19.12.1934
Efri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2727 í B-deild Alþingistíðinda. (3860)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Magnús Guðmundsson:

Ég lít á frv. það, sem hér liggur fyrir, sem hálfbróður frv. um meðferð saltfiskjar. Vitanlega er ég jafnt á móti þessu og hinu.

Ég hygg, að útgerðarmenn hafi alls ekki óskað eftir l. í þessa átt, sem hér er farið fram á. Ég veit ekki betur en að fyrir liggi sterk mótmæli gegn þessu frv. frá útgerðarmönnum víðsvegar af landinu. Það er rétt, sem hv. 4. þm. Reykv. tók fram, að útgerðarmenn væru ekki eini aðilinn í þessu sambandi, heldur einnig sjómannastéttin. En ég efast um, að sjómenn telji sig yfirleitt hafa borið svo mikið úr býtum meðan síldareinkasalan sál. var við lýði, að þeir séu fíknir í að fá svipað fyrirkomulag á þessa vöru aftur. (SÁÓ: Hér er ekki um neina síldareinkasölu að ræða). Fljótt á litið ekki, því að hún er vafin inn í margfaldar umbúðir í þessu frv. Það er vissulega góðra gjalda vert og sýnir ljóslega, að hv. flm. þessa frv. vita, að síldareinkasalan er ekki sérlega vinsæl, eins og nú stendur, enda er ekki við öðru að búast, þegar tekið er tillit til þess, með hverjum ósköpum hún skildi við þennan heim. Það hefði a. m. k. mátt búast við því, að hún fengi að kólna í gröfinni, áður en farið yrði að gera tilraun til þess að vekja hana upp aftur frá dauðum. Enn er þrotabúinu óskipt, og maður veit ekki enn, hve mikið ríkissjóður þarf að greiða. Það verður a. m. k. ekki undir 1 millj. kr., og þó segja fróðir menn, að minnstur skaðinn af þessari einkasölu sé fólginn í þessari 1 millj., því að miklu meira hafi farið til spillis á mörkuðunum erlendu.

Síldareinkasalan kenndi Svíum að veiða hér við land miklu meir en þeir áður höfðu gert, og ég sé ekki betur en að hér eigi að reyra alla saltsíld í svo mikinn dróma, að varla verði unnt að snúa sér við.

Þessi n. á að hafa með höndum úthlutun útflutningsleyfa og veiðileyfa. Það má ekki einu sinni fara út á sjó í friði til þess að veiða síldina, nema n. gefi leyfi til þess. Hún á ennfremur að úthluta söltunarleyfum. Ég hefði nú haldið, að það nægði að fá leyfi til að veiða síldina, og að ekki þyrfti að sækja um leyfi til þess að fá að salta hana á eftir. Ég get ekki skilið, til hvers á að veiða síldina til verkunar, ef það er ekki gert til þess að salta hana. Svo þarf leyfi til þess að flytja síldina út. Ég hefði haldið, að flestir veiddu síld til söltunar og útflutnings, og þetta gæti því verið í einn lagi. Svo má ekki gleyma því, að það á að leggja 2% skatt á andvirði síldarinnar. Öllum er svo bannað að bjóða síld til sölu erlendis o. s. frv., sem ég skal ekki fara nánar út í að sinni. Ég held, að við ættum að muna, hvernig Svíar tóku einkasölu hér hjá okkur 1928. Því ættum við sannarlega að fara varlega í að sýna þeim aftur þennan gamla draug, en það er einmitt gert með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Því verður ekki neitað með nokkurri sanngirni.

Ég hefi haft lítinn tíma til þess að athuga brtt. hv. meiri hl., en samt geri ég ráð fyrir að greiða atkv. með þeim. Það mun ég samt ekki gera af því, að ég sé svo hrifinn af því fyrirkomulagi, að pólitískir flokkar séu látnir kjósa í stj. þessarar síldarútvegsn., heldur af því, að mér virðist vafamál, að málið fari í gegn, ef þessi breyt. verður samþ. hér.

Ég get ekki skilið, hvers vegna ekki mátti fara eftir óskum útgerðarmanna í þessu efni, að hafa ekki fast skipuleg á grófverkaðri síld. (SÁÓ: Það er hægt að undanskilja hana. Það er á valdi n. að gera það). Menn geta svo sem sagt, að þetta sé á valdi n., en ég fæ ekki skilið, hvers vegna verið er að veita n. þetta vald í hendur, þar sem útgerðarmenn eru yfirleitt á móti því. Sjómenn óska ekki heldur eftir þessu, svo kunnugt sé.

Ég ætla ekki að tefja tímann lengur; ég vildi aðeins láta mína skoðun á málinu í ljós.