13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2753 í B-deild Alþingistíðinda. (3885)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Sigurður Einarsson:

Þetta er aðeins örstutt aths. áður en umr. er slitið. — Það hafa komið hér fram í umr. um brtt. á þskj. 339 og 340 alveg samskonar átök eins og við höfum orðið varir við í fleiri málum, sem komið hafa til kasta þessarar hv. d., að annar hlutinn vill hafa löggjöf fyrir allt landið, en hinn hlutinn óskar að vísu í orði kveðnu að fá löggjöf fyrir allt landið, en fyrst og fremst sniðna við hæfi vissra aðila hér í höfuðstaðnum. Það hefir þegar verið tekið greinilega fram, að brtt. minni hl. eru fyrst og fremst gerðar til þess að þóknast vissum aðilum hér í Rvík. Það er sama aðstaða sem kom fram við umr. um frv. um vinnumiðlun og frv. um verkamannabústaði.

Það er eitt atriði, sem ég vil sérstaklega vekja athygli á, og það er, að minni hl. leggur til, að yfirstjórn þessara mála sé einkum lögð í hendur vegamálastjóra, en póststjórnin er sá aðili, sem meiri hl. og frv. upphaflega gerir ráð fyrir, að hafi með þetta að gera. Nú eru það mjög óskyld störf, sem þarf ólíka hæfileika og kunnáttu til, annarsvegar að leggja ráðin á um það, hvar vegir eigi að vera og hvernig sé hagkvæmast að gera þá úr garði, og hinsvegar að skipuleggja notkun vegakerfisins til þess að það komi að sem almennustum notum. Um leið og vegamálastjórnin væri gerð að hinum eiginlega stjórnanda þessa skipulags á flutningunum, væri vegamálastjóri gerður að einskonar dómara sinna eigin verka, sem hinsvegar gæti ekki átt sér stað, ef póstmálastjórnin færi með þessi mál. Póstmálastjórnin hefir fyrst og fremst „interesse“ af því, að það gangi sem greiðlegast að koma blöðum og bréfum út um landið, og verður því gleggsti dómarinn um það, hvernig tekizt hefir að gera vegakerfið úr garði, eftir því, sem efni standa til á hverjum tíma. Ég er heldur alls ekki viss um, að vegamálastjóri kæri sig um að leggja á sig sérstök skipulagningarstörf á þessu sviði ofan á önnur störf sín, sem liggur í hlutarins eðli, að póststjórnin er hvort sem er alltaf að fást við. Það er viðurkennt, að núv. vegamálastjóri er duglegur embættismaður, en hann er maður, sem ég efast stórlega um, að fari að bæta á sig yfirstjórn flutninga á landi. Hann á framundan sér svo ótakmörkuð viðfangsefni og vandaverk á sviði vegalagninganna sjálfra, að ég held, að það sé alls ekki rétt hugsað að fara að blanda flutningamálunum inn í hans verkahring.

Það er rétt hjá hv. þm. N.-Þ. og þarf að takast greinilega fram, að brtt. meiri og minni hl. eru svo samræmdar innbyrðis, að ekki dugir að samþ. eina og eina till. af hvoru blaði á víxl, til þess að þetta verði heppilega rímað saman. Hér er um tvær götur að velja; minni hl. vill fara allt aðra braut í þessu máli heldur en meiri hl., og ég verð að líta svo á, að það sé að velja verri leiðina af tveimur, ef brtt. minni hl. eru samþ.