03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (38)

Kosning til efrideildar

Jakob Möller:

Forseti sagði, að það væri ekki venja, að forsetar leyfðu atkvgr. um úrskurði. Ég hygg, að þetta sé rangt. Það er föst venja, þegar krafa hefir komið fram um, að úrskurður sé borinn undir atkv., að það sé gert. Ég veit eitt einasta dæmi um hið gagnstæða, og ég geri ráð fyrir, að hæstv. forseti láti það dæmi ekki rugla sig í þessu efni. En hvað því dæmi viðvíkur, þá stóð svo sérstaklega á, að krafan um atkvgr. var ekki borin fram af réttum aðila. Ég veit ekki, hvort hv. þm. kannast við þetta dæmi. Það var í hv. Ed., að forseti úrskurðaði þingmann óatkvæðisbæran, og það var núv. hæstv. forseti Sþ., sem var það einstaka þingfyrirbrigði, að vera úrskurðaður óatkvæðisbær um alm. mál, er hann taldi sig þó sjálfan atkv.bæran um, en forseti neitaði að bera það undir atkv., þar sem í þingsköpunum væri það einungis viðkomandi þm., í þessu tilfelli hæstv. núv. forseti Sþ., sem gæti gert kröfu um atkvgr., en hún kom fram frá öðrum hv. þm. Þetta er því ekki því til stuðnings, að forsetar neiti atkvgr. um úrskurð, heldur þveröfugt, staðfesting á því, sem ég segi, og mig furðar á atferli hæstv. forseta og skil það á þann hátt, að hann viti, að úrskurðurinn er rangur og þingmeirihlutinn sé honum ekki samþ. og telji þetta ofbeldi og lögleysu.