16.11.1934
Neðri deild: 38. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2759 í B-deild Alþingistíðinda. (3893)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Út af þeim brtt., sem hér hafa komið fram, vil ég segja f. h. meiri hl. samgmn., að við brtt. á þskj. 447 höfum við ekkert sérstakt að athuga. Hún nemur burt óákveðið orðatiltæki, og er ekki nema gott um það að segja, því bezt er, að lög séu sem skýrust í öllum greinum.

Um 1. lið brtt. á þskj. 484 er það að segja, að við getum ekki séð, að sú breyt. sé á neinn hátt til skaða. Aðalstjórn þessara mála verður eftir sem áður í höndum póstmálastj., og ef ágreiningur verður, sker ráðh. úr. Ég sé að vísu ekki, að þessi breyt. sé til neinna bóta, en meinlaus má hún víst teljast. — Um 3. lið er líkt að segja. Það getur ekki skaðað á neinn hátt, þó að leitað sé álits og till. bæjarstjórna um veiting sérleyfis til fólksflutninga innan kaupstaða. Yfirstjórn þessara mála er ekki bundin við að fara eftir þeim till., ef henni sýnist annað hagkvæmara og réttara. — Um 4. lið brtt. skal ég taka það fram, að allir munu hafa litið svo á í upphafi, að sjálfsagt væri, að þeir sætu fyrir sérleyfum, sem þegar hefðu tekið upp fastar ferðir á ákveðnum leiðum. Þetta var talið svo sjálfsagt, að ekki þyrfti að setja það í lögin, en vitanlega er ekkert á móti því, að það sé sett í frv. — Um 2. lið brtt. gæti helzt verið spurning, hvort breytt væri til hins verra eða betra. Eftir frv. má líta svo á, að meiri hl. þeirrar n., sem bifreiðaeigendur skipa, geti ráðið í þessu tilfelli, en samkv. brtt. er ákveðið, að til þess þurfi einróma samþ. hennar. Afleiðingin yrði sú, að einstakur sérleyfishafi gæti hindrað þá framkvæmd, sem aðrir væru sammála um. Þetta er eina atriðið í brtt., sem gæti verið hættulegt, og geri ég ráð fyrir, að ég greiði atkv. á móti því, en hinsvegar mun ég fylgja hinum brtt.