10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2532 í B-deild Alþingistíðinda. (3826)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Thors):

Fjhn. hefir klofnað í málinu, en þó gefið út sameiginlegt nál., sem er stutt og laggott. Þetta er að því leyti óvenjulegt, að það er ekki algengt, að n., sem klofnar, skili sameiginlegu nál. Hv. þm. V.-Ísf., hv. 3. þm. Reykv. og ég leggjum til, að frv. verði fellt, en hv. 2. þm. Skagf. og hv. 1. landsk. leggja til, að það verði samþ.

Ég verð að taka það fram, að það, sem ég segi til að andmæla frv., og þau rök, sem ég færi fyrir því, að það verði fellt, eru ekki mælt f. h. hv. þm. V.-Ísf., því hann hefir ekki falið mér það eða beinlínis látið í ljós sína skoðun að öðru leyti en því, að hann er andvígur því, að frv. verði samþ. Það, sem ég tek fram hér, verður því að teljast sagt f. h. mína og hv. 3. þm. Reykv. Við mælum gegn þessu frv. af mörgum ástæðum. Í fyrsta lagi látum við í ljós þá almennu skoðun um slík frv., að það sé ekki eðlilegt, að Alþ. lögfesti slíkar einkasölur, án þess að samtímis sé gerð grein fyrir því, hver áhrif einkasalan muni hafa á hagsmuni almennings annarsvegar og á hag ríkissjóðs hinsvegar. Um þetta frv. er það að segja, að það er vitanlegt, að hv. fjhn. hafa ekki fullnægt þessu grundvallaratriði. Þar næst er það varhugavert og ámælisvert út af fyrir sig, að fá ríkisstj. og þó raunar einum ráðh. í hendur slíkt vald, sem ráðgert er með frv., þar sem hér er um að ræða heimild fyrir stjórnina til að taka einkasölu á mörgum tegundum vara, sem mikið eru notaðar hér á landi. Slík heimild gefur ráðh. vald til þess að sveifla sverði yfir höfði allra þeirra manna, sem eiga lífsframfæri sitt undir því, að mega halda áfram að reka þá atvinnu, sem þeir hafa rekið. Þessir menn geta verið sviptir atvinnu sinni eftir geðþótta ráðh., og tel ég ekki sæmilegt að veita einum manni slíkt vald. Ég tel, að ríkisstj. verði á hverjum tíma að gera upp við sjálfa sig, hversu langt hún óskar að ganga á þessari braut, og leita svo samþykkis Alþ. um það, hversu langt spor skuli stigið í þessa átt. Hitt, að Alþ. gefi ríkisstj. ótakmarkaða heimild, án þess að upplýsingar liggi fyrir um það, í hvað ríkum mæli á að hagnýta þá heimild, er í mörgum atriðum rangt. Það er rangt af því, að einstökum ráðh. er fengið of mikið vald, án þess að tryggt sé, að hann misbeiti því ekki, og í öðru lagi er það skylda löggjafans að gera grein fyrir því, hvort ríkissjóður er þess megnugur að taka á sig þá fjárhagslegu örðugleika, sem leiða myndu af því, ef ríkið tæki í sínar hendur svo umfangsmikla verzlun. Við sjálfstæðismenn á Alþ. höfum orðið að sveigja frá þeirri stefnu okkar, að einstaklingar hafi atvinnurekstur með höndum á einstökum sviðum, vegna þess, að utanaðkomandi atvik hafa leitt í ljós óvenjulega þörf fyrir slík afbrigði frá stefnu okkar. En þó að við höfum þannig beygt okkur fyrir þessum utanaðkomandi áhrifum, þá liggur ekki í því nein tilkynning um það, að trú okkar á einstaklingsframtakið hafi minnkað að einu eða neinu leyti. Okkar skoðun er sú, að vegna þess að við höfum orðið að stíga þetta spor í öfuga átt, þá beri okkur skylda og nauðsyn til að gera þetta aldrei, ef utanaðkomandi orsakir eru ekki fyrir hendi. Enginn vitiborinn maður getur haldið því fram, að nauðsyn sé á þessari einkasölu. Við erum ekki búnir að sjá fyrir endann á þeim óþægindum, sem hið ísl. ríki gæti bakað sér með því að seilast að nauðsynjalausu inn á þá kaupsýslu, sem hér ræðir um. Til þess er stofnað af frumkvöðlum þessa máls í því skyni, að ríkissjóður geti orðið aðnjótandi þess hagnaðar, sem einstaklingar hafa nú af þessari verzlun. Við sjálfstæðismenn erum andvígir því, að ríkið af þessari ástæðu brjóti niður framtak einstaklingsins, og er það m. a. af þeirri skoðun okkar, að við teljum, að ríkið hafi verri aðstöðu til þess að inna þetta svo af hendi, að heildarhagnum sé jafnvel borgið eins og ef einstaklingar hafa þetta með höndum. í þessu sambandi vil ég minna á, að það er varhugavert fyrir ríkið að gera það tvennt í einu, að haga skattalöggjöfinni eins og það nú hefir gert með breyt. á tekju- og eignarskattsl., sem nú er víst um það bil að verða að l., sem er á þann hátt að skerða í ríkum mæli fjáröflunarmöguleika sveitar- og bæjarsjóða, og svo annarsvegar að drepa niður með valdboði atvinnurekstur einstaklinga, sem að öðru leyti standa undir fjáröflunarþörf bæjar- og sveitarfélaga. Allir sjá, hvert þetta leiðir, og mun það verða svo, að ríkið verði að sjá fyrir þörf bæjar- og sveitarfélaga á annan hátt. Mér er sagt af fróðum mönnum, að sá atvinnurekstur, sem er meginþáttur í þeirri verzlun, sem hér á að taka úr höndum einstaklinga, sé rekinn af 3 eða 4 fél. í bænum, og það er upplýst, að þessi fél. gjalda til hins opinbera 80—90% af ágóða þeim, sem þau hafa af atvinnurekstrinum. Ríkið hefir þannig með skattaálagningunni og bæirnir með útsvarsálagningunni tryggt sér að mestu leyti þann ágóða, sem nú á að seilast til. Ég hika ekki við að staðhæfa, að ef það er rétt, að ríkið og bæirnir fái nú 4/5—9/10 af ágóðanum, þegar þessi atvinnurekstur er í höndum einstaklinga, þá muni breyt. beinlínis orsaka tap fyrir ríkissjóðinn og bæjarsjóðina. Ég er ekki heldur í vafa um, að ef ríkið tekur þetta að sér, þá muni það fara það verr úr hendi, að heildartekjurnar verða því minni, sem þessu nemur, ef ríkið færir það yfir til sín. Ennfremur verður að hafa vakandi athygli á því, að margskonar aðsteðjandi örðugleikar muni leiða af því, ef ríkið tekur þetta í sínar hendur. Af þessu myndi leiða atvinnumissi fyrir marga menn, og ætti ríkið ekki að gera leik að því að eiga þátt í því með framkvæmdum sínum að auka hóp atvinnuleysingjanna. Ein afleiðingin af frv. mun verða sú, að ýmsir menn verða sviptir atvinnu sinni, því það er eina leiðin fyrir ríkið til þess að vega upp á móti þeim missi á arði, sem af því myndi leiða, ef ríkið tæki þessa verzlun í sínar hendur, að fækka þeim mönnum, sem hafa haft lífsframfæri sitt af þessu.

Ég veit, að það má færa fram mörg önnur sterk rök mínu máli til framdráttar. En ég hygg, að þau rök, sem ég hefi nú fram fært, eigi að vera öllum hugsandi mönnum fullnægjandi sönnun þess, að hér er lagt inn á skakka braut, frá hvaða sjónarhól sem þetta mál er skoðað. Það er skakkt af stj. að fara fram á það, að þingið veiti einkasöluheimild án þess að gerð sé grein fyrir þeim afleiðingum í fjárhag ríkissjóðs og almennings, sem af þessu leiðir. Það er skakkt, að í slíku leyfi sé heimild, en ekki beinlínis ákveðið, með hvaða vörur skuli hér verzla. Það er rangt að gera þetta samtímis því, sem ríkið sviptir bæjar- og sveitarfél. sínum tekjustofnum í jafnríkum mæli og gert er í tekju- og eignarskattsl., sem voru samþ. í dag. Af þessum fjórum höfuðástæðum erum við sjálfstæðismenn andvígir þessu frv. og mælumst til þess, að hv. þdm., jafnvel þó að í öðrum flokkum séu, geti litið með réttsýni á málið og aðhyllist þá till. okkar og hv. þm. V.-Ísf., að fella þetta frv.

Sé ég svo ekki ástæðu til að láta fleiri rök fylgja að þessu sinni, nema formælendur frv. gefi mér til þess tilefni.