13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2751 í B-deild Alþingistíðinda. (3883)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Héðinn Valdimarsson [óyfirl.]:

Ég vona, að ég þurfti ekki eins langan tíma til þess að svara hv. þm. V.-Sk. eins og hann notaði til þess að svara mér. — Í sambandi við fólksflutninga í bæjum talaði hann eingöngu um Reykjavík og sýndist hafa mestan áhuga fyrir því, að Strætisvagnafélag Rvíkur gæti haldið áfram sínum ferðum í sama formi. Nú er það svo, að allar líkur eru fyrir því, að félagið fái að halda áfram. Með frv. er bænum ekki gert að skyldu að taka þessa flutninga í sínar hendur, heldur er hér aðeins heimild fyrir sérleyfi, og annað ekki. Ég er hinsvegar sannfærður um, að það væri bænum fyrir beztu að fá það leyfi; það er ljóst, er lítið er á rekstur strætisvagnanna. Með 27000 kr. styrk frá bænum og 40000 kr. framlagi hefir þetta félag getað tvöfaldað sína vagnatölu á 2 til 3 árum. Ég get því ekki séð, að bænum ætti að vera ofvaxið að hafa hagnað af þessum rekstri. Það eina, sem bærinn er riðinn við hina svokölluðu samninga félagsins, er það að leyfa félaginu stæði fyrir vagna sína á Lækjartorgi. Breidd vagnanna hefir ríkisstj. með að gera, og hefir hún gefið fleirum en strætisvagnafélaginu undanþágu í því efni. Ég tel alveg rétt, að bærinn taki í sínar hendur þennan rekstur, af því hann getur áreiðanlega haft hag af því, þó hann hækki ekki taxtann. Eins tel ég sjálfsagt að samþ. ákvæði um það, að bærinn hafi rétt til að taka flutningana í sínar hendur á 3 ára tímabili, í stað þess, sem hún gæti það ekki fyrr en eftir 7 eða 8 ár eftir núgildandi samningum. Hitt er rétt hjá hv. þm., að það er heppilegust, að þessir flutningar séu á einni hendi. Það er nú komið svo, að strætisvagnarnir aka ekki einasta um bæinn, heldur eru þeir nú farnir að teygja sig langt út fyrir bæinn, út í nágrennið og ómögulegt að vita, hvar þeir láta staðar numið. Ég hygg, að það hafi verið óþarft að spyrja bæjarstj. um álit á þessu máli. Ég hygg, að það muni vera fyrirfram víst, hvernig hún mundi taka í það mál. Sjálfstæðismennirnir þar mundu verða sammála flokksbræðrum sínum hér, en stjórnarflokkarnir fylgja frv.

Það þarf ekki að deila um leyfistímabilið. Ég held því fram, að 4 ár sé of langur tími. Á þeim árum þurfa leyfishafar að vera búnir að endurnýja vagna sína, en það er óþægilegt fyrir þá, ef þeir halda ekki flutningunum áfram, og því er það óheppilegur tími.

Ég er nú búinn að færa fram ástæður fyrir því, hvers vegna réttara er, að póststjórnin hafi yfirstjórn þessara mála heldur en vegamálastjóri og póststjórnin í sameiningu. Þá leggur hv. þm. mikið kapp á að fella burt 6. gr. Sú grein felur aðeins í sér heimild, og hún kemur varla til greina nema þar, sem um verulegan mun er að ræða, og þeir, sem um þessi mál fjalla, óski eftir því, að munurinn sé jafnaður. Hinsvegar álít ég, að þessi ákvæði verði til þess, að gerðar verði jafnari kröfur til ökumanna en gert hefir verið. Aftur mundi draga úr ýmiskonar greiða, sem bifreiðastjórar gera sumu ferðafólki á kostnað annara farþega, t. d. með því að fara óteljandi snattferðir og króka, sem að vísu eru þægilegir fyrir suma, en til stórra óþæginda fyrir aðra. Það er einmitt líklegt, að skipulagið felli niður þennan ósið, og er áreiðanlegt, að allir verða ánægðir með það, þegar breytingin er komin á.