11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2552 í B-deild Alþingistíðinda. (3840)

76. mál, einkasala á bifreiðum o.fl.

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég verð að játa það, að ég kveinka mér við að taka til máls um slíkt mál sem þetta, eftir að hv. þm. Vestm., sem hefir náttúrlega miklu meiri þekkingu og reynslu í þessum efnum heldur en ég, hefir talað um það. En þetta mál er svo margbrotið, að þess er náttúrlega naumast að vænta, að í einni einstakri ræðu verði það skoðað frá öllum hliðum og krufið til mergjar í öllum greinum, jafnvel þó að hinir fróðustu menn fjalli um það.

En mér virðist, að af hálfu þeirra manna, sem fylgja þessu máli hér fram, hafi verið gerðar svo hverfandi litlar tilraunir til þess að kryfja málið til mergjar og skýra það og gera grein fyrir því, hvaða rök mæli með því að setja slíka löggjöf sem þessa og hvaða líkindi séu til þess, að tilbreyting í verzlun eins og þessari muni gefast vel fyrir þjóðina. Og mér virðist þetta mál þess eðlis, að það sé rétt, að þá sé af andstæðingum frv. farið nánar út í þá hluti og reynt að gera bætur á því, sem vantað hefir á í ræðum stuðningsmanna frv., og að reynt sé að skýra fyrir mönnum, hvernig þessi mál horfa við.

Það bar á góma . við 1. umr. málsins, og ég minnist þess, að hæstv. fjmrh. lét þá skoðun í ljós, að þær vöruteg., sem með frv. þessu er farið fram á, að verði lagðar undir einkasölu ríkisins, væru álagningarmiklar, og þær gæfu mikinn arð þeim mönnum, sem hafa verzlað með þær. Ég lét þá þegar í ljós efasemdir um þetta, og ég hygg, að þessir menn geri sér algerlega rangar hugmyndir um þetta í raun og veru. Það er vitanlegt, eins og ég benti á þegar við 1. umr. málsins, að mikið af þessum vörum er selt af þeim, sem þær framleiða, fyrir ákveðið verð, svo að þess er ekki að vænta, að með einkasölu geti þær orðið nokkuð ódýrari fyrir þá, sem þær eiga að nota.

Um bifreiðar og mótorhjól munu vera ákveðin fyrirmæli frá þeim verksmiðjum, sem framleiða þessi tæki, með hvaða verði hver einstök teg. skuli seld, og sá ágóði, sem þeir menn fá, sem hafa umboð fyrir verksmiðjurnar, þá eingöngu fólginn í ákveðnum umboðslaunum. Það er eðlilegt, að framleiðendur slíkra hluta séu fúsir til að greiða talsvert há umboðslaun til þess að auka sölu þeirra teg., sem þeir framleiða, og afla sér með því líkinda til þess að fá vaxandi markað fyrir framleiðslu sína. En hinsvegar er þess að gæta, að ef einkasala er sett á stofn í landi, þá hverfur náttúrlega að talsverðu leyti ástæðan til þess að hafa þessi umboðslaun svo há, svo að það er alveg undir hælinn lagt, hve miklar tekjur gætu orðið af slíkri einkasölu, þó að þótt hafi borga sig að greiða einstökum umboðsmönnum nokkuð há umboðslaun, sem hafa haft það á hendi að ryðja til rúms ákveðinni teg. í samkeppninni við aðrar teg. Það eru líka talsverð líkindi til, að svo verði breytt til í þessu efni, að umboðslaun, sem áður hafa verið greidd innlendum umboðsmönnum til að skapa markað fyrir einstakar teg., verði framvegis greidd erlendum agentum fyrir að mæla með vörunni við einkasöluna. Það eru því allar líkur til, að þessi verzlunararður, sem áður hefir lent hjá einstökum umboðsmönnum, hverfi úr landi til erlendra umboðsmanna. Mér er ekki kunnugt, hvernig reynslan hefir verið í þessu efni um einstakar einkasölur, sem hér hafa verið stofnaðar. En maður heyrir ýmislegt um þá hluti. Maður heyrir, að umboðslaunin hverfi ekki með öllu úr landi, en það eru getgátur um, að þau renni ekki til ríkissjóðsins, heldur í vasa einstakra manna, hérlendra að vísu, sem standi nærri þessum einkasölufyrirtækjum. Þetta dirfist ég nú ekki að dæma neitt um. En mér finnst, að það liggi nokkurnveginn í augum uppi, að þegar einkasala á ákveðinni vöruteg. er komin í fastar skorður og búið er að gera samninga við ákveðnar verksmiðjur um kaup á þeim vörum, sem á að verzla með, minnki hvötin til að borga fyrir útbreiðslu vörunnar, enda ástæða til að greiða minni umboðslaun en áður, þar sem að einstakur umboðsmaður, sem tekur vöruna að sér, verður vitanlega að leggja í nokkurn kostnað til þess að vinna markað fyrir vöruna. Umboðsmenn verða að ferðast á milli landa og um landið sjálft. Þeir verða að hafa undirumboðsmenn úti um landið, skrifstofur, geymsluhús o. s. frv. Þetta hefir allt nokkurn kostnað í för með sér, sérstaklega meðan verið er að fá menn til þess að kaupa sérstakar teg., sem ekki hafa verið á markaðinum áður. Hinsvegar sýnir reynslan, að þegar einkasölur eru komnar á, virðist lítil hvöt hjá forstöðumönnum þeirra til þess að ryðja til rúms nýjum teg., og þessi reynsla af einkasölunum er einmitt sterkasta ástæðan til þess að óttast afleiðingarnar af þessu breytta fyrirkomulagi. Þær afleiðingar koma á tvennan hátt, fyrst á þann hátt, að vörurnar, sem á boðstólum eru fyrir notendur, eru e. t. v. lakari að gæðum en vörur, sem hægt væri að fá og mundu ryðja sér til rúms, ef um frjálsa verzlun væri að ræða. Þegar nú einmitt er um þessar vörur að ræða, bifreiðar og allskonar vélar og rafmagnsáhöld, er þess að gæta sérstaklega, að framleiðslan á þessum vörum er í stöðugri framför ár frá ári.

Alltaf koma á markaðinn fullkomnari og fullkomnari vélar, bæði að því leyti að fullnægja betur kröfum um afköst og kröfum um sparnað í rekstri. Þeir, sem þekkja framfarirnar í smíði mótora síðustu áratugi, vita, að fyrir tiltölulega fáum árum voru mótorar, sem ætlaðir voru í báta, svo stórir og þungir, að þeir voru nærri hálf báthleðsla, og auk þess afardýrir í rekstri, eyddu bæði mikilli olíu og mikilli smurningu. Nú er farið að framleiða svo litla mótora, að það er alveg furðulegt, hve miklum framförum þessi framleiðsla hefir tekið á skömmum tíma. En þegar einkasala er komin á laggirnar vofir yfir sú hætta, að hún fylgist ekki með í þessu efni, og menn verði að nota gamlar og úreltar vélar. En við það bíður einstaklingurinn og þjóðin í heild hnekki. Atvinnurekstur landsmanna verður ekki samkeppnisfær við aðrar þjóðir, sem reka samskonar atvinnu með betri og fullkomnari tækjum en þær vesælu þjóðir, sem búa við það fornaldarfyrirkomulag, sem einkasölur eru. Ég get fundið orðum mínum stað í þeirri reynslu, sem fengizt hefir af ísl. einkasölum. Ég geri ráð fyrir, að það geti alveg eins átt við um gæði og afkastamöguleika véla eins og hitt, sem mér er sérstaklega kunnugt um. Og þegar það fer saman, að með vaxandi framförum er hægt að framleiða vélarnar bæði betri og ódýrari, þá verður tjónið tvöfalt af að fylgjast ekki með. Það er ekki aðeins, að menn fái ófullkomnari tæki en kostur er á, heldur verða menn líka að borga þau hærra verði. Við höfum hér einkasölu fyrir á sama sviði, og á ég þar við viðtækjaverzlunina. Ég fullyrði, að þessi einkasölustofnun hefir ekki fylgzt með tímanum. Ég get sannað, að hún fylgist ekki með að því er verðlag snertir, og ég geri ráð fyrir, að það sé eins um gæði vörunnar. Ég get lagt fram sannanir um þetta, og ég skal gera það, ef einhver er hér, sem efar, að ég fari með rétt mál. Ég þori að staðhæfa, að viðtækjaverzlun ríkisins selur viðtæki um það bil helmingi hærra verði en hægt er að fá fullkomlega sambærileg tæki fyrir. Þessi einkasala hefir frá byrjun bundið sig við ákveðna viðskiptavini og ekki hleypt á markaðinn ódýrari tækjum, sem nú er hægt að fá. Ég hygg, að gera megi ráð fyrir því sama, ef sett verður á stofn einkasala á bifreiðum, mótorhjólum og rafmagnstækjum. E. t. v. eru framfarirnar ekki á neinu sviði eins örar og í framleiðslu raftækja, og má því gera ráð fyrir, að einkasala á raftækjum verði enn meira haft á framfarirnar í landinu en nokkur einkasala hefir verið áður.

Hv. frsm. minni hl. sagði að fluttar væru inn óhæfilega margar teg. af bifreiðum og mótorvélum. Það hefir áður verið bent á, að þetta er meira í orði en á borði. Sannleikurinn er sá, að fullkomnustu vélarnar ryðja sér alltaf til rúms, ef þeim er hleypt að, og þó að flutt sé inn ein og ein af öðrum teg., þá gætir þess lítið. Það hefir verið upplýst hér um bifreiðarnar, að langflestar bifreiðar hér eru frá 4—5 verksmiðjum. Ég býst við, að líkt sé að segja um mótorvélar, að flestar þeirra, sem hér eru í notkun, séu frá örfáum verksmiðjum. Þetta leiðir eiginlega af sjálfu sér, bæði vegna þess, sem ég benti á áðan, að vélar, sem gefa beztan árangur, ryðja sér mest til rúms, en við það bætist svo, að vélar, sem flestir nota, hafa þann kost, að eigendur þeirra þurfa aldrei að óttast stöðvun á rekstri vegna vöntunar á varahlutum, því að fyrir því er jafnan séð, að til séu birgðir af varahlutum í slíkar vélar víðsvegar um landið. Hinsvegar geta hinar sjaldgæfari vélar valdið örðugleikum vegna þess, að varahlutir eru ekki ætið við hendina og þarf kannske að fá þá langt að og jafnvel frá útlöndum. Mér dettur dæmi í hug í þessu sambandi um hv. þm. Ak. Hann fór héðan í bíl, sem bilaði á leiðinni. En af því að hann hafði verið svo hygginn að kaupa algenga teg., gekk honum greiðlega að ná í varahlut og gat haldið áfram ferð sinni. Þetta er einmitt örugg vörn gegn því, að menn glæpist á að kaupa margar teg., því að vöntun eins lítils varahlutar getur valdið stöðvun á atvinnurekstrinum, og menn vilja ógjarnan brenna sig á því soði. Hinsvegar er sjálfsagt að búa svo um, að landsmönnum standi opið að hagnýta sér það, hvenær sem fullkomnari teg. kemur á markaðinn. En fyrir það er girt að meira eða minna leyti með einkasölufyrirkomulaginu. Það sýnir reynslan af viðtækjaeinkasölunni, sem bindur sig við þær verksmiðjur sem hún byrjaði að skipta við, og hleypir ekki að fullkomnari og ódýrari tækjum, sem nú eru komin fram. Einkasala er þannig eigi aðeins líkleg til þess að gera atvinnureksturinn erfiðari og ágóðaminni, heldur stuðlar hún að því, að við fáum ekki staðizt samkeppnina við nágrannaþjóðir okkar.

Hv. frsm. minni hl. var að tala um, hve varahlutir væru afskaplega dýrir. Hv. þm. Vestm. hefir raunar svarað því að nokkru leyti og sýnt, að sú tilgáta hv. 1. landsk., að hátt verð á varahlutum væri því að kenna, að umboðsmenn notuðu aðstöðu sína til að selja þá okurverði, hefir við engin rök að styðjast. Þessi tilgáta er auðvitað hin mesta fjarstæða. Þetta sýnir, hve fylgismenn þessa frv., bæði hæstv. ráðh. og aðrir stuðningsmenn, hafa aflað sér furðulega lítilla upplýsinga um þetta mál. Það ætti a. m. k. að mega krefjast þess af hæstv. stj., sem ber fram frv. sem þetta, að hún hefði áður en hún bar það fram aflað sér einhverra upplýsinga um málið, t. d. um það, hvers vegna verð á varahlutum til þessara tækja, sem hún ætlar að byrja að verzla með, er svo hátt. Það hefir verið upplýst í umr., og ég geri ráð fyrir, að hæstv. ráðh. hafi gert grein fyrir því áður, að mjög mikill þáttur þeirrar verzlunar, sem hér um ræðir, að ríkið taki að sér, er einmitt útvegun, verzlun og meðferð þessara varahluta. Það má gera ráð fyrir því, að sala á vélum og bílum verði með nokkuð svipuðum hætti og salan hefir verið, og hv. 1. landsk. lét skína í það, að komið gæti til mála jafnvel, að þessi einkasala ríkisins, sem á nú að taka að sér þessa verzlun, yrði ekkert annað en umboðsverzlun með þessa hluti, bíla og vélar og annað, sem hér er um að ræða. Það þýðir það, að það þarf aldrei að liggja með birgðir svo teljandi sé af vélunum sjálfum, en hitt er alveg eins víst, að einkasalan verður að afla sér geysilegra birgða af allskonar varahlutum til allra þessara véla, og það hefir í för með sér miklu meiri kostnað, fyrirhöfn og umstang en þessir fylgismenn frv., sem um þetta hafa talað, gera sér nokkra hugmynd um.

Það má dálítið ráða af því, sem hv. 1. landsk. talaði um viðvíkjandi þessu fyrirbrigði, hvað þessir varahlutir eru dýrir. Hann sagði, að ef einhver ákveðin bílateg. væri sett saman hér úr varahlutum, þá yrði hún e. t. v. helmingi dýrari en bilar, sem koma heilir frá verksmiðjum. Þetta stafar af því, hve varahlutirnir eru seldir háu verði. En þetta er sem sagt mjög eðlilegt. Verksmiðjur, sem framleiða bifreiðar og mótorvélar, vita nokkurn veginn, hve mikið þær geta selt, t. d. árlega. Þær framleiða því þá teg. véla eða bifreiða, sem selst á tiltölulega skömmum tíma. Aftur á móti er síður hægt að vita, hve mikið af varahlutum þarf til þess að fullnægja eftirspurninni ettir þeim. Það stendur í sambandi við það t. d., hve fljótt vélarnar gengju úr sér, hve lengi þær eru notaðar, hve lengi er reynt að lappa upp á þær gömlu og hve vönduð meðferðin er á þeim. Hinsvegar útheimtir geymsla þessara hluta mjög mikla fyrirhöfn. Það verður t. d. að geyma hvern hlut á sínum stað, hafa bækur yfir þá, mikið mannahald og eftirlit með því, að alltaf sé hægt að ganga að hverjum hlut á sinum stað, án þess að mikil leit þurfi að koma til. Þannig er þetta ekki einungis hjá verksmiðjunum, heldur einnig hjá hverjum einstökum umboðsmanni um heiminn. Þetta veldur því, að varahlutir, sem legið er með mikið af frá ári til árs, verða miklu dýrari, bæði vegna þessarar geymslu og umsjónar með þeim, vöxtum af verði því, sem í þeim liggur, o. s. frv. Þessir hlutir ganga úr sér við geymslu og verða ónýtari. Þess vegna fer því svo fjarri, að það sé neitt furðulegt, að vélar, sem settar eru saman úr varahlutum, séu dýrari en þær, sem koma tilbúnar beint frá verksmiðjunni sjálfri.

Þessi hörmulega fáfræði og vanþekking af hálfu hæstv. stj., sem frv. ber fram, og annara stuðningsmanna frv., er nóg ástæða til þess að vísa frv. aftur heim til föðurhúsanna til nánari athugunar og rannsóknar.

Hv. þm. V.-Ísf. talaði um þetta mál í gær af talsverðri skynsemi, enda þótt kunnugt sé, að hann sé ekki „principielt“ mótfallinn ríkiseinkasölu á ýmsum sviðum. Hann benti m. a. á einn ágalla, sem verður á slíkum verzlunarrekstri, sérstaklega hvað snertir mótorvélar. Þær eru, eins og kunnugt er, að mestu leyti seldar til fiskiskipa. Það er líka kunnugt, með hvaða hætti þeir útgerðarmenn, sem slík skip gera út, fá fé til þess að afla sér slíkra tækja. A. m. k. er það mjög almennt, ef ekki algild regla, um kaup á mótorvélum eða mótorbátum, ef þeir eru keyptir tilbúnir með vélunum, að verksmiðjan, sem vélarnar smíðar, veitir kaupanda borgunarfrest um lengri eða skemmri tíma. Ég etast um, að hægt væri að halda þessum verzlunarmáta áfram, eftir að búið er að koma á ríkiseinkasölu á þessum hlutum. Ég geri ráð fyrir, að þessar verksmiðjur, sem áður hafa selt einstaklingum framleiðsluvörur sínar með þessum hætti og veitt þeim greiðslufrest, mundu segja sem svo við ríkiseinkasöluna: fyrst ríkiseinkasala er komin á fót á þessu sviði, þá er vitanlega sjálfsagt, að hún beri a. m. k. ábyrgð á skilum slíkra skulda sem hér er um að ræða.

Eins og nú er ástatt um afkomuhorfur vélbátaútvegsins, er ég smeykur um, að ef einkasalan ætti að taka á sig þá áhættu, sem fylgir slíkri lánveitingu, þá gæti það orðið til þess að höggva skarð í þá tekjuvon, sem hægt er að gera sér um þessa verzlun, því að ágóðinn af hverri vél er ekki lengi að ganga til þurrðar, ef svo og svo mikið af andvirði þeirra tapast hjá kaupendum. Ég geri ráð fyrir, að sama sé að segja um þetta eins og svo margt annað í sambandi við þetta, að hvorki hæstv. stj. né fylgismenn hennar hafa gert sér glögga grein fyrir því, hvernig útkoman af þessari verzlun mundi verða að þessu leyti. Ég vil því taka undir með hv. þm. V.-Ísf., að þetta atriði málsins eitt sé þess eðlis, að það gefi fullkomna ástæðu hvað svo sem öðru líður í þessu sambandi, til þess að hugsa sig tvisvar um áður en lagt verður út í stofnun slíks fyrirtækis fyrir ríkisins reikning. Ég mun hafa látið þess getið við 1. umr. þessa máls, að ef til vill væri meiri hagnaður af verzlun með þær vöruteg., sem taldar eru upp undir staflið d í 1. gr. frv., sem sé verzlun með rafmagnsvélar og allt þessháttar. Ég hefi aflað mér þeirra upplýsinga því viðvíkjandi, að ég þori að fullyrða, að fjarri fari því. Það er kunnugt, að einkasala á rafmagnsvélum og áhöldum hefir alla þá ókosti til að bera, sem einkasölur með aðrar teg. hafa. Í framleiðslu þessara tækja eiga sér stað mjög miklar endurbætur og framfarir. Tækin verða alltaf fullkomnari og fullkomnari með hverju árinu, sem líður, og fullnægja því alltaf betur og betur kröfum manna í þessu efni.

Hvað tillit til smekks manna viðvíkjandi þessum tækjum snertir, má e. t. v. segja, að slíkt skipti engu, og að einkasalan hafi samt aðstöðu til þess að koma út sínum vörum, hvað sem smekk manna á þeim liður. Um þetta er það að segja, að menn verða þá nauðugir viljugir að kaupa þau tæki, sem einkasalan hefir á boðstólum, hvort sem þeim líkar útlit tækjanna betur eða verr. Slíkt er að vísu ekki veigamikið atriði í þessu sambandi. Hitt er vitanlega miklu alvarlegra atriði, ef svo fer sem gera má ráð fyrir, að einkasalan fylgi ekki þeim framförum, sem upp koma á þessu sviði. Þetta hefi ég bent á áður í sambandi við viðtækjaverzlunina, og þarf ég því ekki að fara fleiri orðum um þetta atriði. En þar sem talað er um, að einmitt þessar vörur muni gefa mikinn arð, þá vil ég segja það, að sú reynsla, sem hefir fengizt í því efni, bendir þvert á móti í gagnstæða átt, ef ekki er gert ráð fyrir því, að verð þessara vara hækki til mikilla muna.

Ég hefi aflað mér upplýsinga um það, að verðlagið á þessum vörum er lægra hér en t. d. á öðrum Norðurlöndum. Heildsöluverð á rafmagnstækjum er mun lægra hér en annarstaðar á Norðurlöndum. Það er líka kunnugt, að hér hafa verið stofnuð fyrirtæki, sem verzla með þessar vörur, en reynslan hefir sýnt og sannað, að þau fyrirtæki hafa ekki skilað miklum arði í hendur eigendanna. Hvernig er þá hægt að búast við því, að slík verzlun í höndum ríkisins gefi stórar tekjur af sér, án þess að verðið hækki beinlínis?

Mér skilst af yfirlýsingum stuðningsmanna þessa frv., að einkasalan eigi að vera almenningi trygging fyrir því, að þessar vörur, sem hér um ræðir, verði seldar við hæfilegu verði og a. m. k. ekki dýrari en tíðkazt hefir.

Ég veit, að það er óþarfi að benda hv. frsm. minni hl., hv. 1. landsk., á einstök dæmi um verzlunarfyrirtæki, sem verzlað hafa með rafmagnstæki, er ekki hafa safnað auði á síðustu árum. Hann er þessu vitanlega jafnkunnugur og ég.

Ég veit, að margt fleira mætti um þetta mál segja, sem í rauninni væri æskilegt, að menn gerðu sér glögga grein fyrir í þessu sambandi, þar sem um það er að ræða, að ríkið taki að sér svo víðtækan rekstur sem þetta frv. gerir ráð fyrir. En eins og ég tók fram í upphafi máls míns, játa ég hreinskilnislega, að mig brestur mjög næga þekkingu á þessu sviði til þess að geta gefið tæmandi upplýsingar um alla þá annmarka, sem gera má ráð fyrir, að verði á ríkisrekstri á þessari verzlun. En þar sem um svo þýðingarmikið mál er að ræða, væri í rauninni mjög nauðsynlegt, að leitað væri upplýsinga og umsagnar út fyrir hv. þing til þeirra manna, sem ætlast mætti til, að hefðu mesta reynslu fyrir sér í þessum efnum, svo að hv. þdm. stæðu betur að vígi um að mynda sér skoðun á málinu, því að ég verð að játa, að þess er ekki að vænta, að hv. þm. geti af sinni eigin þekkingu myndað sér neina ábyggilega skoðun á því, hvort slík fyrirtæki sem hér um ræðir séu líkleg til þess að gefa góðan árangur í höndum ríkisins.

Ég mun e. t. v. bera fram till. við síðustu umr. málsins, þess efnis, að leitað sé umsagnar þeirra, sem mesta þekkingu á þessum málum hafa.

Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. geti verið þessu mótfallnir, því að vitanlega verður hver um sig að játa ófullkomleika sinn og þekkingarskort í þessu efni. Sérstaklega tel ég nauðsynlegt, að sem nákvæmastra og ýtarlegastra upplýsinga sé aflað í þessu skyni, þegar tekið er tillit til þess, að svo og svo margir menn, sem stundað hafa slíka verzlun og lagt mikla fyrirhöfn og mikið fé í hana, tapa að öllum líkindum þessari vinnu, ef ríkiseinkasala kemst á.

Ég tel það blátt áfram skyldu hv. þm. að taka ekki ákvörðun um svo veigamikið mál, án þess að leita allra þeirra upplýsinga og allrar þeirrar fræðslu, sem kostur er á.