22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2505 í B-deild Alþingistíðinda. (3779)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Magnús Guðmundsson:

Mér þykir verst að geta ekki litið eins oft upp á pallana og hv. síðasti ræðumaður; ég er þannig settur. (JBald: Farðu í ræðustólinn). Hv. þm. minntist á tóbakið í Danmörku. Hann vildi láta líta svo út, að aðflutta tóbakið þar væri dýrara en hér (JBald: Ég sagði það ákveðið), en þetta er mjög villandi, því Danir flytja lítið inn af tóbaki. Þeir vinna mest sjálfir.

Hv. þm. lýsti yfir því, að hann vissi ekkert, hvað langan tíma undirbúningur þessa máls tæki, eða hvað einkasalan ætti að leggja mikið á. Ég lít þá svo á, að stj. hafi ekkert ákveðið um þetta ennþá og álít því hæpið að láta stj. hafa óbundnar hendur um þetta.

Hv. frsm. dró úr áhrifum frv. og gaf í skyn, að ekki þyrfti að taka einkasölu á öllum þessum vöruteg. í einu o. s. frv. Hann talaði um, að erfitt væri að segja, hvað leggja ætti mikið á, og hann vissi ekki, hvað lagt væri á nú. Ég sé ekki, að það komi þessu máli neitt við eða hafi áhrif, hvað lagt er á nú. Ef það er svo sem hv. þm. vildi gefa í skyn, að kaupmennirnir séu blóðsugur eða leggi óhæfilega mikið á vill ríkið þá fara í sama farið? Ég held, að ríkisstj. geti gefið upp, hvaða álagningu hún hugsar sér, alveg án tillits til þess, sem kaupmenn gera. (JBald: Hvað sagði ég í ræðu minni?). Hv. þm. sagði bókstaflega ekkert, sem hægt er að festa hendur á, hann sagði allt óákveðið, svo ekki er hægt að henda reiður á neinu. Hann hélt því fram, að einkasölur gætu verið góðar vegna þeirra hafta og takmarkana, sem ríktu í verzlun þjóðanna, en það eru ekki margar þjóðir, sem skylda okkur til að kaupa af sér. Það er e. t. v. helzt Spánn, sem skyldar okkur að kaupa af sér, en stjórn þess lands hefir aldrei krafizt, að ríkið tæki að sér verzlunina.

Það fór sem mig varði, að þm. kæmist í bobba, þegar ég bar saman einkasölufrv. hér og í Danmörku. Hann nefndi aðeins eitt einasta dæmi um einkasölu eða ríkisrekstur, og það var Nationalbankinn, en ef hann heldur, að þar hafi verið um ríkisrekstur að ræða, þá er það algerður misskilningur. Eftir till. stj. átti bankinn að eiga sig sjálfur. (JBald: Hverjir áttu að stjórna honum, hver átti að bera ábyrgðina?). Ríkið ber enga ábyrgð. (JBald: Hver átti að stjórna?). Bankastjórar auðvitað. Þegar seilzt er í þetta dæmi, þá er ekki um auðugan garð að gresja. Mér skildist á ræðu hans, að eiginlega væri jafnaðarstefnan ómöguleg nema hér á Íslandi. Það væri ekki hægt að hafa einkasölur í Danmörku, af því þar er „transit“verzlun. Þá er hvergi hægt að hafa einkasölu nema hér? Það fer þá að verða skiljanlegt, þó hér rigni niður einkasölufrv., ef þm. álítur, að jafnaðarstefnan eigi ekki erindi í verzlunarmálum nema hér.

En annars kemur „transit“verzlun ekkert þessu máli við, því þar sem hún er, þar eru fríhafnir, þar í er allur galdurinn fólginn. (JBald: Er það ekki hluti af verzluninni?). Jú, vitaskuld. En þar fer engin innanlandssala fram, svo að einkasala til landsmanna getur alveg eins verið fyrir því. Ég slæ því þess vegna föstu, að hv. þm. gat ekki nefnt eitt einasta dæmi um ríkisrekstur í verzlun í Danmörku, ekki einu sinni peningaverzlunina.