11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (3835)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Guðbrandur Ísberg:

Það kemur að sjálfsögðu ekki hæstv. stj. eða fylgismönnum hennar á óvart, þó sjálfstæðismenn séu á móti einkasölu, og þá einnig þessu frv. En þó er það ekki eingöngu af því, að hér sé um einkasölu að ræða, því sjálfstæðismenn hafa í einstökum tilfellum fylgt því, t. d. um vínverzlunina. En það er alveg ófrávíkjanlegt skilyrði, að um munaðarvöru sé að ræða. En hér er í fyrsta sinn gengið inn á þá braut, að slepptri einkasölu ófriðaráranna, að taka einkasölu á vöru, sem almenningur getur ekki verið án. Því viðtæki verða að heimfærast undir þær vörur, sem menn geta verið án. Það er algengt, t. d. um nágranna, að annar hefir viðtæki, en hinn ekki, og komast þó báðir jafnt af. En hér er gengið inn á að einoka vöru, sem almenningur kemst ekki hjá að nota, og þó á að fara hér saman, að afla fjár fyrir ríkissjóð og samtímis að verða til hagnaðar fyrir borgarana. Hér er í frv. gert ráð fyrir að taka einkasölu á 3 vöruteg., bílum, bátavélum og rafmagnsáhöldum. Af verzlun með bifreiðar mun vera lítill hagnaður, enda býst hæstv. stj. ekki við nýjum tekjum af því. Í sambandi við bifreiðarnar hefir réttilega verið bent á það, að þótt teg. kunni að vera margar, þá eru það þó örfáar teg., sem eru algengar, innan við 10 teg., að ég hygg. Nú gildir það sama um bifreiðar sem öll véltæki, að reynslan verður að skera úr því, hvaða teg. séu heppilegastar.

Raunin hefir orðið sú, að við kaupum nú aðallega bifreiðar frá einu tilteknu ríki. Einmitt bifreiðar frá þessu ríki hafa reynzt hér bezt, vegna okkar sérstöku staðhátta, og þess vegna orðið ofan á í samkeppninni.

Ég hygg, að ef frestað yrði að koma á einkasölu á þessari vöru, þá mundi svo fara, með skynsamlegum gjaldeyrishömlum, að lélegar teg. hverfi úr sögunni, og að eftir verði aðeins fáar teg., sem hafa reynzt vel. Er þá þar með úr sögunni sú nauðsyn, sem einkasölumennirnir telja nú vera fyrir hendi, að girða fyrir innflutning óhæfilega margra misjafnra tegunda bifreiða. Nú um skeið hefir innflutningur bifreiða verið mjög takmarkaður og hlýtur þarafleiðandi að gefa litlar tekjur. Tekjurnar mætti vitanlega auka með auknum innflutningi bifreiða. En hvar er þá gjaldeyrissparnaðurinn? Nei. Það er áreiðanlega ekki heppilegt, að ríkið fari að verzla með bifreiðar. Af því yrðu engar verulegar tekjur fyrir ríkissjóð, og hagræði fyrir almenning í því efni kemur heldur ekki til greina.

Þá vil ég snúa mér að mótorunum eða bátavélunum. Mér skildist á hv. 1. landsk., að hann gæti sætt sig við, að ríkið tæki umboðssölu á þessari vöru. Nú er mér kunnugt um það, að þessi vara er einmitt nú aðallega seld í umboðssölu, og umboðsmennirnir fá ákveðin umboðslaun. Til þess að koma út vörunni hafa umboðsmennirnir farið þá leið, að láta mönnum vöruna í té með afborgunum. Þetta hefir verið talið mikið hagræði fyrir menn, því að um marga hefir verið svo farið, að þeir hafa ekki getað lagt út andvirðið strax. Hefir nú ríkið hugsað sér að gera þetta? Ætlar það að halda þessari venju, eða eiga þeir einir að fá vöruna, sem greitt geta strax? Ef horfið er frá þessu, þá er sá tilgangur frv. brotinn, að það eigi að vera almenningi til hagræðis.

En ef þetta er hinsvegar látið haldast, þá efast ég um þann hagnað, sem ríkið á að hafa af þessari verzlun.

Um þriðju teg., raftækin, hefir verið réttilega á það bent, að við val á þeim hlutum kemur smekkur manna mjög til greina. Oft eru flutt inn tæki, sem mönnum líka ekki, og eru því ekki keypt. Slík vara er því hættuleg í verzlun, og ég hygg, að einkasalan verði ekki heppnari í þessu tilliti en kaupmenn, svo að hæpið verði um hagnaðinn. Hagræði almennings verður hinsvegar kannske svipað.

Svo er það annað, sem ég vildi minnast á, en það er öflun varahluta. Það má segja, að auðvelt verði að afla varahluta til þeirra tækja, sem einkasalan sjálf selur, en það þarf að afla varahluta til allra þeirra tækja, er til eru í landinu. Í sambandi við það er ég viss um, að einkasalan mun reka sig á mikla örðugleika.

Það eru til svo margar teg. bifreiða og bátamótora. Það verður erfiðara fyrir einkasöluna að útvega varahluti til véla, sem ekki eru kannske til nema ein til tvær af á landinu, heldur en menn, sem um árabil hafa haft umboð á þessum vélum. Ég efast því ekki um, að hér stefnir til óhagræðis fyrir almenning hvað varahluti snertir til allskonar tækja. Ég er því viss um, að hér geta ekki farið saman auknar tekjur fyrir ríkissjóð og hagræði fyrir almenning, því að ef þetta á að verða hagræði fyrir almenning, þá verða tekjurnar engar. Hitt er ljóst, að ríkið kemst ekki hjá því að leggja fé til þessarar stofnunar, og það mikið fé. Ég vildi því spyrja hæstv. fjmrh., hvernig hann hafi hugsað sér að afla þessa fjár og hvort hann hafi gert sér grein fyrir því, hvað stofnkostnaður muni verða mikill.

Ég hygg, að ég taki ekki aftur til máls við þessa umr. Ég er ekki aðeins á móti þessu frv. vegna þess, að hér er einkasala á ferðinni, heldur vegna þess, að hér er verið að marka nýtt spor á einkasölubrautinni, að taka upp einkasölu á þurftarvörum almennings.