13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (3882)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Ég veit ekki, hvort ég á að fara að flytja ræðu mína yfir svo fáum þm. — Form. hinnar svokölluðu skipulagsn., hv. 2. þm. Reykv., hefir nú látið í ljós álit sitt á þessum till. frá meiri og minni hl. n. Mér kom það ekki á óvart, að hann sneri nú við blaðinu, þó að ég gæfi í skyn honum til hróss, að hann hefði látið í ljós við mig, að hann mundi ganga inn á sanngjarna miðlun á málinu, svo sem að bæjarstj. fengi heimild til að veita leyfi innan sinna takmarka. Mér kom ekki á óvart, þó að hann hyrfi til náttúrunnar aftur, till. hv. meiri hl., sem ef til vill er frá honum runnin, sem sé að binda það við bæjarrekstur, en leyfa alls ekki bæjarstj. að hafa neina íhlutun þessara mála, nema því aðeins, að bæjarstj. taki það upp á sína arma. Nú má hann vita, af því að hann er líka bæjarfulltrúi, að Rvíkurbær hefir ekki treyst sér til að annast þessar ferðir, en það taldi hann, að hann og hans samherjar í bæjarstj. hefðu viljað, en það var ekki í öndverðu, heldur á seinna stigi málsins, að þeir vildu, að bærinn tæki sjálfur upp þessa flutninga. Ég hefi eftir því sem fyrir liggur um þetta mál, álitið, að bæjarfélag Rvíkur hafi ekki treyst sér til þess og muni ekki treysta sér til þess, svo að það væri engin ástæða til að hverfa að þessu, sem og er gagnstætt því, er reynsla annarsstaðar frá bendir til.

Í þessu efni höfum við góða reynslu að vitna í á Norðurlöndum. Það er rangt hjá hv. þm., að bæjarstjórnunum væri ætlað að reka þetta á Norðurlöndum, en bæjarstjórnir hafa heimild til að veita innan sinna takmarka slík leyfi.

Það má benda hv. þm. á það, þó að hann þættist ekki vita, hvernig þessu máli væri farið, að Rvíkurbær hefir samkv. því valdi, sem bæjarstj. hefir sama sem gefið þessu félagi, einkarétt til að halda uppi þessum ferðum. Það má segja, að það sé ekki einkaréttur formlega séð, með því að það lágu ekki fyrir lagaákvæði, sem heimiluðu bæjarstj. að gera það formlega, en bæjarstj. hefir veitt þessu félagi þau hlunnindi, að önnur félög komast þar ekki að. Það er faktískur og praktískur einkaréttur, sem þetta félag hefir haft, og það hefir fengið styrk a. m. k. um tíma til að halda uppi ferðum um Rvík og nágrenni. Í fyrsta lagi var það, að samkv. ráðstöfun bæjarstj. var auglýst eftir einstaklingum eða félögum, sem kynnu að vilja taka þetta að sér. Og þá var það, að bæjarstj. samdi við þetta félag, sem nú heitir Strætisvagnafélag Reykjavíkur, og lagði því til stofnstyrk, 15 þús. kr. fyrsta árið, og rekstrarstyrk 12 þús. Síðan hefir félagið ekki krafizt styrks né fengið hann. Félagið hefir verið rekið mjög gætilega og farið vægt í fargjöld, og hefir það blessazt svo, að það hefir ekki þurft á styrk að halda. En bærinn mun ekki veita neinu öðru félagi þennan styrk. Bærinn hefir líka veitt þessu félagi stæði á Lækjartorgi, og það eru dæmi til þess, eins og hv. þm. veit, að annað félag hefir sótt um stæði þar, en ekki fengið, og það mun ekki verða veitt, því að fyrir svo stóra vagna fleiri en þessa félags er ekki pláss þar.

Í þriðja lagi hefir bærinn veitt þessu félagi rétt til að hafa ákveðnar stöðvar, til að nema staðar á og taka fólk, og ekki væri hægt eins og hagar til að veita öðru félagi samskonar leyfi. Þessa undanþágu hefir bæjarstj. veitt með fullkomnu samþykki bæjarráðs, og þetta verður ekki veitt öðrum.

Loks má geta þess í fjórða lagi, að bæjarstj. lagði til, að þetta félag fengi leyfi til að hafa sína vagna breiðari en ella má. Lög heimila, að breidd bifreiða sé aðeins 1.86 m., en þetta félag fékk í gegnum bæjarstj., eða eftir tillögum bæjarstj. til ráðh., leyfi til að hafa sína vagna 2 m. Þetta mundi annað félag ekki fá.

Nú er farið fram á það í brtt. okkar, að þetta heppilega skipulag, samanborið við það, sem er annarsstaðar á Norðurlöndum, sé staðfest með l. sem skipulag bifreiðaferða út um land og líka í bæjum, en með þessu frv. frá skipulagsn. er nú tæplega átt við bæina, því að um það er ekkert tekið fram. Hann sagði líka við 1. umr., hv. 2. þm. Reykv., að þetta hefði ekki verið tekið með, og ef svo er, þá er það galli á frv.

Nú hefir hv. 2. þm. Reykv. horfið frá þessu eðlilega fyrirkomulagi, og veit ég ekki, hverju sætir, því að þótt hann sé að nokkru leyti einokunar- og þjóðnýtingarpostuli, þá er hann það þó ekki svo, að hann geti ekki vitað af einstaklingsfélagsskap, sem einhverjum er til hagsbóta. Ég veit ekki, hvort hann hefir horn í síðu þessa félagsskapar, strætisvagnafélags Rvíkur. Ég vil ekki meina, að hann geti haft það, heldur sé það einhver firra, sem hefir hlaupið í hann, að bæjarstj. sé ókleift að hafa þessi mál með höndum, nema því aðeins, að það sé bæjarrekstur.

Ég var líka hissa á því — þó að hv. 6. landsk., sem er í sama flokki og hv. 2. þm. Reykv., kæmi með þetta —, að framsóknarm. í samgmn. skyldu hoppa inn á það fyrirkomulag, nema þeir fyrir samvinnu sína við sósíalista geti nú ekki greint rétt frá röngu og sjái nú ekkert nema opinberan rekstur, og það þótt sízt skyldi. Ég bjóst ekki við, að þeir væru orðnir svo samdauna sem raun ber vitni um.

Það má vel vera, að hér sé maður að tala fyrir daufum eyrum, þ. e. a. s., þó mennirnir séu skynsamlega sjáandi, þá séu þeir fyrirfram ráðnir í að fella okkar till., minni hl., enda þótt þeir kannske inni við beinið fallist á þær; en þetta sýnir sig nú við atkvgr. En ég vil ætlast til þess og vænta þess, að þegar verið er nú að byrja á því að skipuleggja þennan atvinnuveg, þá geri þeir það ekki að stefnulegu keppikefli endilega að gera úr honum ríkisrekstur eða bæjar. Ég trúi því ekki, að hv. 2. þm. Reykv. vilji egna bæjarstj. hér á móti sér í þessu máli. Honum hlýtur að vera það kunnugt, að meiri hl. hennar er á móti því að þjóðnýta þessa atvinnugrein. Og vill hann þá taka á sína arma ábyrgðina á því að gera þetta gegn vilja bæjarstj. Ég hygg, ef hv. þm. vili fara hér eftir réttum reglum og vera algerlega „loyal“ gagnvart bæjarstj., þá eigi hann að byrja á því að spyrja um álit hennar á málinu. Meiri hl. samgmn. hefir ekki leitað til bæjarstj., heldur til þess aðila, sem nær stendur sjálfum rekstrinum hér. Ég vissi ekki fyrr en á síðustu stundu, að taka ætti ákvæði um flutninga innan bæja upp í frv., og hafði því ekki ráðrúm til að afla mér álits bæjarstj. Tókum við því það ráð að kljúfa n. Nú vil ég skjóta því til hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. N.-Þ., hvort þeir vilja nú ekki sýna bæjarstj. þann heiður að óska eftir áliti hennar og fara eftir því. Hv. 2. þm. Reykv. þóttist ýmislegt hafa að athuga við till. minni hl. n., þó það væri auðsjáanlega meira af vilja en mætti, því hann fór hreint ekki í neinn „habit“, heldur byrjaði á því að þakka allri n. fyrir samstarfið. Enda býst ég við, ef málið hefði ekki komizt inn á þessa braut, að þá hefði n. öll orðið samferða. Ég þarf mjög fáu að svara aths. hans, þær voru flestar almenn orð og hvergi sérstaklega sýnt fram á, að till. okkar væru óframkvæmanlegar. Hvað snertir lengd sérleyfistímabilsins, sem við viljum hafa 4 ár, en þeir ekki nema 3, þá er það náttúrlega ekkert stórt atriði.

Hér er ekki verið að tala um það, hvort sé rangt og hvort rétt, hér er aðeins fyrirkomulagsatriði, og það lítur út fyrir, að 4 ára tímabilið sé haganlegra fyrir leyfishafa. — Hv. þm. virtist vera óskiljanlega mikið á móti því að láta þessi mál heyra undir vegamálastjóra. Hann talaði þar með slíkum krafti (ég er nú svo kurteis að kalla það kraft, en ekki eiginlega vonzku), að ég á sannast að segja bágt með að skilja ástæðuna. Þetta er nú ekki stærra atriði fyrir mér en það, að ég tel það rétt heppilegra. Ef hv. þm. væri því kunnugur. hvernig þessum málum er hagað í Noregi og Danmörku, þá vissi hann það, að þau heyra meira undir vegamálin heldur en póstmálin. Í lögunum í Danmörku er leyft að gefa póststjórninni heimild til ákveðinna flutninga á ákveðnum leiðum, vegna póstflutnings. Að öðru leyti er það víst, að það geta verið þau tilfelli, þar sem auðveldara er fyrir vegamálastjóra, sem öllum leiðum er kunnugur, að hafa yfirstjórn þessara flutninga. Hann hefir í sinni skrifstofu öll nauðsynleg gögn viðvíkjandi ferðum og vegum, en póststjórnin hefir ekkert með flutninga að gera, nema póstflutninga. Hv. 2. þm. Reykv. ætti að vera kunnugt, að póststjórnin hefir ekki betri aðstöðu til að þekkja til vega og flutninga en það, að hún hefir veitt sína flutninga þeim mönnum, sem sízt skyldi og ófærastir hafa verið oft og tíðum til að hafa þá á hendi. Hún hefir því sýnt í því, að hún er lítt fær til að hafa með slíkt að gera. Hún á að koma póstflutningunum fyrir á sem sæmilegastan hátt, en upp á síðkastið hefir hún hugsað um það eitt, að fá þá sem ódýrasta, látið þá til þess, sem bauð lægst, án þess að taka tillit til hins, hvort viðkomandi var starfinu vaxinn, hvort hann skilaði flutningunum eða væri nýtur ábyrgðarmaður fyrir þeim. Við á Suðurlandi þekkjum mörg dæmi um óheppilega stjórn póstflutninganna. Nú er í brtt. okkar póststj. ætlað að vera með í ráðum um þessa flutninga, þar sem hún á að geta fengið fólksflutninga á vissum leiðum, ef hún þarf þess vegna póstflutninganna, sem sjaldnast kemur til. Þessu verður ekki fyrir komið nema á tvennan hátt, annaðhvort með því að láta póststj. hafa þessi mál, eins og gert er ráð fyrir í frv., eða þá að taka þá leið, sem lagt er til í brtt. okkar minni hl. og heppilegri er.

Þá furðar mig það, að þó hv. þm. vilji hér smíða skipulag, þá skuli þeir vilja halda 6. gr. frv. Ég hefi sýnt hv. þdm. fram á, hversu óþarft og óheppilegt það er, að póstmálastjórn hafi þetta vald gagnvart yfirráðum sérleyfishafa yfir atvinnu sinni, því þau ákvæði draga úr áhuga þeirra, sem flutningana hafa á hendi, til þess að láta þá verða notendum til sem mestra þæginda, þegar á að draga af einum og bæta við annan með því að jafna fargjöldunum milli leyfishafa, en ekki láta hvern bera úr býtum eftir því, sem hann vinnur fyrir. Með þessu er kippt burt hvötinni hjá þeim til að vanda sig, þegar þeir fá ekki að njóta þess sjálfir, sem þeir gera betur en aðrir. Þetta er að vísu í samræmi við margt annað í stefnu þessara hv. þm. En ég tel þetta mjög óheppilegt, því stefna þessarar löggjafar á að vera sú að taka sem mest tillit til hagsmuna þeirra manna úti um allt land, sem eiga að njóta flutninganna. Minni hl. samgmn. leggur til, að 6. gr. verði felld burt, og mér er óskiljanlegt, að meiri hl. skuli endilega vilja halda í hana. Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væru skorður gegn einræði póststj. í þessu máli, að nefnd, sem sérleyfishafar skipa, ætti að hafa hér hönd í bagga um þetta atriði. En sú n. þarf ekki að vera skipuð af þeim mönnum, er bezt stunda þessa flutninga. Það gæti vel farið svo, að meiri hl. þeirra, sem n. skipa, væru í hópi þeirra manna, sem hefðu hag af þessari jöfnun, og væru því „interesseraðir“ fyrir því að jafna fargjöldunum. Það eitt er víst, að þetta miðar að því að draga úr því, að ferðirnar verði sem þægilegastar fyrir einstaklingana, sem eiga að nota þær, en það er ef til vill það, sem á að nást með þessari 6. gr.

Annað er nú víst ekki svaravert í ræðu hv. 2. þm. Reykv. Hann sagði, að minni hl. n. vildi vinna því opinbera sem mest ógagn með sínum brtt. Þetta er náttúrlega hin mesta fjarstæða. Rauði þráðurinn í okkar brtt. er sá, að gera viðskipti þessi sem greiðust, jafnframt því, að sjá borgið þörfum almennings. Og ég get ekki skilið, á hvaða grundvelli frv. sem þetta á að byggjast, ef ekki á þessum. Annar grundvöllur er ekki heppilegur og sízt í samgöngumálum. Þau mál eru þannig vaxin, að það er alveg sérstök þörf í sambandi við þau að taka tillit til allra.

Það fer um þetta mál sem auðið er, og líklega keyrir meiri hl. í gegn sínar brtt. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að tala meira að þessu sinni yfir því fámenni, sem við hæstv. forseti höfum hér við að búa.