12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2710 í B-deild Alþingistíðinda. (3841)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Ólafur Thors:

Þetta mál er eitt af þeim vandasömustu, sem fyrir Alþ. liggja nú. Því verður ekki neitað, að það eru mjög margir, sem eiga nú þegar mikið undir því, að vel skipist um síldarsöluna. Og ég treysti mér ekki til að þvertaka fyrir, að í þessu máli kunni að vera einhver þörf fyrir nýja löggjöf. Ég vil lýsa því hér yfir, að ég tel, að það standi allt öðruvísi á um síldarsöluna og síldarútveginn yfirleitt heldur en um sölu á þorskinum, af því að bæði gömul og ný reynsla hefir sýnt, að síldarútgangurinn gengur skrykkjótt og að síldarsultendum hefir gengið mjög misjafnlega vel að selja síldina; og sérstaklega illa að koma á samtökum sín á milli, þó að þau hafi verið viðurkennd nauðsynleg.

Ég hefi leitazt við, á milli umræðna, að kynna mér skoðanir og till. þeirra manna, sem við þennan atvinnuveg eiga að búa. Og ég játa, að ég hefi rekið mig á mjög mismunandi skoðanir meðal þeirra í þessu efni, þannig að það er ákaflega erfitt að mynda sér skoðun á því, hvers meiri hl. þeirra óskar. En þó mun fyrri reynsla í þessari atvinnugrein sýna það og sanna, að mistök þau, sem orðið hafa um sölu á síldinni, hefðu orðið miklu minni, ef síldarútvegsmenn hefðu haft almenn samtök sín á milli. Þetta hefir reynslan sannfært mig um. En þó að þessu sé nú þannig háttað, þá er mér hitt einnig í fersku minni, að afskipti hins opinbera af þessum atvinnurekstri hafa leitt til afskaplegrar örbirgðar, ekki einasta fyrir sjómenn og útgerðarmenn, heldur til óbætanlegs tjóns fyrir þjóðina yfirleitt. Og jafnvel þó ég verði að viðurkenna, að oft hafi tekizt miður en skyldi um sölu á síldinni hjá einstökum útgerðarmönnum, þá held ég, að það verði játað af flestum, að aldrei hafi skort jafnmikið á um sæmilega sölu á síldinni eins og þegar farið var með hana samkv. fyrirmælum og l. frá Alþ., er sett voru um einkasölu á síldinni. Og endurminningin um reynsluna af þeirri lagasetningu hvetur til varfærni nú af hálfu Alþ.

Það hefir margoft verið sagt frá því í þessari hv. þd., að síldareinkasalan fór svo illa úr hendi, að eftir að hún var búin að féfletta alla síldarútvegsmenn og sjómenn, þá varð hún sjálf gjaldþrota og lagði þungar byrðar á ríkissjóð, sem ekki hafa enn verið greiddar. Þessi reynsla um hinar hörmulegu afleiðingar af afskiptum ríkisvaldsins í þessu efni hlýtur að vaka í hugum hv. þdm. og hafa mikil áhrif til þess að draga úr þeim um nýja lagasetningu á þessu sviði. Í fyrra var stofnað til sölusamtaka meðal síldarútflytjenda um sölu á léttsaltaðri síld, sem flestir munu játa, að hafi orðið til mikilla bóta og velfarnaðar, þó að eitthvað kunni að hafa verið ábótavant. Og ég vil fyrir mitt leyti helzt reyna að takmarka löggjöfina við það eitt, að hún veiti síldarútvegsmönnum hæfilegt aðhald um að koma á nauðsynlegum samtökum sín á meðal um sölu á síldinni, en beiti engum þvingunarráðstöfunum.

Þetta frv. á þskj. 534 er því ekki aðgengilegt frá mínu sjónarmiði. Ég held, að þar sé gengið lengra en þörf er á til þvingunar, og lengra en ég þori að fara. En hinsvegar eru þær brtt., sem fram eru komnar, fyrst og fremst brtt. frá hv. þm. Vestm. á þskj. 701, allar til bóta, og mun ég fylgja þeim öllum. En ég er aftur á móti ekki viss um, hvort þær ganga nægilega langt í þá átt, sem ég tel rétt, að haldið verði. Og mun ég, ef þær verða samþ., leitast við að koma á framfæri í Ed. þeim viðbótartill., sem ég tel nauðsynlegar, svo að þessu frv. verði komið í viðunandi horf. Sérstaklega legg ég áherzlu á, að samþ. verði 2. brtt. á þskj. 701, við 4. gr. frv., og e. t. v. einkum og sérstaklega 4. brtt., sem fer fram á, að 11. gr. frv. falli niður; en hún fjallar um heimild til að stofna einkasölu á síld, eins og kunnugt er.

Af þeim öðrum brtt., sem fyrir liggja, vil ég sérstaklega gera að umtalsefni till. frá hv. þm. Borgf. á þskj. 723. Ég held, að allir sanngjarnir menn verði að viðurkenna þau rök, sem hv. þm. færði fyrir máli sínu, og hljóti að sjá, að hann fer ekki fram á annað en það, sem rétt er og augljós sanngirni mælir með. Og ég hygg, að það sé rétt fyrir þá menn, sem af einlægum huga vilja vinna fyrir þetta mál, að gæta þess vel, að beita engri ósanngirni um yfirráðin á valdsviði þessa máls. Ég tel engan vafa á því, að brtt. hv. þm. Borgf. tryggir það betur en ákvæði frv. sjálfs, og mæli ég þess vegna eindregið með henni.

Ég get efnislega verið samþykkur brtt. hv. 6. landsk., sem mun þó vera eitthvað skakkt felld inn í frv., en það má leiðrétta síðar, ef hún verður samþ. Ég hygg, að það sé einnig óhætt að samþ. brtt. hv. þm. Ísaf., um að færa hámarksákvæði í 4. gr. úr 80% niður í 75%.

Ég geri ekki ráð fyrir, að undir þessum kringumstæðum sé hættulegt, að þeir menn, sem hafa 3/4, hafi rétt til að knýja hina, sem hafa aðeins 1/4, til fylgis við þær ráðstafanir, sem talið er nauðsynlegt að gera til hagsbóta og sameiginlegs framdráttar öllum þeim, sem hlut eiga að máli.

Ég vil ekki að svo komnu máli ljá þessu frv. fylgi mitt, enda þótt allar þær breyt., sem fyrir liggja, yrðu samþ.

Ég vil svo að lokum gera þá skyldu mína, að lýsa yfir því, að mér hefir borizt mótmælaskeyti frá allmörgum Siglfirðingum um þetta mál. Það er óþarfi að lesa það hér upp, af því að hv. þm. Vestm. hefir þegar gert það.