12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2708 í B-deild Alþingistíðinda. (3839)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Pétur Ottesen [óyfirl]:

Ég fór nokkrum orðum um þetta frv. við l. umr. málsins og benti þá á það, að mér virtist ófésilegt að fara að taka upp einkasölu á síld, slík sem afdrif gömlu einkasölunnar urðu.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að rifja upp nú þær ástæður, er ég þá tók fram, að mæltu móti þessu frv., og skal ég því þegar snúa mér að því, að gera grein fyrir brtt. mínum við frv. Ég hefi flutt þessar till. sem öryggisráðstafanir gagnvart þeim atriðum frv., er þær snertu, ef stefna á síldarmálunum aftur inn á einkasölubrautina. En sú hlýtur að verða niðurstaðan, eins og þetta frv. er byggt upp og ég benti á við 1. umr. Þessi brtt. mín snertir eingöngu ákvæði 1. gr. frv., þau ákvæði, að hinum 4 aðilum — mönnum í landsfjórðungunum — verði gefinn kostur á að tilnefna 4 af 7 fulltrúum, sem eiga að skipa síldarútvegsnefndina. Í frv. er það þannig, að síldarútvegsmenn í Norðlendingafjórðungi eiga að fá leyfi til að skipa 2 menn af 4 í n., Vesturland 1 og Suðurland 1 fulltrúa. Ég benti á það við 1. umr., að að því leyti sem þetta snerti útnefningu Sunnlendinga, þá mundi þeirra réttur vera mjög fyrir borð borinn. Ég hafði þá að vísu ekki aflað mér upplýsinga um þátttöku úr landsfjórðungunum í síldveiðum síðastl. sumar, og við hvað bæri að miða þátttöku Sunnlendinga. En þó var mér hinsvegar fullkomlega ljóst, að þessi hlutdeild gat ekki staðizt, ef nokkurrar réttsýni og sanngirni væri gætt í þessu efni. Síðan hefi ég aflað mér upplýsinga, og það vill svo til, að það liggur fyrir hv. sjútvn. skýrsla, nákvæm og ábyggileg, um þátttöku útvegsmanna í síldveiðum á síðastl. sumri, og ætla ég, að hún hafi verið í fórum hv. form. sjútvn. og fulltrúa Vestfirðinga. Svo að hann virðist hafa haft fullkomin gögn í höndum fyrir þessu, sem gátu vísað á hina réttu leið, þegar ákvæðin um þetta voru sett í frv. Enda var það svo, að hv. þm. Ísaf. viðurkenndi það við 1. umr. þess, máls, að það hefði ekki í fyllsta máta verið gætt réttlætis um þátttöku útvegsmanna í skipun nefndarinnar. Og virðist sú viðurkenning fram komin vegna þeirrar skýrslu, sem fyrir liggur og að sjálfsögðu ber að taka tillit til. Ég ætla, að beztu heimildir, sem hægt er að fá, séu einmitt í þessari skýrslu. Og samkv. henni kemur það í ljós, að Sunnlendingar hafa gert út 40 skip á síldveiðar, sem flest voru allstór og meðal þeirra nokkrir togarar, auk margra línuveiðara og mótorbáta, sem voru allir stórir og höfðu góða aðstöðu til að beita sér mjög vel við síldveiðina og skilyrði til að fleyta miklum afla á land. Frá Vesturlandi voru 18 skip venjulega við veiðar, en frá Norðurlandi 39 skip. En við þau er það að athuga, að meginhlutinn af þeim eru mótorbátar, náttúrlega allmörg nokkuð stór skip, en líka mörg minni skip. Og yfirleitt hafa fleiri af norðlenzku skipunum verið minni en skipin frá Suðurlandi. Þar af leiðir, að afköstin eru ekki eins mikil og á stærri skipunum við síldveiðar. Þegar þetta er athugað, og ennfremur í sambandi við það, að hér er verið að miða till. við síldveiðar á næsta ári, og því fremur sem nú er verið að bæta aðstöðuna til aukinna síldveiða með byggingu 2 nýrra síldarverksmiðja, sem veitir mesta möguleika fyrir stórauknum síldarútvegi, þá ber vitanlega að taka tillit til þess, úr hvaða landshlutum eru líklegastir möguleikar fyrir auknum útvegi, og hvaðan þess má vænta fyrst og fremst. Við nánari athugun kemur það í ljós, að á fjörðunum fyrir norðan var tjaldað því sem til var af skipum síðastl. sumar. Þaðan er því ekki að vænta aukinnar síldveiði, nema Norðlendingar bæti við sig skipastól. Þegar því næst eru athuguð skilyrðin á Vesturlandi og Suðurlandi, þá kemur það í ljós, að á Suðurlandi eru a. m. k. 25 togarar, sem ekki stunduðu síldveiðar síðastl. sumar. Auk þess 1—2 gufubátar og a. m. k. 8—10 vélbátar yfir 30 smál. að stærð, sem gætu gengið á síldveiðar við Norðurland. Það er því hér um 34 skip að ræða, sem gætu bætzt við þann skipastól, er stunduðu síldveiðar fyrir Norðurlandi síðastl. sumar. Á Vesturlandi eru 4 togarar og auk þess 2 vélbátar af þeirri stærð, sem venjulega eru notaðir við síldveiðar, sem mundu bætast í hópinn. En þrátt fyrir hina auknu þátttöku Sunnlendinga í síldveiðum, sem ég nú hefi talið, þá eru möguleikarnir þó ekki tæmdir um aukinn skipastól. Það hefir færzt í vöxt á síðari árum, að 2 eða 3 smærri bátar, á milli 20 og 30 smál. að stærð, hafa stundað veiði sameiginlega með einni nót. Og ef reynslan leiðir það í ljós, að þessar tilraunir koma að raunhæfum notum, þá gæti vitanlega bætzt við síldveiðiflotann fjöldi báta af Suðurlandi. Þessi aðferð við síldveiðina hefir nokkuð verið reynd á Norðurlandi, að smærri bátar, sem stundað hafa síldveiðar, hafa sameinað sig um eina nót, og hefir það gefizt sæmilega vel. Í skýrslunni er tekið fullkomið tillit til þess, að fleiri bátar hafa verið saman um eina nót. Og vitanlega er þá ekki gert ráð fyrir, að þar komi til greina, við útnefningu fulltrúa í síldarútvegsnefnd. nema eitt atkvæði fyrir þá báta, sem eru saman um einn nót. Því að ef þess er ekki gætt, þá mundu hlutföllin raskast í þessum efnum. Ég hefi þess vegna geri ráð fyrir því í brtt. minni, að það komi aðeins til greina eitt atkv. fyrir þau skip, sem stunda veiði sameiginlega með einni nót, og ætla ég, að allir geti verið sammála um, að það sé sanngjarnt í þessu falli.

Ég ætla, að samkv. þeirri skilagrein, sem ég nú hefi gert, þá sé það augljóst, að hlutur Sunnlendinga er mjög fyrir borð borinn með ákvæðum frv. Ég held því, að hv. þdm. geti fallizt á, að Sunnlendingar eiga, samkv. brtt. minni, að tilnefna 2 menn í n., en Norðlendingar og Vestfirðingar sinn manninn hvor. Að vísu er ekki hægt að ná hinu fyllsta réttlæti í þessu efni, en með till. minni er þó hægt að komast miklu nær því réttu hlutfalli, sem nú er um þátttöku einstakra landsfjórðunga í síldveiðum. Og ef svo færi, að fullnægt yrði fyllstu skilyrðum til aukningar á útveginum, þannig, að sá skipafloti, sem unnt er að fá hér sunnanlands, tæki þátt í síldveiðunum, þá mundi vera um fullkomið réttlæti að ræða, samkv. till. minni, um kosningu fulltrúa í síldarútvegsn. Ég vona því, að hv. þdm. geti fallizt á báða liði brtt. minnar, a- og b-lið.

Hv. þm. Vestm. mun hafa talað fyrir brtt. sínum í nótt; en þær miða vitanlega að því, að sníða allverulegan ágalla af frv. og fela líka í sér lagfæringar að öðru leyti. Ég mun þess vegna greiða þeim atkv. Um afstöðu mína til hinna almennu ákvæða frv. hefi ég áður getið, bæði við 1. umr. og einnig að nokkru leyti nú við þessa umr. — Ég skal því ekki lengja þessar umr. frekar, þar sem hæstv. forseti varð mjög vingjarnlega við þeim tilmælum mínum í nótt, að fresta þá umr., svo að ég gæti lýst brtt. mínum að viðstöddum fleiri hv. þdm. en hér voru til staðar eftir miðnætti í nótt.