni og taka að sér að verzla með allmargar vöruteg. Hv. þm. stendur enn á sama stigi og hinir svo kölluðu „fríverzlunarmenn“ stóðu, að vilja hafa allt sem frjálsast í þessum efnum. Hann hefir ekki lært mikið af því, hv. þm., að verið er nú að búast við, að takmörkuð verði kjötsalan okkar til útlanda, og e. t. v. vofa yfir allmiklar takmarkanir á sölu fiskjarins. Þótt við höfum ekki lengur frjálsan aðgang að höfnum erlendis til að selja þar fiskinn úr togurunum okkar og öðrum þeim skipum, sem flytja út nýjan fisk, þótt þjóðirnar í nágrannalöndunum girði sig hver í kapp við aðra allskonar verzlunar- og tollmúrum, þá heldur þm. því fram, að við eigum enn að hafa allt sem frjálsast hér hjá okkur. Hér á að vera „fríverzlun“, þótt hún sé að líða og liðin undir lok í flestum löndum heims. Þótt það sé að mörgu leyti illt að þurfa að viðhafa allar þessar hömlur, þá erum við nauðbeygðir til að dansa með. Það hafa aðallega verið menn úr flokki hv. 1. þm. Reykv., sem „fríverzluninni“ hafa verið fylgjandi, en þeir hafa margir hverjir játað, að henni er ekki unnt að framfylgja, a. m. k. hafa þeir einróma samþ. að banna innflutning á landbúnaðarafurðum, svo að nefnt sé dæmi. Í ræðu, sem form. Sjálfstfl. flutti í sumar eða haust, gat hann þess, að mig minnir, að við gætum ekki lengur hagað okkur í verzlunarmálunum á sama hátt og við hefðum gert. Takmarkanirnar yrðu að vera.