22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2497 í B-deild Alþingistíðinda. (3776)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Magnús Guðmundsson:

Það væri synd að segja, að maður fengi miklar upplýsingar hjá hæstv. stj. um þetta mál, sem er þó ekkert smámál. Í frv. er ekki vikið að því einu orði, hve mikið eigi að leggja á þessar vörur, og heldur ekki, hve mikilla tekna má vænta af þessari einkasölu. Um þetta tvennt vildi ég gera fyrirspurnir til hæstv. fjmrh. Hann er nú raunar ekki í d. nú sem stendur, en það er sennilega sama, þó að spurningunni sé beint til hv. 4. landsk., því að hann veit vafalaust allt, sem hæstv. fjmrh. veit um þessi efni.

Hér hefir verið rætt um einhvern heljarundir1búning, sem þessi einkasala krefjist. Ég á erfitt með að skilja, í hverju allur sá undirbúningur liggur. Hv. 4. landsk. talaði um útvegun á húsnæði, manni og samböndum. Ég hélt, að slíkt tæki engan óratíma. Ég vil spyrja hv. 4. landsk., hvað hæstv. stj. muni þurfa langan tíma til þess arna, og hvenær megi búast við því, að einkasölunni verði skellt á. — Hv. 4. landsk. talaði um það, að frv. þetta væri afleiðing af þeim verzlunarhömlum, sem nú væru komnar á í heiminum, og að Sjálfstfl. yrði að beygja sig fyrir þeirri staðreynd. Ég kannast ekki við, að slík frv. sem þetta standi í neinu sambandi við þær hömlur á frjálsri verzlun, sem orðið hefir að gera í ýmsum löndum. Ég veit ekki til þess, að einokunarhugmyndunum hafi skotið upp hér í nágrannalöndum okkar nú á síðustu árum. T. d. í Danmörku, þar sem er jafnaðarmannastj. eins og hér, ber ekkert á slíkum einokunarfrv. sem hér rignir niður. Það lítur út fyrir, að jafnaðarmennirnir hér á landi séu meiri jafnaðarmenn en danskir skoðanabræður þeirra. Hvorki í Danmörku né Svíþjóð þekkist þessi skæðadrífa af einokunarfrv. Ég hefi ekki fundið það ómaksins vert að hafa tölu á þeim, sem fram eru komin á þessu þingi, en ný og ný bætast við daglega, svo að tala þeirra er orðin legió, og verður þó sennilega talsvert hærri um það er lýkur. Það fer að verða talsvert í því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að það væri bara vinnusparnaður að taka alla verzlunina í hendur þess opinbera í einu, í stað þess að vera stöðugt að smánarta utan í frjálsa verzlun landsmanna.

Ég mun svo ekki hrella hv. 4. landsk. meira að sinni, honum finnst allt vera tómt pex, sem ég segi um þessa hluti. Þó vil ég taka það fram, að það er hreinasta blekking hjá þessum hv. þm., þegar hann heldur því fram, að tóbak sé yfirleitt dýrara í Danmörku en hér. Hann gæti e. t. v. hitt á innflutta sígarettuteg., sem væri dýrari þar en hér, en allt annað tóbak er þar miklu ódýrara.