16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (3891)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. minni hl. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Við hv. 1. þm. Rang. höfum leyft okkur að bera fram nokkrar brtt. við þetta frv. við þessa (3.) umr. Það er ljóst, að bæði ég og ýmsir aðrir hv. dm. eru óánægðir með frv. eins og það var afgr. við 2. umr. Við mundum þó telja það til nokkurra bóta á verstu ágöllum frv., ef brtt. á þskj. 484 yrðu samþ. Ég ætla, að þær séu þann veg sniðnar, að allir hv. dm. geti sætt sig við, að þær fái að fljóta inn í frv. — 1. brtt. er um það, að póstmálastjórnin hafi með höndum yfirstjórn og eftirlit flutninganna í samráði við vegamálastjórnina. Við 2. umr. var felld till. minni hl. n. um, að vegamálastjórnin hefði aðalumsjónina, og samkv. frv. eins og það er nú er þetta falið póstmálastjórninni einni. Við álítum, að það sé til bóta að hafa vegamálastj. með í ráðum, því að hún hefir að ýmsu leyti betri aðstöðu og betri tök á þessum málum en póstmálastjórnin.

2. brtt. er við 6. gr. og mælir svo fyrir, að því aðeins skuli leyfð sú skipting milli hlutaðeigenda, sem þar greinir, að sú nefnd, sem til er vitnað, sé á einu máli um það atriði. En sú nefnd er skipuð fulltrúum sérleyfishafa.

3. brtt. er við 8. gr., og er farið fram á, að álits bæjarstj. sé leitað áður en veitt er sérleyfi til fólksflutninga með strætisvögnum í kaupstöðum. Aðstaða bæjarstjórna var nokkuð umþráttuð við 2. umr., og skal ég ekki fara út í það. Ég tel það til nokkurra bóta, ef þessi brtt. verður samþ., þó að ég hefði kosið verulegri breytingar á 8. gr.

Þá er 4. brtt., sem ég hygg, að sé í fullu samræmi við þær yfirlýsingar, sem gefnar hafa verið í deildinni og einnig er vikið að í grg. Það er að sjálfsögðu ekki meiningin að hundsa þá menn, sem komið hafa á föstum áætlunarferðum á ákveðnum leiðum, þegar lögin koma í gildi. Það virðist sjálfsagt, að þeir sitji fyrir að öðru jöfnu við veitingu sérleyfis, og við viljum tryggja, að ekki sé gengið á eðlilegan rétt þessara manna. — Ég tel svo ekki þörf á að hafa um þetta fleiri orð, því að málið hefir þegar verið mikið rætt og er öllum kunnugt.