12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2717 í B-deild Alþingistíðinda. (3845)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. sagði, að mér hefði láðst að geta þess, að 4 af þeim skipum, sem gerð voru út á síld síðastl. ár, hafi ekki saltað neitt af afla sínum. Hann sagði raunar, að þau hefðu verið sex, en það er ekki rétt, en hitt mun rétt vera, að 4 af þeim 8 togurum, sem gerðir voru út á síld, hafa látið allan afla sinn í bræðslu. Hinir togararnir fjórir létu allir nokkurn hluta af afla sínum í söltun. Það eru því aðeins fjögur skip, sem til frádráttar koma.

Hv. þm. gekk framhjá þeim aðalrökum, sem ég flutti fyrir því, að réttur Sunnlendinga væri fyrir borð borinn með tilhögun þeirri, sem í frv. felst. Það er þá fyrst til að taka, að þau skip af Suðurlandi, sem stunda síldveiðar við Norðurland, eru yfirleitt stærri en norðanskipin. Þau hafa þar af leiðandi aðstöðu til þess að afla meira. Og hér verður ekki hægt að ganga framhjá því, að taka tillit til aflamagnsins. Hinu gekk hv. þm. Ísaf. einnig framhjá, að ég sýndi fram á það, að yrði aukinn síldarútvegurinn hér við land á næstu árum, væri þeirrar aukningar að vænta af Suðurlandi. Þar eru til taks 40 skip í viðbót við þann flota, sem síldveiðar stundaði síðastl. sumar. Þetta þykja mér vera nægar ástæður fyrir því, að Sunnlendingar fái tvo menn af þeim fjórum, sem útgerðarmenn skipa í n., Norðlendingar og Vestfirðingar sinn hvor, og er þá að vísu Vestfirðingum gert langhæst undir höfði, því að þeir eru ekki einu sinni hálfdrættingar á við hina landshlutana tvo, um þátttöku í útgerðinni. Ég hefi þó alls ekkert viljað skerða réttindi þeirra til íhlutunar um þessa n.

Hv. þm. Ísaf. færði það sem rök fyrir því, að réttur Norðlendinga væri svo ríkur sem frv. gerir ráð fyrir, að á Norðurlandi væri mikill fjöldi síldarsaltenda, sem engan atkvæðarétt á að hafa um þetta samkv. frv. Ég vil í því sambandi benda á, að ekki eru allir síldarsaltendur á Norðurlandi Norðlendingar, þó að þeir séu það sennilega flestir. En mér þykir það undarlegt, að hv. þm. Ísaf. skuli bregða fyrir sig þessum rökum og þykjast vilja viðurkenna rétt síldarsaltenda til íhlutunar um þetta mál, en neitar í sömu andránni að taka til greina mótmæli gegn frv., sem þessir menn hafa sent Alþ. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. fer að koma því saman.

Fleiri orð held ég, að ég þurfi ekki að hafa til andsvara hv. þm. Ísaf. Brtt. felur sjálf í sér, að réttmætt og sanngjarnt sé að samþ. hana og hafa þá skipun heldur, sem hún segir til.

Þótt ég ætlaði mér ekki að ræða mál þetta frekar en ég nú hefi gert, kemst ég ekki hjá því að benda á játningu, sem hv. þm. Ísaf. gerði í lok ræðu sinnar. Hann komst svo að orði um þá einkasölu, sem í þessu frv. felst, að hún ætti að vera hræða, — svipa á þá menn, sem við síldarútveg fást og sölu. Hún ætti að vera ógnandi sverð, sem vofði yfir höfðum þessara manna, ef þeir ekki hefðu samtök um söluna og vildu hlíta fyrirmælum síldarsölunefndarinnar. Játning þessi felur það að líkindum í sér, að svona sé því varið með einkasölur yfirleitt, þær séu svo illar og bölvaðar í alla staði, að þær eigi engan rétt á sér. Og þetta er rétt, þannig eru einkasölurnar, alstaðar grípandi inn í frjáls viðskipti einstaklinganna til ills og bölvunar. En mig undrar það, að hv. þm. Ísaf. skuli, þrátt fyrir þessa yfirlýsingu, vera stuðningsmaður alls þess fjölda af einkasölufrv., sem nú liggja fyrir þessu þingi, fyrst hann lítur svo á, að einkasölur séu bara nokkurskonar hræður. Ég bið hv. þm. að athuga þetta, og vonast til þess, að hann, í samræmi við þessa yfirlýsingu, hjálpi okkur sjálfstæðismönnum til að kveða þessa einkasöludrauga niður.