21.12.1934
Neðri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (3865)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér þykir leitt, að hv. form. sjútvn. er ekki viðstaddur. Ég ætlaði að fá upplýsingar hjá honum í sambandi við þetta mál. (Forseti (JörB): Ég skal gera ráðstafanir til þess að ná í hann). Þegar þingstörfin eru orðin að annari eins þrælkunarvinnu og nú á sér stað, er þess varla að vænta, að þm. geti fylgzt fullkomlega með hverri smábreyt., sem gerð er á frv. í hinni deildinni. Nú er þetta frv., eins og hv. þdm. vita, komið hingað aftur frá hv. Ed., og voru þar gerðar á því breyt. Að sjálfsögðu er það hlutverk þeirrar n., sem um málið fjallar, að athuga, hvaða breyt. eru gerðar á því í hinni d., og sú skylda hvílir á n. að gera grein fyrir þeim breyt., sem gerðar hafa verið. Af þessum ástæðum væri gott, að hv. form. sjútvn. væri hér viðstaddur, hann sem jafnframt hefir verið frsm. hv. meiri hl. n. í þessu máli. Það, sem ég vildi spyrja hv. form. sjútvn. um, sem ég sé að er nýkominn inn í d., var viðvíkjandi matjessíldarsamlaginu. Eins og ég hefi áður tekið fram í þessari ræðu, væri mjög æskilegt, að hv. form. sjútvn. og frsm. meiri hl. n. í þessu máli vildi gera grein fyrir þeim breyt., sem gerðar voru á þessu frv. í Ed. Þegar liðið er svo langt á þingtímann, og hv. þm. eru uppteknir við þingstörf allan daginn og jafnvel mestallan sólarhringinn, þá er þess varla að vænta, að hver einstakur þm. fylgist með hverri smábreyt., sem gerð er á frv. Þess vegna er nauðsynlegt, að þær n., sem málin hafa til meðferðar, geri grein fyrir þeim breyt., sem gerðar hafa verið.

Nú vil ég spyrja hv. form. sjútvn., sem einnig er í stj. matjessíldarsamlagsins, sem hefir haft með höndum einkasölu á matjessíld á þessu ári, hvernig viðhorfið er með sölu á þeirri síld, sem samlagið hefir haft með höndum á þessu ári, sem nú er að enda. Sumir fullyrða, að nokkur tvísýna sé á því, hvernig fara muni um sölu á töluverðum hluta af þessari matjessíld, sem söltuð var á síðustu vertíð og samlagið hefir einkasölu á. Sá orðrómur gengur manna á meðal, að viðskiptamenn samlagsins í Póllandi, sem samið höfðu um kaup á töluverðu magni af þessari síld, muni ekki vera það ábyggilegir í þessum viðskiptum, að vissa sé fyrir því, að þeir muni standa við gerða samninga. Það er sagt, að þessir menn, sem náð hafa samningum við samlagið, séu ekki reglulegir síldarkaupmenn, heldur einhverjir menn, sem hafi vegna þessarar aðstöðu, sem var um þessi viðskipti, komizt framhjá þeim reglulegu pólsku síldarkaupmönnum, hafi náð samningum við matjessíldarsamlagið, í fullu missætti við síldarkaupmennina í Póllandi. Ég fyrir mitt leyti fullyrði þetta ekki, en bið hv. form. sjútvn. að upplýsa það fyrir hv. þdm.

Menn segja, að af þessum ástæðum séu þessir menn komnir í einhverjar ógöngur með að standa við þessa samninga og ætli að reyna að komast undan þeim. Þeir hafa að vísu sett tryggingu fyrir viðskiptunum að einhverju leyti.

Ég tel nauðsynlegt, að upplýst sé fullkomlega, hverju fram vindur um söluhorfur og framkvæmdir þessa samlags, sem gera má ráð fyrir, samkv. frv. því, sem hér liggur fyrir, að eigi að fara með síldarsöluna framvegis. Ég áskil mér svo að lokum rétt til þess að taka aftur til máls, að fengnum umræddum upplýsingum um þetta mál.