22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2501 í B-deild Alþingistíðinda. (3778)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Ég vil ekki neita því, sem hv. þm. N.-Ísf. sagði um það, að bæjarfél. hefðu minni möguleika til þess að leggja á aukaútsvör, eftir að ríkið hefir tekið mikið af verzluninni í sínar hendur. Og það er rétt, að tekjur bæjarfél. má ekki skerða. En á þessu mætti ráða bót með því móti, að ríkið greiddi bæjarfél. nokkurn meiri hluta af nettógróða einkasölunnar en því er nú ætlað að greiða. Þetta atriði mætti taka til athugunar, ef til þess kæmi, að ríkið tæki undir sig verzlunina í stórum stíl.

Hv. þm. N.-Ísf. hélt því fram, að ekki væri hægt, að standardisera mótorana, af því að þeir væru ekki framleiddir hér á landi. En við getum standardiserað þá í notkun, með því að nota aðeins fáar teg., þær sem bezt reynast, ég sé ekki, að nein nauðsyn sé á því að binda sig við eina teg. Það mætti t. d. hafa 2—3 teg. af bátamótorum; ég nefni það til, af því að það hefir sýnt sig, að 2—3 af þessum vélum eru langmest notaðar hér við land. Og enn fráleitari mótbára er það, að einkasalan mundi að eilífu nota samskonar vélar. Ég teldi þann forstjóra standa illa í stöðu sinni, sem ekki fylgdist svo vel með á sínu sviði, að hann vissi strax þegar nýjar og endurbættar vélar koma á markaðinn. — Ég vildi ennfremur beina nokkrum orðum til hv. þm. N.-Ísf. út af orðum hans um tóbakseinkasöluna. Hann taldi, að þrátt fyrir mikla álagningu hefði mátt takast að ná jafnmiklum tekjum í ríkissjóð með frjálsri verzlun. Nú verður að hafa það hugfast, að tóbak er eyðsluvara, sem menn geta verið án, eða a. m. k. minnkað mikið við sig, en mótorvélar eru ómissandi nauðsynjavara. Enda hefir sýnt sig, að hagnaður á innfluttu tóbaki hefir orðið mismunandi, eftir því hvernig áraði. Þegar afkoma manna er yfirleitt bágborin, er keypt miklu minna af tóbaki en í góðærum. Það er því um þetta eins og hefir verið margsýnt fram á hér á Alþ., að sala og neyzla þessarar vöru, tóbaksins, fer mjög eftir árferði. En dálítið öðru máli er að gegna um bátavélar og bifreiðir, sem eru nauðsynlegar vörur, af þeim er alltaf keypt eitthvað, og er ekki verulegur munur frá ári til árs, þó hann kunni að verða einhver. En það þarf að hafa miklu meiri aðgæzlu og nákvæmni um þessar vörur, sem eru nauðsynlegar, að séu góðar, heldur en t. d. um tóbakið, þó þetta hafi verið gert þar, og fluttar inn góðar vörur, og mun því ekki síður vandað um þessar vörur. Enda eru gerðar kröfur og ríkið hefir aðhald frá landsmönnum sjálfum um vöruvöndun.

Ég vil svara hv. 1. þm. Reykv. því, að aðhaldið er ekki eingöngu frá ríkisstj., heldur líka frá fólkinu, neytendunum í landinu. Forstjóra verzlunarinnar mundi ekki haldast uppi að hafa slæmar vélar eða dýrar.

Hv. þm. N.-Ísf. talaði um, að það ætti að útiloka innlenda umboðsmenn, en útlendir umboðsmenn ættu að koma í staðinn. Ég veit ekki, hvernig hann hugsar sér að fóðra þetta. Ríkisverzlanir kaupa yfirleitt beint frá verksmiðjunum, sem framleiða, en ekki af umboðsmönnum erlendis. Ég hygg, að sé sú aðferð tekin upp, sparist milliliðakostnaður, sem er algerður aukakostnaður í verzluninni, en vitanlega yrðu þar erlendir menn, sem hagnast af því að búa til þessar vörur, alveg eins og nú er. Hjá því er ekki hægt að komast, en milliliðina mætti vel spara. Ég ætla, að nú séu 3 eða 4 milliliðir frá verksmiðjum í bílaframleiðslunni; þeim mætti fækka að skaðlausu, enda væru forstjórarnir ekki vaxnir sínu starfi, ef þeir gætu ekki komizt í samband við verksmiðjurnar sjálfar og fengið vöruna jafnódýra og milliliðirnir. — Hv. þm. N.-Ísf. sagði, að hér væru varahlutir fyrirliggjandi. Þetta er rétt hvað snertir stærstu verksmiðjurnar, en ég þekki þó mörg dæmi þess, að bátar hafa stöðvazt 2—3 mán. um hábjargræðistímann, vegna þess, að varahlutir voru ekki til. Þetta hefir riðið mörgum að fullu, beinlínis sett þá á höfuðið, svo þeir hafa ekki verið þess megnugir að halda áfram sínum atvinnurekstri. Þá ber og þess að gæta, að varahlutir eru oft ákaflega dýrir, bæði í vélar og bifreiðar. Samkeppni um bílaframleiðslu og sölu hefir verið svo mikil, að verð þeirra hefir nokkuð lækkað, þó samkomulag sé nú komið á milli framleiðenda að einhverju leyti um verðið. En um samkeppni í varahlutum hefir ekki verið að ræða, heldur geta þeir sett þar verðið eftir geðþótta. Vafalaust mætti laga þetta að einhverju leyti með ríkiseinkasölu. — Ég ætla, að ég hafi þá svarað hv. þm. N.-Ísf.

Hv. 1. þm. Skagf. fann ástæðu til að standa upp til að mótmæla því, að tóbak væri ódýrara hér en í Danmörku. Hann kom ekki nálægt því, sem ég sagði, og hann hefir ekki mótmælt því, enda getur hann ekki mótmælt því, að erlent tóbak er dýrara í smásölu í Danmörku en hér, þó hann geti fundið dæmi þess með danska vindla, að þeir séu ódýrari þar. Þá spurði hv. þm., hvað ætti að leggja á vöruna og hvað undirbúningurinn eigi að taka langan tíma. Það er eðlilegt, að hv. þm. spyrji að þessu, því hann treystir ekki ríkisstj. til neinna hluta. En ég trúi ríkisstj. til þess, að hún hraði hlutunum eftir því sem hægt er, en þó ekki meira en svo, að unnt sé að undirbúa málin vel, afla þeirra gagna, sem þarf, og finna þá menn, sem til þarf að veita fyrirtækinu forstöðu. Ég hygg, að það sé erfitt að gera grein fyrir álagningunni, hver hún er nú, eða að þm. viti það yfirleitt. Ég held, að bílakaupmenn gefi ekki upp, hver hún er. Ég álít, að álagningin eigi að fara eftir því, hve nauðsynleg varan sé, sem verzlað er með, hún eigi að vera lítil á bíla og mótora, en gæti t. d. verið nokkru hærri á útvarpstæki og jafnvel sumar rafmagnsvörur. Ég býst ekki við, að hægt sé að svara því nú sem stendur, hvort leggja skal á 10—20 eða 30%. Ég álít aðeins, að hún eigi að vera lægri á nauðsynjavörum.

Hv. þm. hélt, að það ætti ekki að taka langan tíma að útvega menn, sambönd og húsnæði, líklega tekur þetta nokkurn tíma, og það er a. m. k. ekki hægt fyrr en þingið hefir samþ. að heimila ríkisstj. að gera þetta. Það er í frv. þessu gert ráð fyrir því, eins og hv. 1. þm. Skagf. veit, að ríkisstj. geti tekið einkasölu á einni teg. eða jafnvel einum vöruflokki, án þess að hitt fylgi með eða allt sé tekið. Það fer eftir því, hvað hæstv. ríkisstj. getur hraðað undirbúningi þessa máls, og ég álít, að honum eigi að hraða eins og hægt er, en þó svo, að allt fari vel úr hendi.

Hv. 1. þm. Skagf., og hv. 1. þm. Reykv. raunar líka, hafa falað um, að þetta frv. sé einn liðurinn í haftastefnu stj., en eigi ekkert skylt við haftastefnur allra ríkja í verzlunarmálum, og sé ekki þörf á ríkiseinkasölu vegna viðskiptatakmarkana annara þjóða.

Þessir hv. þm., 1. þm. Skagf. og 1. þm. Reykv., hafa ekki heyrt neitt um einokun, sem þeir kalla svo, þ. e. ríkisrekstur, á Norðurlöndum. Ég er eiginlega alveg hissa á því, að kjósendur í Skagafirði og Rvík skuli hafa sent svo fáfróða menn á þing. Veit ekki hv. 1. þm. Skagf., að Stauningsstj. hefir flutt till. um að þjóðnýta Nationalbankann (MG: Ég skal skýra það skipulag), en hverjir stöðvuðu þetta mál? Dönsku jafnaðarmennirnir eða stj. hefir ekki meiri hl. í efri deild þingsins danska, þangað höfðu verið kosnir menn eins og hv. 1. þm. Skagf., kosnir samkv. úreltu fyrirkomulagi, eftir gömlu skipulagi, sem er ósamboðið öllu lýðræði, og það voru þessir menn, sem stöðvuðu málið. Jafnaðarmenn neituðu að selja hluti ríkissjóðs í Landmandsbankanum, á því strandaði; þeir vildu þjóðnýta Nationalbankann og halda hlutunum í Landmandsbankanum. Það má geta þess, að verzluninni á Norðurlöndum er öðruvísi háttað en hér hjá okkur. Hér eru aðeins keyptar vörur til neyzlu í landinu sjálfu, og innflutningsverzlunin hér er því aðeins þjónusta við þjóðina. En annarsstaðar hafa fjölmargir atvinnu af milliríkjaverzlun, „transit“-verzlun. Danir selja t. d. mikið af þýzkum vörum, Svíþjóð og Noregur hafa líka transitverzlun. (MG: Er þess vegna ómögulegt að þjóðnýta í Danmörku?). Ég sagði, að það væri ekki eins auðvelt. Ég ætla að benda hv. þm. á það, að í Noregi er korneinkasala, sem hefir svo mikið fylgi meðal þjóðarinnar, að borgaraflokkarnir, sem fara með völdin í landinu, treysta sér ekki til að afnema hana. Það var einu sinni gert stutta stund, en hún var sett á aftur og þykir góð. (JÁJ: Hún þykir góð í vissum tilfellum fyrir ríkið!).

Hv. 1. þm. Reykv. finnst þau rök góð hjá okkur, sem við færum fram með frv. Hann er að linast í málinu, en vildi þó fara annað til að forðast okkar rök, hann vildi vísa í gömul plögg, gamla einokunarverzlun. Ég þekki þessi plögg, þessi einokun var búin að murka svo lífið úr þjóðinni, að eftir voru aðeins 30 þús. íbúar í landinu, eins og hv. þm. tók fram. Hvað sjáum við af þessari einokun? Við sjáum af henni, að þegar konungurinn hafði verzlunina, konungurinn var þá sama og ríkið, þá þótti hún miklu skárri en þegar kaupmennirnir höfðu hana, þeir voru eitrið í verzluninni. Þá var flutt inn ormamjölið og aðrar skemmdar vörur, og klögumálin gengu í sífellu. Það mætti segja um þetta eins og einn núv. sjálfstæðismaður sagði um ritsímann, þegar hann kom og átti að vera ríkisfyrirtæki, að hann væri verri en svarti dauði, verri en móðuharðindi og verri en öll harðindi.

Ég vil ekki neita því, sem hv. 1. þm. Reykv. segir, að slíkar ráðstafanir sem þessi valdi truflun, öll tilfærsla veldur truflun. Þegar tekin er af mönnum atvinna, sem þeir hafa haft, veldur það truflun í bili, en það er fljótt að komast aftur í samt lag, eins og hv. þm. játaði. Ég veit, að vinnan verður minni og ekki verður notað eins mikið húsnæði, en þetta kemst ákaflega fljótt í samt lag aftur, eins og hv. 1. þm. Reykv. viðurkenndi.

Ég var búinn að svara þessu með gjaldeyrinn. Þegar takmarka verður gjaldeyrinn, verður ríkið að sætta sig við það að takmarka innflutning á vörum, sem ekki eru nauðsynlegar og annars gæfu tekjur í ríkissjóð, en það snertir ekki bifreiðar eða vélar.

Hv. þm. var að mæla bót hinu frjálsa vali, hann hélt því fram, að þegar menn keyptu bíla eða vélar, þá spyrðu menn hvort fengjust varahlutir o. þ. h. En því er nú verr og miður, að menn gera þetta ekki. Ég þekki mörg dæmi þess, að menn hafa verið tældir til að kaupa bifreiðir og vélar, sem ekki fengust varahlutir í, og þeir hafa sagt, að þeir hefðu ekki keypt, ef þeir hefðu þekkt þennan ágalla. Við vitum það, að duglegur sölumaður telur menn oft á að kaupa gallaða hluti. Slíkar hvatir á ríkið ekki að hafa, að tæla menn til að kaupa hluti, sem ekki eru full not af. — Hv. þm. hélt einnig, að forstöðumenn ríkisstofnana hefðu ekkert aðhald í starfi sínu um að leysa verkið vel af hendi, það væri ekkert sagt, ef allt slampaðist af, þó ekki væri allt sem bezt af hendi leyst. Hv. þm. þekkir þetta af reynd. Hann er starfsmaður ríkisins og getur því talað af þekkingu. En ég hefi nú þá trú, að hann mundi ekkert vanda sig meira í starfi sínu eða gera betur, þó hann fengi prósentur af hverjum guðfræðinema, sem útskrifaðist með 1. eink. Það verður að velja vandaða og samvizkusama menn til þessara starfa eins og annara, menn sem rækja sitt verk af alúð.