27.11.1934
Neðri deild: 46. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (3808)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég á að vísu sæti í þeirri n., sem gera má ráð fyrir, að frv. þetta fari til, og mætti því kannske segja, að óþarfi sé, að ég fari að tala um það langt mál nú. En ég vil þó ekki láta þessa 1. umr. hjá líða svo, að ég ekki lýsi afstöðu minni til þessa frv. Eins og liggur í hlutarins eðli, þar sem ég telst til Sjálfstæðisflokksins, er ég eindreginn á móti slíku frv. sem þessu. Það hefir verið varið með því, þetta einokunarfargan stjórnarflokkanna, bæði fyrr og síðar, að það væri rétt að láta ríkið hafa verzlun á þeim vöruteg., sem gæfu mikinn verzlunarhagnað. Þetta hygg ég, að muni vera stefnuskráratriði a. m. k. annars stjórnarflokksins, þannig orðað og rökstutt. En úr því það er rökstutt með þessu, verður maður að hafa leyfi til að álykta sem svo, að ekki geti verið tilgangurinn að setja á stofn ríkiseinkasölu, sem eigi að taka ágóða af vörum, sem nauðsynlegar eru atvinnuvegunum. Nú vita allir, að hér er um hinar mestu nauðsynjavörur að ræða, og til þess að halda niðri verði á þessum vörum, er einfaldasta leiðin sú, að hafa verzlun með þessar vörur algerlega frjálsa. Það virðist því svo í raun og veru, að brotið sé með þessu frv. a. m. k. stefnuskáratriði Framsóknarflokksins, þar sem settar eru í einokun nauðsynlegar vöruteg., nema skýringin sé sú, að stefna flokksins sé að breytast, sem sé þannig, að hann vilji nú fá einkasölu á sem flestar vöruteg. án tillits til þess, hvort þær eru nauðsynlegar eða ekki, eða hvort þær þoli mikla álagningu eða ekki. Í rökstuðningi framsóknarmanna fyrir þeirra stefnu, sem verið hefir, felst í raun og veru viðurkenning fyrir því, að vörur eigi að vera dýrari í ríkiseinokun en í frjálsri verzlun, því ef svo væri ekki, þá væri ekki heldur ástæða til að einskorða stefnuskrána við það, að vörur í einkasölu geti gefið mikinn verzlunarágóða, og er það vitanlega mikil játning fyrir því, að vörurnar eigi að vera dýrar. Höfuðástæðan, sem Sjálfstæðisflokkurinn færir fram gegn þessari einkasölu, er sú, að vitanlega sé ófært að hafa nauðsynjavörur með hærra verði en þær þurfa að vera. Ég tel í raun og veru óþarft að fara langt út í þá hlið málsins, því það er viðurkennt, að vörur eru dýrari í einkasölu heldur en í frjálsri samkeppni, en af því leiðir líka, að þessar nauðsynlegu vörur eiga að vera í frjálsri verzlun.

Í sambandi við þetta mál hefði ég gaman af að fá upplýsingar um það frá hæstv. stj., hvað líður frv., sem kom fram í byrjun þings og virtist eiga að vera tekjuöflunarfrv., Þetta frv. var víst um bifreiðaskatt eða öllu heldur benzínskatt, þar sem farið var fram á verulega hækkun á þeim skatti. Eins og þessi mál horfa nú við á sjónarsviðinu, hefir mér dottið í hug, að e. t. v. væri tilætlunin eða setja þessi frv. hvort í samband við annað, þannig að um leið og tekin væri einkasala á bifreiðum og mótorvélum, sem ganga fyrir steinolíu og benzíni, þá eigi nú líka að taka einkasölu á þessum vörum. Það er nú svo ástatt með þessar vöruteg., að þó þær séu nauðsynjavörur, þá er nú svo háttað með þær, að tæplega er hægt að segja, að þær séu í frjálsri verzlun, og þó að ég aðhyllist frjálsa verzlun, þá er hér á landi svo ástatt með þessar vörur, að tæplega er hægt að segja, að um þær gildi frjáls samkeppni. Það væri því áreiðanlega miklu nær, að ríkið tæki einkasölu á þeim vörum heldur en þeim teg., sem frv. ræðir um. Það er í raun og veru óskiljanlegt, þegar hér er stungið upp á einkasölu á allskonar mótorum og mótorvélum, sem nota benzín, að þá skuli benzínið ekki vera tekið með. Því til sönnunar, að hér sé um minni skaða að ræða almennt séð, og af því mikil verzlunarálagning er á benzíni, þá skal ég benda á það, að samkv. tekjuskattsskrá Rvíkurbæjar má alveg fullyrða, að eitt fél. hér í bænum, sem verzlar með benzín og olíu, skilar mjög ríflegum ágóða af verzluninni. Þessu til sönnunar get ég bent á, að tekjuskattur þessa fél. var á 23. þús. kr., og liggur í augum uppi, að til þess að fél. geti borið svo háan tekjuskatt, hlýtur ágóðinn að vera alveg gífurlegur. Þessi ágóði af þessari verzlun rennur auðvitað beint í vasa þeirra, sem eiga fyrirtækið, og það er áreiðanlega mikil ástæða til þess að athuga, hvort ekki er meiri ástæða að taka einkasölu á þessum vörum fremur en þeim, sem í frv. eru.

Hæstv. ráðh. sagði, að til hefði verið heimild fyrir ríkiseinkasölu með steinolíu og benzín. Þetta er rétt. Sú heimild var í l., en mér er spurn, hvort sú heimild er ekki enn til, ég hefi ekki gáð að því, en mér hefir verið sagt, að svo væri. En ef svo er, þá væri hægurinn hjá fyrir stj. að rota þá heimild. Til þess þyrfti enga nýja lagasetningu. Ég segi fyrir mitt leyti, að ég væri frekar tilleiðanlegur til þess að veita stj. lið til þess að koma á þeirri einkasölu. einkasölu á steinolíu og benzíni, sem þegar má í raun og veru teljast, að sé í einkasölu í framkvæmdinni, þar sem verzlun með þessar vörur er í höndum einstakra fél. Til þess mundi ég fremur fylgja hæstv. ráðh. heldur en einkasölu á þeim vörum, sem frv. ræðir um.

Hæstv. ráðh. talaði um, að þetta frv. mundi gefa tekjur, ef að l. yrði. Ég efa ákaflega mikið, að svo verði. Það er augljóst, að þetta er svo margbrotin verzlun, að hún hefir geysikostnað í för með sér. Þegar þessar vörur verða teknar út úr einstaklingsverzluninni, liggur í augum uppi, að kostnaðurinn verður margfaldur fyrir landsmenn, miðað við það, sem verið hefir, og tekjur ríkissjóðs hverfandi litlar, nema tilætlunin sé sú, að hækka verð á þessum vörum frá því, sem verið hefir, en það gefur mér einmitt tilefni til þess að spyrja aftur, hvað líður benzínskattinum, og hvort búizt er við, að tekjur af þessu frv. nálgist að vera eins miklar og af bifreiðaskattinum. Ég vil taka það fram, þó hæstv. ráðh. væri áðan að vísa til heimildar, sem áður hefir verið gefin til einkasölu á einstöku vöruteg., að það er varla sambærilegt við þetta frv., þó heimiluð hafi verið einkasala á steinolíu, því það er vitað, að sú verzlun hefir verið aðeins á örfárra manna höndum, og þess vegna lítil hætta á því, að heimildin yrði misnotuð. Hinsvegar eru þær vöruteg., sem frv. ræðir um, á höndum fjölmargra manna í landinu, og er því alveg augljóst, að ef á að taka alla þá verzlun af þessum mönnum, þá veldur það þeim geysilegu atvinnutjóni. Ég tel það því fullkomna óhæfu að veita þá heimild, sem farið er fram á með þessu frv.