13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2742 í B-deild Alþingistíðinda. (3880)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Eins og ég gat um við 1. umr. málsins, þá hefi ég fallizt á það, og það var samkomulag um það í samgmn., að gengið yrði inn á þessa braut, sem frv. fer fram á. Við teljum allir tímabært að gera nokkra gangskör að því að koma bifreiðaferðunum í fast horf, en eins og fram kemur hjá minni hl. samgmn., þá telur hann, að frv. hafi verið valið skakkt heiti, „fólksflutningar á landi“, í stað þess, að hér er um að ræða fólksflutninga með bifreiðum einungis, og flytjum við brtt. að þessu lútandi. Þá er það rétt, sem getið hefir verið um af hv. frsm. meiri hl., að minni hl. hefir ekki getað orðið sammála hinum hlutanum um það, hvernig fara ætti með þetta mál og hvernig ætti að „regulera“ þessa flutninga, í hvaða horf ætti að færa þessar samgöngur, og þeir hv. þdm., sem lesa brtt. og hlýða á mál mitt — þeir eru nú ekki yfrið margir —, geta séð, að stefnumunur er hér, og ekki óverulegur í sumum atriðum. Minni hl. hefir talið rétt að taka þessa fólksflutninga yfirleitt fastari tökum en frv. sjálft gerir. Við teljum, eins og brtt. á þskj. 340 við 1. gr. frv. bera með sér, að þurfa skuli leyfi til þess yfirleitt að hafa með höndum fólksflutninga með bifreiðum. Það er að vísu sagt, að fyrir slík leyfi skuli ekkert gjald greiða, og getur þó undantekning komið þar til með póstflutninga, en það verður þá við sérleyfi. En þessi alm. leyfi eru einskonar atvinnuleyfi, sem allir þeir þurfa að fá hjá hlutaðeigandi lögreglustjóra, í samræmi við önnur atvinnuleyfi, sem ætla sér að annast þessa flutninga. Við teljum rétt að fara þegar inn á þá braut, að félög, fyrirtæki eða einstaklingar geti ekki lagt þessa atvinnu fyrir sig nema að fengnu leyfi. Er það í fyrsta lagi vegna þess, að rétt þykir að hafa einhverjar reglur um það, hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að slíkt leyfi fáist. Við teljum t. d. allskostar ósambærilegt að flytja vörur og flytja fólk. Það kemur í ljós í 2. brtt. okkar, þar sem fjallað er um, að almennt leyfi á lögreglustjóri að veita, en skilyrðin fyrir þessu alm. leyfi á að setja með reglugerð, og verður væntanlega gert. Það, sem við eigum við, er aðallega öryggi hvað snertir bifreiðarstjóra og farartækið. En undantekning frá þessum l. er í till. okkar, eins og hjá hv. meiri hl. Meiri hl. tók hana uppi í sínar till., en það er með vörubifreiðarnar, sem endrum og sinnum eru e. t. v. útbúnar til þess að flytja fólk. Það getur komið sér vel, þegar fólk vill fara í ódýrar skemmtiferðir með bifreiðum, sem ella eru ekki notaðar til fólksflutninga. Þykir því rétt, að ekki þurfi leyfi til slíks. Þetta er nýtt ákvæði, og einnig hitt, sem fram kemur undir b-lið (ný 3. gr.), undir hvaða kringumstæðum á að veita sérleyfi, og ákveður, að það eigi að veita fólksflutningabifreiðum, sem fara fastar áætlunarferðir á ákveðnum leiðum, og það, hvenær skuli veita leyfið, er í samræmi við frv. sjálft. Það er einungis nákvæmara í brtt. hjá okkur og ekki bundið við vissa stæri, heldur skuli það veita öllum bifreiðum í föstum ferðum á ákveðnum leiðum. Við höfum ekki séð neina ástæðu til að tiltaka stærð bifreiðanna í þessu skyni, heldur einmitt, sem meiri hl. líka féllst á, að setja ákvæði um að bifreiðarstjórar stærri bifreiðanna skyldu fullnægja öðrum skilyrðum. Um þetta er brtt. undir f-lið við á. gr., sem verður 7. gr.

Brtt. minni hl. felur það í sér, að bæjarstj. verði gefin heimild til þess að veita sérleyfi til fólksflutninga með leigubifreiðum í áætlunarferðum, innanbæjar og um nágrenni bæjarins. Slíka heimild hefir vantað, því að þótt einu félagi í Rvík hafi verið veittur nokkurskonar einkaréttur á slíkum flutningum, hefir það ekki verið gert samkv. sérstöku lagaákvæði, heldur með þeim almenna rétti, sem bæjarstjórnirnar hafa til þess að ráða innanbæjarmálum. En hvað viðvíkur flutningi milli tveggja nærliggjandi bæja, er gert ráð fyrir samkomulagi milli viðkomandi bæjarstjórna um veitingu sérleyfis. Hér eru auðvitað fyrst og fremst Rvíkurbær og Hafnarfjarðarkaupstaður hafðir í huga. Náist ekki samkomulag milli bæjarstjórnanna, er ráðh. ætlað að skera úr. — Þá er svo fyrir mælt, að sýslunefndir skuli veita sérleyfi til þessara flutninga, sem fram fari innan takmarka sýslunnar. En eftir sem áður eru aðalsérleyfin veitt af ráðh., nefnilega leyfi til allra langferða, þar sem farið er yfir fleiri sýslur. Ég get þess, að þótt slíkt fyrirkomulag sé nýtt hjá okkur, hefir það verið reynt annarsstaðar á Norðurlöndum, og þá fyrst og fremst í Noregi, en líka að nokkru leyti í Danmörku. Aðalreglan er sú, að fylkin og bæirnir ráða þessum málum innan sinna takmarka, en stjórnin ræður um langferðirnar. — Minni hl. n. sér ekki ástæðu til þess að binda yfirstjórn þessara mála við póstmálastjóra, og þykir eðlilegra, að vegamálastjóra sé falið að hafa hana á hendi, í samráði við póstmálastjóra, og berum við fram brtt. þess efnis. En þetta er aðeins fyrirkomulagsatriði og skiptir ekki miklu máli. Þó hefir okkur þótt rétt að gefa póstmálastj. heimild til þess að taka í sínar hendur póst- og mannflutninga með bifreiðum á ákveðnum leiðum. En eðlilegast er, að yfirstjórn þessara mála sé hjá vegamálastjóra. Það er öllum kunnugt, að stjórnirnar hafa haft hann sem ráðunaut í þeim málum, er snerta bifreiðar og flutninga með bifreiðum, og í samræmi við það leitaði n. álits hans, þegar ýmsir aðilar þessa máls voru spurðir ráða. Vegamálastjóri gaf rækilega umsögn um málið, enda hefir hann kynnt sér það manna bezt, og eru brtt. minni hl. n. að ýmsu leyti byggðar á umsögn hans. Strætisvagnafélag Rvíkur sendi líka umsögn um málið, og eru báðir þessir aðilar sammála um það, að rétt sé að hafa í þessum efnum sama fyrirkomulag og tíðkast annarsstaðar á Norðurlöndum, nefnilega að bæjarstjórnir ráði sérleyfum innan bæjar síns, en ríkisstj. á langleiðunum. Mér skildist á hv. form. skipulagsn., 2. þm. Reykv., að ef bæjunum væri áhugamál að fá þessi mál í sínar hendur, ættu þeir og yrðu að taka reksturinn á sínar herðar, og það er sú braut, sem hv. meiri hl. n. vill, að farin sé. En minni hl. sér enga ástæðu til þess að binda bæjunum þær byrðar, að skylda þá til að reka flutningana. Hv. þm. mun vera kunnugt um það, að þegar kom til mála að hefja þessa starfsemi hér í Rvík, auglýsti bæjarstj. eftir félögum, sem vildu taka að sér þessar ferðir. Og félag það, sem tók að sér ferðir þessar, hefir meira að segja verið styrkt af bæjarstjórninni beint með ýmsum hlunnindum, enda mun það hafa getið sér góðan orðstír. Og minni hl. n. sér enga ástæðu til að meina bæjarstj. að veita slíku félagi leyfi til rekstrar, og jafnvel veita því hlunnindi, ef vel líkar við það. — Hitt er annað atriði, hvort praktískt er að veita sýslunefndum sama rétt, og legg ég ekki mikið upp úr því.

Viðvíkjandi þeirri brtt. okkar, að sérleyfistíminn sé ákveðinn 4 ár, skal ég taka það fram, að forstjóri strætisvagnafélagsins hefir upplýst, að bifreiðar þær, sem hér um ræðir, endist í 4—5 ár. Ég skal, með leyfi hæstv. forseta, lesa það, sem stendur í bréfinu um þetta. Þar segir svo: „Hér ber að athuga, að yfirbygging þeirra bíla, sem hér eru byggðir, er svo dýr og vönduð, að áætla má, að hún endist í 4—5 ár, og er þá möguleiki að endurnýja vél og annað, sem undirvagni tilheyra, með tiltölulegum kostnaði. Myndum við því telja hæfilegri tíma 5 ár en 2, þar sem þetta ákvæði að öðrum kosti gæti dregið úr framtaki manna á þessu sviði“.

Mér þykir það mjög sanngjarnt að miða sérleyfistímann við endingu vagnanna, og því mælir brtt. okkar svo fyrir, að leyfistíminn skuli vera 4 ár. — Þá þótti okkur sjálfsagt að skylda sérleyfishafa til að nota þær tegundir og gerðir bifreiða, sem ráðh. telur í reglugerð, að fullnægi kröfum, sem setja verður til öryggis og þæginda farþegum. Svipaða brtt. hefir hv. meiri hl. líka tekið upp í sínar brtt. — Þá er d.-liðurinn. Þar leggjum við til, að póstmálastj. sé heimilt að taka í sínar hendur afgreiðslu bifreiða í fólksflutningum milli landsfjórðunga samkv. taxta, er um semur milli hennar og eiganda bifreiðar eða nefndar þeirrar, er um ræðir í 5. gr., þarna kemur póstmálastj. til, en að öðru leyti ekki mikið eftir till. okkar.

Eins og ég gat um í byrjun, sé ég ekki ástæðu til þess að láta sérstakar reglur gilda fyrir bíla, sem rúma minna en 6 farþega. En að svo stöddu hefir ekki náðst samkomulag í n. um þetta mál. Ég vil geta þess, að þótt n. hafi nú klofnað, vona ég, að hún geti haldið áfram að vinna að málinu, ef þeir, sem standa að ágreiningsatriðunum, taka nokkurt tillit hvor til annars. Ég get t. d. ekki fallizt á 6. gr. frv. eins og hún er nú. Þar er gert ráð fyrir því, að fargjöldum megi skipta milli sérleyfishafa eftir tölu sætakílómetra bifreiða þeirra, sem eru í förum þar, sem fleiri en einn aðili hefir fengið sérleyfi til fólksflutninga. Það er óhæfilegt að taka frá einum, sem uppfyllir allar skyldur sínar vel, til þess að umbuna öðrum. Veiting sérleyfis á ekki að vera nein náð og miskunn, heldur á að taka tillit til möguleika umsækjenda til þess að leysa starf sitt vel af hendi. Og sérleyfishafi má gjarnan hafa ágóða af því, að hann útbýr bíla sína betur, hefir viðkunnanlegri bílstjóra, o. s. frv., en keppinautur hans, sem miður stundar þetta. Og samkeppni á að fá að komast þar að.

Hv. meiri hl. n. hefir komið fram með brtt. um það, hvernig fara skuli með brot á þessum l., en það vantaði í frv. Um þetta atriði flytur minni hl. líka brtt., svo hljóðandi:

„Brot gegn lögum þessum og reglugerðum, er samkv. þeim verða settar, varða sektum frá 10 —500 kr., nema þyngri hegning liggi við eftir öðrum lögum, og skulu mál út af brotum á þeim sæta sömu meðferð og almenn lögreglumál“.

Þetta er í samræmi við ákvæði bifreiðal. um þetta atriði, og þótti okkur eðlilegra, að svo væri. — Aðrar brtt. okkar fara ekki fram á neinar stórvægilegar breytingar, og eru annaðhvort lagfæringar á orðalagi frv. eða afleiðingar af öðrum brtt. Ég skal því ekki fjölyrða frekar um málið að sinni. Ég vona, að hv. dm. komist að þeirri niðurstöðu, að með brtt. minni hl. sé málinu bezt borgið.